Vetnisskip Teikning af vetnisskipi, sem Samskip eru að láta smíða.
Vetnisskip Teikning af vetnisskipi, sem Samskip eru að láta smíða. — Teikning/Samskip
Samskip hafa samið um smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa til notkunar á skemmri siglingaleiðum í Evrópu. Segir í tilkynningu frá félaginu, að skipin, sem flytja eigi vörur milli Noregs og Hollands, verði meðal fyrstu gámaflutningaskipa heims …

Samskip hafa samið um smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa til notkunar á skemmri siglingaleiðum í Evrópu.

Segir í tilkynningu frá félaginu, að skipin, sem flytja eigi vörur milli Noregs og Hollands, verði meðal fyrstu gámaflutningaskipa heims á skemmri flutningsleiðum sem ganga fyrir grænu vetni án mengandi útblásturs. Þegar keyrt sé á vetni sé ætlað að sparist útblástur sem nemi um 25.000 tonnum CO2 hjá hvoru skipi. Skipin verði einnig útblásturslaus í viðkomuhöfn með notkun grænnar landorku. Skipin voru hönnuð í samstarfi við Naval Dynamics í Noregi, en samið hefur verið um smíðina við indversku skipasmíðastöðina Cochin Shipyard Ltd.

Kolefnishlutleysi fyrir 2040

Fram kemur í tilkynningunni, að verkefnið sé eitt metnaðarfullra umhverfisverkefna Samskipa og unnið í samstarfi við græna fjármögnunaráætlun norskra stjórnvalda sem miðast að útblásturslausum flutningum með notkun nýrra sjálfbærra tæknilausna. Markmið Samskipa sé að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Í skipaflutningum til og frá Íslandi árið 2022 hafi útblástur CO2 á hverja flutningseiningu dregist saman um 15,2% milli ára og hafði þá þegar dregist saman um 35,1% frá 2019. Þar spili saman aukin notkun lífdísils og bætt nýting í flutningskerfum Samskipa.

Samskip hf. er alþjóðlegt flutningafyrirtæki með 46 skrifstofur í 24 löndum í fimm heimsálfum og starfsmenn eru um 1.500 talsins.