KA náði sínum næstbesta árangri í sögunni á síðasta ári þegar liðið hafnaði í öðru sæti Bestu deildar karla. Akureyrarliðið virðist vera sterkara í ár ef eitthvað er, og því er athyglisvert að því sé almennt ekki spáð ofar en í fjórða sæti fyrir tímabilið 2023 sem hefst á mánudaginn.
KA sigldi fram úr Víkingi á lokasprettinum í fyrra og náði silfrinu. Þrátt fyrir að aðalmarkaskorarinn og besti leikmaður deildarinnar, Nökkvi Þeyr Þórisson, hyrfi á brott, og Arnari Grétarssyni væri sagt upp störfum fyrir síðustu fimm umferðirnar, hafði það engin áhrif á gengi liðsins. Eina skiptið sem KA hefur gert betur var árið 1989 þegar félagið varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina skiptið til þessa.
Hallgrímur Jónasson tók við, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari um nokkurt skeið, og er að hefja sitt fyrsta tímabil sem meistaraflokksþjálfari.
KA-menn hafa þétt nokkuð raðirnar frá því í fyrra og virðast vera með breiðari hóp. Auk Nökkva sem fór í ágúst er vinstri bakvörðurinn Bryan Van Den Bogaert, sem fór til Kasakstan, eini fastamaðurinn sem er horfinn á braut. Slóvenski varnarmaðurinn Gabor Dobrovoljc fór aftur heim en hann spilaði lítið í fyrra.
Færeyski landsliðsmaðurinn Pætur Petersen sem kom frá HB í Þórshöfn fer vel af stað og virðist fylla skarð Nökkva og þá hefur hinn breski Harley Willard bæst við í framlínuna. Hann lék með Þór í fyrra og hefur skorað grimmt í 1. deildinni undanfarin ár. Birgir Baldvinsson kom heim frá Leikni í Reykjavík og eykur breiddina í bakvarðastöðunum. Þá eru tveir 19 ára piltar komnir frá Viking í Noregi, íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Ingimar Stöle og Kristoffer Paulsen.
KA-menn sýndu styrk sinn í deildabikarnum þar sem þeir töpuðu úrslitaleiknum gegn Val í vítaspyrnukeppni eftir jafntefli, 1:1. Eftir tap í Keflavík í fyrsta leik fengu þeir aðeins þrjú mörk á sig í sex leikjum í keppninni.
KA flutti af Akureyrarvelli á sitt eigið svæði snemma á síðasta tímabili og getur nú spilað þar frá byrjun eftir að hafa hafið tvö síðustu tímabil með Dalvíkurvöll sem heimavöll. Nýr völlur er í byggingu hjá félaginu.
Getur KA fylgt eftir óvæntum árangri í fyrra og fest sig í sessi sem eitt af toppliðunum? Nú leikur liðið í Evrópukeppni í fyrsta skipti í 20 ár og hjá í það minnsta helmingi Akureyringa standa væntingar til þess að það endurtaki leikinn.