Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Ísland stendur frammi fyrir fjölþættum ógnum, s.s. netógnum og upplýsingalekum. Árásir á mikilvæga innviði á borð við virkjanir, fjarskiptakerfi og sæstrengi eru einnig ofarlega á lista. Þannig eru skærur og skemmdarverk ekki síður alvarlegar öryggisógnir en bein hernaðarátök.
Þetta segir Nick Childs, sérfræðingur hjá varnarmálahugveitunni IISS í Lundúnum, í samtali við Morgunblaðið, en leitað var eftir áliti hans á stöðu Íslands nú þegar öryggisástand Evrópu hefur tekið miklum breytingum til hins verra í kjölfar árásarstríðs Rússlands í Úkraínu.
Childs segir algera umpólun hafa átt sér stað í umræðu um varnarmál í Evrópu sl. mánuði. Evrópa standi nú frammi fyrir nýjum veruleika – hernaðarógn frá Rússum og auknum áhuga Bandaríkjanna í austri vegna umsvifa Kína.
Mikil mistök voru gerð
Að sögn Childs voru það mistök af hálfu Bandaríkjanna að loka varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Það séu þó að líkindum enn stærri mistök að hafa ekki þegar endurskoðað þá ákvörðun. Eyðimerkurganga Rússa í Úkraínu, tækjatjón þeirra og laskaður Svartahafsfloti skapar nýja ógn á Atlantshafi. Á komandi misserum spili Rússar að öllum líkindum norðurflotanum meira út en áður til að halda úti þeirri ímynd að Rússland sé herveldi sem beri að varast. Þá mun samband Kína og Rússlands skipta miklu fyrir norðurslóðir.
Keflavíkurstöðin
Bandarísk yfirvöld tilkynntu í mars 2006 að allar þyrlur og orrustuþotur yrðu fluttar burt.
Var ákvörðunin sögð persónuleg ákvörðun George W. Bush forseta að áeggjan Donalds Rumsfeld varnarmálaráðherra. Stöðinni var skellt í lás í september sama ár.