Sigurgeir Jónsson
Sigurgeir Jónsson
Tveir félagsmálaráðherrar hafa staðfest að framkvæmdin á 69. greininni falli undir fjármálaráðherra og fjármálaráðherra hefur staðfest að svo sé.

Sigurgeir Jónsson

Áður hefur greinarskrifari fjallað um meint brot framkvæmdavaldsins á 69. gr. laga almannatrygginga nr. 100/2007. En áfram er brotið. Undirritaður hefur í tvö ár staðið í bréfaskriftum við TR og úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin kvað upp þann úrskurð að hún gæti ekki úrskurðað um hin meintu brot þar sem hún félli ekki undir fjármálaráðherra, sem hefði með framkvæmdina að gera. Úrskurðarnefndin fellur undir almannatryggingalögin og á þar með að falla undir félagsmálaráðherra. Tveir félagsmálaráðherrar hafa staðfest að framkvæmdin á 69. greininni falli undir fjármálaráðherra og fjármálaráðherra hefur staðfest að svo sé, þótt í almannatryggingalögum nr. 100/2007 standi að lögin falli undir félagsmálaráðherra nema annað sé tekið fram, sem er ekki. Fjármálaráðuneytið hefur sagt að við framkvæmdina á 69. gr. sé áætluð launaþróun samkvæmt „meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðnum í heild“ fyrir það fjárlagaár sem hækkunin á við og tekur gildi 1. jan. það ár. Fjárlögin fyrir það ár eru samþykkt í des. árið á undan og fjármálaráðuneytið hefur sagt að erfitt sé að áætla þetta, sem er rétt, það er ekki hægt, þetta er bara ágiskun. Ekki hefur fengist uppgefið hjá fjármálaráðuneytinu á hverju þessar „meðaltaxtahækkanir“ byggjast og hvaða lagastoð sé fyrir því að ráðuneytið sjálft sé að finna þetta út og ekki sé farið eftir því sem Hagstofan gefur út um launaþróun og byggist á greiddum launum sem gefin eru upp til skatts.

Verðlagsþróunin

En stjórnvöld og Alþingi láta sér ekki nægja að brjóta 69. gr. hvað varðar launaþróun, eins og þau eru búin að gera allt frá árinu 2009. Þau hafa líka brotið ákvæðið í greininni um að farið skuli eftir verðlagsþróun ef hún er hærri en launaþróun, sem kemur í ljós þegar fjárlagaárið er liðið, þá sést hvort ágiskun fjármálaráðuneytis um verðlags- eða launaþróun hefur staðist, sem hún hefur aldrei gert. Tekið er fram í greininni að farið skuli eftir launaþróun ef hún er hærri, annars verðlagsþróun.

Verðlagsþróunin á árinu 2022, sem kom í ljós í ársbyrjun 2023, sýndi um 9,1% hækkun verðlagsþróunar 2022. Áætlun fjármálaráðuneytisins um launa- eða verðlagsþróun í fjárlögum fyrir 2022 var 4,4% og bætur almannatrygginga hækkuðu samkvæmt því 1. jan. 2022. Síðan var bætt við 3% 30. júní, samtals 7,4%. Þarna munar 1,7%. Undirritaður sendi fjármálaráðuneytinu bréf og krafðist þess að þessum 1,7% yrði bætt við þá hækkun sem hann fékk 1. jan. 2022. Svar barst frá ráðuneytinu og var þessi krafa kölluð „beiðni“ og var hafnað. Með fylgdi að vísað var í fyrri bréf, og það sem undirritaður getur ekki túlkað öðruvísi en að bréfasamskiptum við hann sé hætt. En verðlagsþróun ársins 2023 stefnir í að verða 10%, það kemur í ljós í ársbyrjun 2024, þegar Hagstofan gefur út verðlagsþróunina, hver hún hafi orðið í raun á árinu 2023. Fjármálaráðuneytið áætlaði launa- eða verðlagsþróun 7,4% á árinu 2023. Ekki hefur verið bætt við það. Undirritaður mun þá rukka fjármálaráðuneytið ef um mismun verður að ræða á þeirra áætlun og því sem verðlagsþróunin varð í raun.

Meðvirkni Alþingis

En það er ekki nóg með að stjórnvöld brjóti lög sem Alþingi hefur sett heldur tekur Alþingi þátt í brotunum með aðgerðaleysi sínu gegn þeim. Enginn þingmaður hefur enn stigið fram og tjáð sig um að Alþingi sé að brjóta lög með framferði sínu gagnvart öryrkjum og öldruðum sem reiða sig á almannatryggingar með framfærslu. Stjórnarandstaðan hefur nú tvö þing í röð flutt frumvarp um hvernig greiðslum bóta almannatrygginga skuli háttað. Engin þörf var á þessu frumvarpi, sem er óbein viðurkenning á því að framferði stjórnvalda sé ekki lögbrot. Flokkur fólksins hefur í þrjú þing flutt frumvarp um að launaþróun skuli miðast við vísitölu. Engin þörf var heldur á þessu frumvarpi, sem líka er óbein viðurkenning á því að stjórnvöld séu ekki að brjóta lög. Að auki er þetta bull um vísitölu, komið frá fjármálaráðuneytinu, sem heldur að vísitala sé tala sem menn geti notað til að fá fram fyrirframgefna niðurstöðu. Það eina sem Alþingi þarf að gera er að benda stjórnvöldum á að fara eftir 69. gr. laga nr. 100/2007.

Ábendingar umboðsmanns

Umboðsmaður Alþingis skilaði áliti fyrir ÖBÍ, um framkvæmd fjármálaráðuneytisins á 69. greininni, 2018. Í því áliti kemur fram að umboðsmaður telur að fjármálaráðherra hafi svigrúm til að áætla einhverja tölu til hækkunar á bótum almannatrygginga sem sýna eigi launa- eða verðlagsþróun það ár sem bæturnar eigi að hækka samkvæmt launa- eða verðlagsþróun. Ekkert í álitinu segir að fjármálaráðherra eigi ekki að bæta bótaþega mismuninn þegar ágiskunin stenst ekki, sem getur aldrei gerst, því ágiskunin er um þróun launa eða verðlags fram í tímann. En umboðsmaður er með ábendingar í álitinu um að stjórnvöld eigi að bæta vinnubrögðin. Umboðsmaður lét ekki þar við sitja heldur sendi bréf, dags. 1. okt. 2019, til ráðherra og velferðarnefndar Alþingis með ábendingum sama efnis. Bréfið og álitið virðast ekki hafa skilað sér til þingmanna og eru kannski bara í skúffu forseta.

Höfundur er sjómaður í Suðurnesjabæ.

Höf.: Sigurgeir Jónsson