Lyf Opinberar stofnanir vita af göllum lyfjagáttar
Lyf Opinberar stofnanir vita af göllum lyfjagáttar — Morgunblaðið/Ómar
Til skoðunar er að bæta aðgerðaskráningu í lyfjaávísanagátt (lyfjagátt eins og hún er oftast kölluð) þannig að öll skráning sé aðgengileg á einum stað. Þetta kemur fram í svari landlæknisembættisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um uppflettingar í lyfjagátt

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Til skoðunar er að bæta aðgerðaskráningu í lyfjaávísanagátt (lyfjagátt eins og hún er oftast kölluð) þannig að öll skráning sé aðgengileg á einum stað.

Þetta kemur fram í svari landlæknisembættisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um uppflettingar í lyfjagátt. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á laugardag hefur blaðið undir höndum gögn sem sýna tilefnislausar uppflettingar í lyfjagátt og þá eru dæmi þess að upplýsingum um þjóðþekkt fólk úr lyfjagátt hafi verið deilt til þriðja aðila. Hægt er að rekja hverjum var flett upp, í hvaða apóteki og hvenær, og hvort að sala á ávísuðum lyfjum hefur átt sér stað í kjölfarið – en ekki er haldin skrá um það hver stóð að hverri uppflettingu.

Bæði embætti landlæknis og Lyfjastofnun hafa staðfest að þeim hafi borist ábendingar um að upplýsinga hafi verið aflað úr lyfjagátt að óþörfu og þeim komið til þriðja aðila. Þá staðfesti Persónuvernd í svari til blaðsins um helgina að stofnunin hefði tiltekna flettingu til skoðunar og að málið væri í forgangi hjá stofnuninni.

Erfitt að takmarka upplýsingar

Lyfsölum ber, samkvæmt svari landlæknis, að viðhafa nægar aðgangsstýringar í sínum kerfum svo hægt sé að rekja hvaða starfsmaður kann að hafa flett upp í kerfinu hverju sinni. Þó herma heimildir Morgunblaðsins að svo sé ekki. Landlæknir segir að fundað verði með heilbrigðisráðuneytinu um það hvort breyta þurfi reglugerð og að einnig sé ráðgert að skrifa lyfsöluleyfishöfum til að minna á skyldur þeirra við aðgangsstýringar og eftirlit með notkun aðgangs starfsmanna sinna.

Lyfjaávísanir eru gefnar út þannig að hægt sé að nálgast þær í hvaða apóteki sem er og því sé ekki hægt að takmarka birtingu upplýsinga við einstaka starfsmenn eða lyfjaverslanir. Því hefur nokkuð fjölmennur hópur aðgang að lyfjagáttinni.

Embætti landlæknis telur þó að það fyrirkomulag sem er við lýði samræmist persónuverndarlögum. „Hins vegar hefur embættið fundað með öðrum eftirlitsyfirvöldum sem kunna að koma að eftirliti (Lyfjastofnun og Persónuvernd) í því skyni að varpa frekara ljósi á hlutverk aðila við eftirlit með notkun á Lyfjaávísanagáttinni í lyfjaverslunum,“ segir í svarinu.

Alvarleg brot kærð

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag lúta lyfsalar eftirliti Lyfjastofnunar, sem hefur heimild til að svipta apótek lyfsöluleyfi. Þó virðist á reiki hver beri ábyrgð á því að upplýsinga úr lyfjagáttinni sé gætt.

Í svari landlæknisembættisins kemur fram að alvarleg brot gagnvart trúnaðarskyldu heilbrigðisstarfsmanna geti varðað starfsleyfissviptingu og kæru til lögreglu og það sama eigi við um alvarleg brot einstaklings gegn persónuverndarlögum.

Þó er vert að hafa í huga að embætti landlæknis hefur ekki úrræði til að bregðast við mögulegum brotum starfsmanna í apótekum sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn. Aftur á móti hefur Persónuvernd eftirlit með því að persónuverndarlögum sé fylgt.

Lyfjagáttin

Lyfjagagnagrunni landlæknis var komið á fót árið 2005, og innihélt hann þá upplýsingar um lyfseðilsskyld lyf sem afgreidd höfðu verið frá 2002.

Gagnagrunnurinn tók á sig núverandi mynd 2016 eftir lagabreytingar 2012, þar sem læknar fengu aðgang að lyfjasögu sjúklinga sinna 3 ár aftur í tímann og einstaklingar aðgang að eigin lyfjasögu.

Landlæknir hefur eftirlit með aðgangi að lyfjagagnagrunni og notkun hans í samræmi við ákvæði lyfjalaga og laga um persónuvernd.