Fíkniefnafundur Hluti efnanna sem fundust á bananalagernum í mars.
Fíkniefnafundur Hluti efnanna sem fundust á bananalagernum í mars.
Norski bananainnflytjandinn Bama hefur átt athygli norskrar lögreglu og tollgæslu óskipta síðustu vikur en á lager fyrirtækisins í Ósló hafa samtals rúmlega 1.600 kílógrömm af kókaíni fundist síðan í marslok í tveimur sendingum í bananakössum

Norski bananainnflytjandinn Bama hefur átt athygli norskrar lögreglu og tollgæslu óskipta síðustu vikur en á lager fyrirtækisins í Ósló hafa samtals rúmlega 1.600 kílógrömm af kókaíni fundist síðan í marslok í tveimur sendingum í bananakössum.

Sendingin sem fannst í mars var 820 kg en nú um helgina fannst önnur sending, milli átta og níu hundruð kg eftir því sem Grete Lien Metlid, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, greindi norska dagblaðinu VG frá í gær.

Til Noregs fyrir handvömm?

Báðar sendingarnar koma frá Ekvador en fyrra málið kom upp í kjölfar þess er lögregluyfirvöld í Þýskalandi settu sig í samband við þau norsku vegna stórrar kókaínsendingar sem þá hafði fundist í Brandenburg og var af sama skipinu.

Velti lögregla því upp sem kenningu að hluti sendingarinnar hefði farið í land í Noregi fyrir mistök og liggur því enginn starfsmanna Bama undir grun en það voru starfsmenn þar sem tilkynntu um síðari kókaínfundinn nú um helgina.

Telur lögregla að skipið með síðari sendingunni hafi látið í haf frá Ekvador áður en fundur fyrri sendingar í Noregi og Þýskalandi varð fréttaefni. „Við teljum einnig mjög líklegt í þessu tilfelli að sendingin hafi verið á leið í aðra evrópska höfn,“ sagði Metlid enn fremur. atlisteinn@mbl.is