Hjónin Sigríður Petra og Guttormur stödd á Krossi.
Hjónin Sigríður Petra og Guttormur stödd á Krossi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guttormur Sigfússon fæddist á páskadegi 17. apríl 1938 á Krossi í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði. Hann ólst þar upp með foreldrum sínum sem eignuðust tíu börn. Níu komust á fullorðinsár. Þann 31. janúar 1951 fórst Sigfús faðir hans með flugvélinni…

Guttormur Sigfússon fæddist á páskadegi 17. apríl 1938 á Krossi í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði. Hann ólst þar upp með foreldrum sínum sem eignuðust tíu börn. Níu komust á fullorðinsár.

Þann 31. janúar 1951 fórst Sigfús faðir hans með flugvélinni Glitfaxa sem var á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Flugvélin hvarf í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Með vélinni fórust 20 manns. Þetta var mikið áfall fyrir Sólrúnu móður hans og öll börnin. Við tók hörð lífsbarátta. Fjölskyldan náði með miklum dugnaði og samheldni að halda jörðinni og byggja hana upp.

„Brynjólfur Sigbjörnsson á Ekkjufelli kom upp í Kross daginn eftir og sagði mömmu að flugvélarinnar væri saknað. Þá var ekki kominn sími um alla sveitina en það var símstöð á Ekkjufelli. Þangað hafði verið hringt og beðið um að þessar hræðilegu fréttir yrðu færðar fólkinu á Krossi. Þrátt fyrir áfallið gekk ótrúlega vel að halda búskapnum áfram. Páll elsti bróðir minn leiddi okkur áfram í því sem gera þurfti með mömmu. Þetta blessaðist allt.“

Guttormur var í barnaskóla á Helgafelli í Fellum. Hann fór svo í Alþýðuskólann á Eiðum og var þar frá 1954 til 1957. Hann var góður námsmaður, náði framúrskarandi námsárangri og hlaut viðurkenningar. Eftir námsárin á Eiðum fór hann á vertíðir eins og títt var um unga menn á Héraði. Hann var fyrst eina vertíð á bátnum Ljósafelli frá Fáskrúðsfirði. Svo fór hann með bræðrum sínum þrívegis til Vestmannaeyja og svo var hann tvisvar á vertíð á Akranesi.

Árið 1964 tóku hann og Baldur bróðir hans við búskapnum á Krossi. Þeir stækkuðu búið og efldu. Eftir 1969 bjó Guttormur einn bræðranna á Krossi ásamt eiginkonu sinni Sigríði Petru og börnunum. Búið var með kindur og kýr. Guttormur vann oft utan heimilis með búskapnum. Til fjölda ára við trésmíðar og mörg haust var hann fláningsmaður í sláturhúsi Verslunarfélags Austurlands.

„Ég hafði alltaf gaman af bústörfum alveg frá því ég var strákur. Sérstaklega hafði ég ánægju af að fást við sauðfé. Ég hafði minna gaman af kúnum. Búskapurinn gekk í heild vel en 1990 var allt fé á Héraði skorið niður vegna riðuveiki. Ég tók fé aftur og hafði hug á að halda áfram en þá sýndi Einar sonur minn áhuga á að taka við búskapnum og mér fannst skynsamlegt að skipta um starfsvettvang á þessum tímapunkti. Einar og Harpa Rós kona hans tóku við búskapnum 1993. Við Sigríður fluttum þá niður í Fellabæ og ég fékk vinnu sem húsvörður á Egilsstaðaflugvelli. Þar starfaði ég til sjötugs.“

Guttormur hefur alla ævi haft mikinn áhuga á tónlist. Hann spilaði sem strákur á orgel sem til var á Krossi og seinna náði hann góðum tökum á því að spila á harmoniku. Hann spilaði til að byrja með sem trommuleikari hjá Páli bróður sínum á böllum á Héraði en seinna sjálfur á harmoniku. Flest systkinin á Krossi léku á harmoniku. Í áratugi spilaði Guttormur opinberlega við ýmis tækifæri.

