Upplestur Guðni Th. Jóhannesson las úr Sögunni af bláa hnettinum fyrir börnin. Skemmtileg saga sem náði vel til áhugasamra hlustenda í salnum.
Upplestur Guðni Th. Jóhannesson las úr Sögunni af bláa hnettinum fyrir börnin. Skemmtileg saga sem náði vel til áhugasamra hlustenda í salnum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Áhuginn var mikill og myndir urðu til í huga barnanna sem hlustuðu á lestur Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á sögustund á Borgarbókasafni Reykjavíkur í Úlfarsárdal í gær. Safnið verður 100 ára nú í vikunni og af því tilefni voru um helgina …

Áhuginn var mikill og myndir urðu til í huga barnanna sem hlustuðu á lestur Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á sögustund á Borgarbókasafni Reykjavíkur í Úlfarsárdal í gær. Safnið verður 100 ára nú í vikunni og af því tilefni voru um helgina ýmsir viðburðir í menningarhúsum þess sem eru víðs vegar um borgina. Bókasöfn eru ein af mikilvægustu grunnstoðum í lýðræðissamfélagi nútímans segir safnafólk sem minnir á að talsvert sé sótt að grunngildunum. „Fyrir okkur sem störfum við menningu, bækur og upplýsingamiðlun er mikilvægt að standa vörð um lýðræðið og rétt til ótakmarkaðs aðgangs að þekkingu, skoðunum, menningu og upplýsingum,“ segir Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður í Reykjavík í samtali við Morgunblaðið.

„Ég hef verið beðin um að fjarlægja efni úr hillum bókasafna af þeim sem hugnast ekki skoðanir tiltekinna rithöfunda. Óskað hefur verið eftir því að barnasaga á vef Borgarbókasafnsins væri tekin út vegna skoðana fólks á sögunni. Ég hef líka fengið beiðni um að segja upp dagblaðaáskrift vegna þess að viðkomandi fjölmiðill var sagður stunda sorpblaðamennsku. Í sumum tilfella skildi ég beiðnina en hafnaði óskum um að fjarlægja efni eða segja upp áskrift, svo mikilvægan tel ég rétt fólks til upplýsinga.“ sbs@mbl.is » 10