Vígsla Sturla Böðvarsson, þáv. samgönguráðherra, klippti á borðann með aðstoð Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra. Karlakórinn Jökull söng.
Vígsla Sturla Böðvarsson, þáv. samgönguráðherra, klippti á borðann með aðstoð Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra. Karlakórinn Jökull söng. — Morgunblaðið/Sigurður Mar
Fljótlega eftir páska verður ráðist í endurbætur á Almannaskarðsgöngum, sem eru skammt austan Hafnar í Hornarfirði. Vegagerðin hefur samið við fyrirtækið Heflun ehf. í Lyngholti á Hellu að vinna verkið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fljótlega eftir páska verður ráðist í endurbætur á Almannaskarðsgöngum, sem eru skammt austan Hafnar í Hornarfirði. Vegagerðin hefur samið við fyrirtækið Heflun ehf. í Lyngholti á Hellu að vinna verkið.

Jarðgöngin undir Almannaskarð voru formlega opnuð 23. júní 2005 af Sturlu Böðvarssyni þáverandi samgönguráðherra. Jarðgöngin sjálf eru tvíbreið, 1.146 metrar að lengd og steyptir forskálar eru 162 metrar. Göngin teljast því í heild 1.308 metrar. Göngin þóttu mikil samgöngubót á sínum tíma en nú var kominn tími á endurbætur. Árið 2021 fóru 520 bílar um göngin á dag yfir árið en umferð er langmest yfir sumarmánuðina. Samkvæmt yfirliti á vef Vegagerðarinnar eru þetta næststystu jarðgöng landsins. Aðeins Strákagöng við Siglufjörð eru styttri, 800 metrar.

Margvíslegar endurbætur

Samkvæmt verklýsingu Vegagerðarinnar fela endurbæturnar í sér gerð steyptra vegaxla ásamt fráveitulögn, ídráttarrörum og jarðstreng þar undir. Við núverandi fráveitukerfi ganganna koma ný niðurföll og sandfangsbrunnar með vatnslás úr járni sem tengjast inn á núverandi jarðvatnslagnir.

Að auki á að færa til núverandi niðurföll í skálum. Leggja skal 11kV jarðstreng fyrir RARIK í vegöxl í gegnum jarðgöngin.

Tilboð í verkið voru opnuð 17. janúar 2023. Þrjú tilboð bárust. Ístak hf., Mosfellsbæ bauð krónur 285,8 milljónir, Gröfuþjónusta Olgeirs, Höfn 163,4 milljónir og Heflun ehf., Lyngholti 125,8 milljónir. Áætlaður verktakakostnaður er tæpar 123 milljónir.

Umferðarstýring (umferðarljós) verður um göngin á framkvæmdartímanum.

Almannaskarð er gamall fjallvegur 10 km. austan við Höfn. Skarðið skiptir sveitunum Nesjum og Lóni. Á heimasíðu Ríkis Vatnajökuls má lesa að til ársins 2005 hafi Almannaskarð verið hluti af þjóðvegi 1. Vegurinn þótti hættulegur og var brattasti hluti hans í 17% halla. Í skriðum var slysahætta mikil, ekki síst yfir vetrartímann. Einnig var hætta á grjóthruni allt árið og vegurinn svo þröngur að erfitt var fyrir bíla að mætast.

Göngin undir skarðið voru því mikil samgöngubót fyrir heimamenn og landsmenn alla.

„Vegurinn vestan megin er ekki lengur opinn fyrir bílaumferð en hægt er að leggja bílnum neðan við Almannaskarð og ganga upp. Heimamenn ganga margir reglulega upp skarðið sér til heilsubótar. Efst í Almannaskarði er útsýnisskífa sem gaman er að skoða. Útsýnið yfir jöklana, Höfn og sveitirnar er stórfenglegt,“ segir á heimasíðunni.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson