Guðrún Sigurðardóttir fæddist í Holtskoti, Seyluhreppi í Skagafirði, 14. febrúar 1934. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. mars 2023.

Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurjónsson frá Geldingaholti í Skagafirði, f. 18. september 1900, d. 6. ágúst 1983, og Ingibjörg Efemía Jónsdóttir frá Grófargili í Skagafirði, f. 16. maí 1904, d. 24. ágúst 2000.

Systkini Guðrúnar eru Erla Guðbjörg, f. 3. febrúar 1935, d. 17. apríl 2021, Jón Einar, f. 16. desember 1937, d. 18. október 2022, Sigurlína, f. 20. ágúst 1940, Árni Theodór, f. 27. júlí 1942, d. 12. október 1942, Árni Sigurjón, f. 14. apríl 1944, Sigrún, f. 24. júní 1947.

Guðrún ólst upp ásamt systkinum sínum á Marbæli, Seyluhreppi í Skagafirði. Hún stundaði nám við Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og 18 ára gömul fór hún til Reykjavíkur og vann þar við ýmis störf. Þann 2. nóvember 1958 giftist hún Guðmundi Ingimar Magnússyni húsasmíðameistara frá Herjólfsstöðum í Skagafirði, f. 23. ágúst 1928, d. 7. nóvember 2012. Foreldrar hans voru Magnús Elías Sigurðsson frá Tröð, Bolungarvík, f. 6. nóvember 1890, d. 3. júlí 1974, og Þórunn Björnsdóttir frá Skíðastöðum í Skefilsstaðahreppi, f. 20. ágúst 1885, d. 9. janúar 1970.

Börn Guðrúnar og Guðmundar eru:

1) Sigurbjörg, f. 23. október 1953, maki Sigurður Pálsson, f. 26. júní 1953, dætur þeirra eru: a) Guðrún, maki Steinmar Heiðar Rögnvaldsson, börn þeirra eru Sunna Karen, María Björg og Aron Atli, b) Þóra Sif, maki Ingi Hrannar Heimisson, börn þeirra eru Sigurður Kári, Sverrir Páll, Sigríður María og Selma Guðrún, c) Heiða Björg, maki Sveinn Orri Vatnsdal, synir þeirra eru Rúnar Daði og Emil Orri.

2) Þórarinn Magnús, f. 4. febrúar 1960, sonur hans er Andri Ingimar.

3) Sigurlaug, f. 8. janúar 1962, maki Níels Adolf Ársælsson, f. 17. september 1959, d. 14. janúar 2020, synir þeirra eru: a) Arnar Geir, synir hans eru Níels Aron, Garðar Máni og Tryggvi Malik, b) Ársæll, maki Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir, synir þeirra eru Úlfur Máni, Alexander Hrafn og Tristan Ernir, c) Egill, d) Guðmundur, e) Styrmir.

4) Hjördís, f. 30. nóvember 1963, d. 16. ágúst 2021.

5) Birna, f. 23. júlí 1965, maki Guðni Þór Sigurjónsson, f. 14. september 1963, d. 24. janúar 2015, börn Birnu eru: a) Katrín Melkorka Hlynsdóttir, maki Kristján Rúnar Egilsson, sonur þeirra er Bjarki Marinó, b) Sigurjón Guðnason, maki Ástrós Benediktsdóttir.

6) Birgir Heiðar, f. 20. ágúst 1972, maki Helena Björk Pálsdóttir, f. 1. febrúar 1965, börn þeirra eru: a) Einar Andri Ólafsson, b) Ester Jenný, maki Björgvin Helgi Jóhannsson, dóttir þeirra er Matthildur Ása, c) Bjarki Heiðar.

Guðrún og Guðmundur bjuggu lengst af í Kópavogi, fyrst á Nýbýlavegi 54 og síðar byggðu þau sér hús að Álfabrekku 9 þar sem þau bjuggu bæði til æviloka. Útför Guðrúnar fór fram frá Digraneskirkju 24. mars 2023.

Guðrún Sigurðardóttir, tengdamóðir mín, er látin eftir stutt veikindi. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi þar sem hún var umkringd ástvinum allt til síðustu stundar.

Guðrúnu kynntist ég þegar við Birgir, yngri sonur hennar, fórum að stinga saman nefjum um mitt ár 2007. Ég var boðin velkomin í fjölskylduna af þeim hjónum Guðrúnu og Guðmundi, og fjölskyldu þeirra. Guðrún var fremur hæglát kona og fór ekki mikið fyrir henni þar sem hún kom. Hún gat þó verið ákveðin líka þegar svo bar undir og gat einnig átt það til að lauma fram skemmtilegum gullkornum þegar síst varði.

Heimili þeirra hjóna í Álfabrekku í Kópavogi varð einhvers konar miðstöð fyrir fjölskylduhittinga. Þar komu börn þeirra hjóna og barnabörn saman til skrafs og ráðagerða. Alltaf var gaman að spjalla við Guðrúnu, sérstaklega um gamla tíma og ættfræði, þeim áhuga deildum við og gátum endalaust spjallað um slíkt. Guðrún var þar hafsjór fróðleiks um menn og málefni og kom maður sjaldnast að tómum kofunum þar. Guðrún fylgdist vel með heimsmálunum og sköpuðust oft fjörlegar og skemmtilegar umræður um það sem efst var á baugi í þjóðfélagsmálum þá stundina og hafði hver sína skoðun í þeim efnum.

Guðrún hélt skarpri hugsun alveg fram til síðasta dags. Nokkrum dögum fyrir andlátið voru henni sýndar fjölmargar gamlar fjölskyldumyndir margra ættliða og gat hún nefnt nöfn flestra þeirra sem á myndunum voru, hvort sem það voru hennar eign börn, systkinabörn, systkini foreldra eða barnabörn.

Guðrún var kona af gamla tímanum, sem vildi bjóða gestum sínum allt það besta sem hún átti. Af hógværð afsakaði hún það oft að ekkert væri nú til en tókst samt einhvern veginn alltaf að kalla fram hlaðborð af veitingum.

Guðrún gekk í gegnum bæði gleði og sorgir en bar tilfinningar sínar ekki utan á sér og stóð alltaf bein í baki í gegnum allt. Ég undraðist það stundum hvernig hægt væri að halda slíkri ró á erfiðum tímum sem ég sá hjá henni. Hún hefur án efa átt sínar erfiðu stundir en þær voru þá líklegast í einrúmi.

Guðrúnar tengdamóður minnar minnist ég með hlýju og þakklæti fyrir samveruna og fyrir að hafa fengið að kynnast henni.

Hún var góð kona sem af hógværð sinnti sínu fólki sem best hún gat.

Börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Helena B. Pálsdóttir.

Elsku fallega mamma mín, nú höfum við fylgt þér síðasta spölinn úr þessari jarðvist. Þú ert komin í ný heimkynni þar sem pabbi og Hjördís umlykja þig ást og hlýju og hjálpa þér að fóta þig á nýjum stað.

Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur gefið mér og kennt mér, ég gat alltaf leitað til þín ef eitthvað bjátaði á. Þú varst hjartað í fjölskyldunni, við systkinin áttum góða æsku þar sem þú gerðir alltaf svo gott úr öllu. Barnabörnin þín eiga eftir að sakna þess að fara ekki til ömmu í Álfabrekku, en sum þeirra voru mikið hjá þér. Fyrir mér varst þú fyrst og fremst mamma mín, en einnig persóna sem hefur gengið í gegnum erfiðleika, sorg, hamingju og gleði á þinni löngu ævi.

Allar mínar góðu minningar um þig geymi ég í hjarta mínu.

Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér,

þú logar enn,

í gegnum bárur, brim og voðasker.

nú birtir senn.

Og ég finn aftur andans fögru dyr

og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr.

(Matthías Jochumsson)

Hvíl í friði elsku mamma,

þín

Birna.