„Þegar ég var á Eiðum spilaði ég oft á skólaböllum og hafði mikla ánægju af. Skólasystkini mín sýndu mér þakklætisvott fyrir spilamennskuna í verki, söfnuðu fyrir harmoniku og gáfu mér. Mér þótti mjög vænt um þessa gjöf. Þessi harmonika var hljóðfærið mitt í áratugi og ég spilaði mikið á hana.“

Harmonikufélag Héraðsbúa var stofnað árið 1984. Guttormur var stofnfélagi og tók mikinn þátt í starfsemi félagsins. Hann var þrívegis formaður félagsins þar af 15 af fyrstu 19 starfsárum þess. „Ég hafði ánægju af starfinu í harmonikufélaginu þó það gæti verið annasamt. Þegar ég var formaður fékk ég þá hugmynd að efna til lagakeppna eins og höfðu verið í útvarpinu á árum áður. Þær gengu vel og efldu tónlistarlífið. Ég átti eitt sigurlag sem heitir Minning við fallegan texta Helga Seljan.“

Þegar Guttormur var sjötugur gaf hann út geisladisk með 12 frumsömdum lögum. Diskurinn heitir Tjáning í tónum. Tatu Kantoma, finnskur harmonikuleikari, spilaði lögin á diskinum. „Margir spurðu mig af hverju ég hefði ekki spilað lögin mín sjálfur. Ég svaraði því til að ég vildi að lögin yrðu spiluð eins vel og mögulegt væri. Þess vegna fékk ég besta harmonikuleikara sem ég þekkti til að spila þau.“

Áhugamálin eru nokkur. „Fyrir utan áhuga á tónlist hef ég alla tíð lesið mikið. Sumar bækur sem mér finnst góðar hef ég lesið oftar en einu sinni. Ég ólst upp við að lesa Íslendingasögurnar. Ég hef líka lesið mikið af kveðskap. Davíð Stefánsson er í mestu uppáhaldi. Eins hef ég mætur á Einari Benediktssyni og Jóni Helgasyni. Ljóðið Áfangar eftir Jón er í miklu dálæti hjá mér. Báðir foreldrar mínir ortu vísur og ljóð. Ég hef gert svolítið af því að semja lausavísur. Eins hef ég gaman af góðum vísnagátum.“

Guttormur fer í daglegar gönguferðir um Fellabæ ef veður leyfir. Hann spilar á harmonikuna sína til að halda sér við. Svo les hann sér til fróðleiks og skemmtunar. Hann les gjarnan vísur og ljóð fyrir gesti.

Fjölskylda

Eiginkona Guttorms er Sigríður Petra Sigfúsdóttir húsmóðir, f. 1.6. 1943. Hún var einn vetur, 1961 til 1962, í Húsmæðraskólanum á Laugum í Reykjadal. Foreldrar hennar voru Sigfús Jón Oddsson, f. 11.5. 1917, d. 27.7. 1994, og Þorbjörg Eiríksdóttir, f. 11.3. 1916, d. 9.12. 1997. Þau bjuggu á Staffelli í Fellum. Stutt er á milli Kross og Staffells þannig að þau Guttormur og Sigríður vissu hvort af öðru allt frá barnæsku. Þau giftust á Ási í Fellum 6. júní 1965. Sigríður tók fullan þátt í búskapnum og vann við eitt og annað utan heimilis eftir að börnin komust á legg.

Börn Guttorms og Sigríðar Petru eru 1) Sigfús, grunnskólakennari á Egilsstöðum, f. 4.2. 1965. Kona hans er Stefanía Ósk Sveinbjörnsdóttir framhaldsskólakennari. Þau eiga dæturnar Bergdísi og Eydísi og tvö barnabörn. 2) Einar, bóndi og húsasmiður á Krossi, f. 9.10. 1966. Kona hans er Harpa Rós Björgvinsdóttir, grunnskólakennari í Fellabæ. Þau eiga Kötlu og Odd og eitt barnabarn. 3) Þorbjörg Jóna, búfræðingur og þjónn, f. 3.4. 1968. Hún á Sonju og Loga og 4) Hugi, verslunarstjóri á Egilsstöðum, f. 27.10. 1972. Dætur hans eru Fanney Marín og Líney Petra. Kona hans er Kristjana Sigurðardóttir skólaritari. Barnabörnin eru því átta og langafabörnin þrjú.

Systkini Guttorms: Drengur fæddist andvana 1931, Páll Hjörtur, f. 1931, d. 2017, Oddur, f. 1933, d. 2019, Guðný Sólveig, f. 1935, Sveinn Eiríkur, f. 1939, d. 2021, Þórey, f. 1940, Baldur, f. 1941, Jón, f. 1943 og Oddbjörg, f. 1944, d. 2015.

Foreldrar Guttorms voru Sigfús Guttormsson, f. 12.11. 1903, d. 31.1. 1951 og Sólrún Eiríksdóttir, f. 14.12. 1902, d. 18.3. 2000. Þau bjuggu á Dalhúsum á Eyvindarárdal frá 1928 til 1931 og eftir það á Krossi.