Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Víða um land geta jarðefnin reynst óhentug og ónóg þegar ráðist er í framkvæmdir við samgöngumannvirki, sem erfitt er að fjármagna í fámennu landi.

Guðmundur Karl Jónsson

Tæpum tveimur árum eftir að framkvæmdir hófust í Vaðlaheiðargöngum opnuðust þar stórar vatnsæðar sem vekja spurningar um hvort sama vandamál geti komið upp í fleiri landshlutum. Of margir þingmenn Norðausturkjördæmis gleyma því að enn erfiðara verður fyrir vegfarendur án flóttaleiða að forða sér út úr löngum jarðgöngum ef umferðaróhapp veldur þar eldsvoða. Því miður hafa eldsvoðar vegna umferðaróhapps í norskum jarðgöngum kostað allt of mörg mannslíf. Vonandi samþykkja allir þingmenn Norðausturkjördæmis, og fyrrverandi bæjarfulltrúar Seyðisfjarðar, hertar öryggiskröfur um að í Fjarðarheiðargöngum skuli ákveða flóttaleiðir með eldvarnarhurðum, til að tryggt sé að vegfarendur geti forðað sér tímanlega út vegna umferðaróhapps ef árekstur veldur þar eldsvoða. Annars verður dauðaslysum aldrei afstýrt ef litlir fólksbílar lenda á milli tveggja flutningabifreiða sem ekið yrði inn í göngin úr báðum áttum og geta vegna bilunar í öryggisbúnaði farið yfir á vitlausan vegarhelming. Undir Fjarðarheiði verður 13-14 km gangalengd tímafrekt verkefni, sem getur orðið dýrara en allar kostnaðaráætlanir gefa til kynna. Útilokað er að þessi gangalengd milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar geti ein og sér styrkt atvinnulífið á öllu Austurlandi án Mjóafjarðarganga, sem tengja viðkomustað Norrænu við stóra Fjórðungssjúkrahúsið. Til að það heppnist skal Fagridalur víkja fyrir öllum þessum jarðgöngum, sem tryggja stóra Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað betra aðgengi að Egilsstaðaflugvelli og sjúkrafluginu. Í Fjarðabyggð skal vera flugvöllur, sem uppfyllir réttmætar öryggiskröfur ef sjúkraflugvél getur ekki lent vegna hliðarvinds á Egilsstöðum. Víða um land geta jarðefnin reynst óhentug og ónóg þegar ráðist er í framkvæmdir við samgöngumannvirki, sem erfitt er að fjármagna í fámennu landi, með 373 þúsund íbúa. Loforðin, sem samgönguráðherra gaf Seyðfirðingum, um að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hæfust árið 2022, voru óheppileg. Allri gangagerð fylgir mikil áhætta, þegar enginn sér fyrir með óyggjandi hætti hvaða vandamál þurfi að fást við, sem ekki reynist mögulegt að kortleggja í prufuborunum. Þrátt fyrir miklar prófanir í aðdraganda slíkra framkvæmda geta berglög reynst misjafnlega föst í sér ef stórar vatnsæðar opnast, verktökunum til mikillar hrellingar. Það gerðist fyrstu vikurnar eftir að framkvæmdir hófust í Vestfjarðagöngum sumarið 1991, í Héðinsfjarðargöngum haustið 2006 og Vaðlaheiðargöngum sumarið 2015. Best væri fyrir Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra og þingmenn Norðausturkjördæmis að svara afdráttarlaust spurningunni um hvort fljótlegra verði að stíga fyrsta skrefið til að rjúfa einangrun stóra Fjórðungssjúkrahússins við byggðirnar norðan Fagradals með styttri göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, áður en ákvörðun liggur fyrir um útboð Fjarðarheiðarganga, sem talið er að kosti 45-50 milljarða króna. Ég spyr. Hvað þarf íslenskum skattgreiðendum að fjölga mikið til að hægt sé að standa undir kostnaðinum við svona dýrt samgöngumannvirki, þegar yfirmaður samgöngumála vill sýna fram á að blönduð fjármögnun, og innheimta veggjalda á hvert ökutæki, standi undir kostnaðinum við þessi lengstu göng síðari tíma, án þess að fram komi hvað meðalumferð ökutækja þurfi að vera margir bílar á dag? Önnur spurning. Væri heppilegra að þessir fjármunir yrðu fyrst notaðir til að flýta framkvæmdum við tvíbreiðar brýr á suðurfjörðunum sunnan Fáskrúðsfjarðarganga og yfir Lagarfljót áður en röðin kemur að Seyðisfirði og Fjarðabyggð? Undanþágur frá hertum öryggiskröfum fá einbreiðu slysagildrurnar á þessari leið aldrei. Þriðja spurning. Telja þingmenn Norðausturkjördæmis og samgönguráðherra það verjandi að styttri göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar tefjist næstu fimm áratugina eða lengur, ef ákveðið yrði að ráðast fyrst í framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng sem tryggja Seyðfirðingum enn betra aðgengi að innanlandsfluginu? Eftir að stjórnir Smyril Line og Fjarðabyggðarhafna komu með ósvífna kröfu um annan viðkomustað fyrir Norrænu svöruðu Seyðfirðingar strax fyrir sig og hertu róðurinn fyrir beinni tengingu frá sinni heimabyggð upp á Hérað, þegar þeir stóðu saman og settu fram kröfuna um 13-14 km gangalengd undir Fjarðarheiði.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmundur Karl Jónsson