[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
U16-ára landslið stúlkna í knattspyrnu endaði með fullt hús stiga eða 9 stig á Þróunarmóti UEFA sem fram fór í Wales og lauk í gær. Íslenska liðið vann öruggan sigur gegn Wales í lokaleik sínum á mótinu í gær, 4:0, en Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir…

U16-ára landslið stúlkna í knattspyrnu endaði með fullt hús stiga eða 9 stig á Þróunarmóti UEFA sem fram fór í Wales og lauk í gær. Íslenska liðið vann öruggan sigur gegn Wales í lokaleik sínum á mótinu í gær, 4:0, en Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði tvö mörk fyrir íslenska liðið og þær Brynja Rán Knudsen og Hrefna Jónsdóttir sitt markið hvor. Íslenska liðið lauk keppni með 9 stig eftir örugga sigra gegn Tékklandi, Ísrael og Wales en liðið endaði með markatöluna 13:2.

Hjalti Þór Vilhjálmsson hefur sagt starfi sínu, sem þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfuknattleik, lausu eftir að liðið féll úr leik gegn Tindastóli í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn á laugardaginn. Hjalti Þór greindi frá því í samtali við fjölmiðla, þar á meðal Stöð 2 Sport og Körfuna, að um síðasta leik hans við stjórnvölinn hafi verið að ræða. Hann tók við liðinu árið 2019 og þjálfaði Keflvíkinga því um fjögurra ára skeið.

Afturelding og Völsungur nældu sér á laugardaginn í sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki með sigrum í seinni leikjum sínum í fyrstu umferðinni. Afturelding vann Þrótt úr Fjarðabyggð en Völsungur lagði HK að velli. Í undanúrslitunum mætast KA og Völsungur annars vegar og Álftanes og Afturelding hins vegar. Í karlaflokki tryggði Vestri sér sæti í undanúrslitunum með sigri gegn Þrótti úr Fjarðabyggð. Í undanúrslitunum karlamegin mætast Hamar og Vestri annars vegar og Afturelding og KA hins vegar.

Einar Eyþórsson úr Mývetningi fagnaði sigri í karlaflokki á Íslandsglímunni sem fram fór í íþróttahúsi Glerárskóla á Akureyri á laugardaginn. Einar hafði betur gegn Hákoni Gunnarssyni úr Val á Reyðarfirði í úrslitaglímunni og stóð uppi sem glímukóngur Íslands í fyrsta sinn. Í kvennaflokki mættust systurnar Kristín Embla og Elín Eik Guðjónsdætur úr Val á Reyðarfirði þar sem Kristín Erla hafði betur og varð glímudrottning Íslands í þriðja sinn á ferlinum.

Fyrirliðar liðanna tíu sem skipa Bestu deild kvenna í knattspyrnu hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem hagsmunasamtök félaga í tveimur efstu deildum karla og kvenna á Íslandi, Íslenskur toppfótbolti, eru gagnrýnd harðlega. Fyrirliðunum þykir mjög halla á Bestu deild kvenna í samanburði við Bestu deild karla þrátt fyrir að ÍTF hafi gefið það út að um eitt sameiginlegt vörumerki væri að ræða. Af þeim sökum hafa leikmenn allra tíu liðanna tekið sameiginlega ákvörðun um að mæta ekki til ÍTF í dag, þar sem til stóð að taka upp markaðsefni fyrir komandi tímabil.

Körfuknattleiksþjálfarinn Arnar Guðjónsson, aðalþjálfari karlaliðs Stjörnunnar og meðþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, var á dögunum úrskurðaður í tveggja leikja bann. Bannið fékk Arnar fyrir háttsemi sína í þriðja leik Stjörnunnar og Þórs á Akureyri í úrslitum 1. deildar kvenna sem fram fór hinn 12. apríl í Garðabænum. Arnar missti því af fjórða leik liðanna sem fram fór á Akureyri á laugardaginn og lauk með sigri Þórsara, 91:84. Hann missir einnig af oddaleik liðanna um meistaratitil 1. deildarinnar sem fram fer í Garðabænum annað kvöld en bæði lið leika í úrvalsdeildinni á næsta keppnistimabili.

Ýmir Örn Gíslason og liðsfélagar hans í Rhein-Neckar Löwen eru þýskir bikarmeistarar í handknattleik eftir dramatískan sigur gegn Magdeburg í vítakeppni í úrslitaleik í Köln í gær. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 27:27 og því var gripið til framlengingar þar sem allt virtist stefna í sigur Löwen þangað til Kay Smits jafnaði metin fyrir Magdeburg með síðasta skoti framlengingarinnar, 31:31. Í vítakeppninni hafði Löwen betur, 5:3, en Ýmir Örn skoraði eitt mark fyrir Löwen í leiknum á meðan Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og gaf fimm stoðsendingar. Þetta er í annað sinn sem Rhein-Neckar Löwen fagnar sigri í bikarkeppninni en Magdeburg hefur einnig unnið keppnina í tvisvar, síðast árið 2016.