Landbúnaður Bændur vilja að þeirrra málefni verði ofar á baugi en nú er í pólitíkinni. Staðan hefur verið rædd á bændafundum að undanförnu.
Landbúnaður Bændur vilja að þeirrra málefni verði ofar á baugi en nú er í pólitíkinni. Staðan hefur verið rædd á bændafundum að undanförnu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Í mínum huga er spurning hvort yfirleitt einhver talar máli hinna dreifðu byggða á hinu háa Alþingi. Hagsmunum okkar sem búum úti á landi er ekki sinnt nægjanlega og þá er ekki síst staða landbúnaðarins afskipt og gera þarf betur,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, í samtali við Morgunblaðið. „Við landsbyggðarfólk þurfum að tala tæpitungulaust svo sjónarmið okkar fái áheyrn. Ef til vill dugar svona brýning þannig að forystufólk stjórnmálaflokka átti sig á stöðu mála og setji mál byggða og frumvinnslugreina ofar á blað. Ef svo verður, er kannski engin ástæða til þess að þess að stofna stjórnmálaafl sem berst fyrir landsbyggðina. En allt stefnir í að sjónarmið til dæmis landbúnaðarins heyrist lítið á Alþingi, þar sem senn er aðeins einn bóndi eftir í hópi alþingismanna.“

Ófyrirséðar áskoranir

Við setningu Búnaðarþings á dögunum spurði Gunnar í setningarræðu hvort tímabært væri að stofna bænda- eða landsbyggðarflokk og bjóða fram til þings í næstu kosningum. Í dag þyrfti landbúnaðurinn að glíma við ýmsar ófyrirséðar áskoranir sem veiktu stöðu greinarinnar. Mætti þar meðal annars nefna tolla á landbúnaðarvörum frá Úkraínu – þaðan sem vörur eru nú fluttar í stórum stíl. Mikilvægt væri í þessu efni að tryggja fyrirsjáanleika í búrekstri eins og annarri starfsemi.

Um starfsskilyrði landbúnaðarins segir Gunnar að bændur hafi hagrætt til hins ítrasta í rekstri sínum, á sama tíma og verð á aðföngum ýmsum hafi hækkað stórum, meðal annars vegna stríðsátaka. Ekki sé hægt að ætlast til þess að bændur bjargi verðbólgunni einir – þótt öflugir séu. Aukinheldur séu miklar kröfur gerðar til landbúnaðarins í ýmsu öðru tilliti, til dæmis í bindingu kolefnis.

„Ég var núna fyrir helgina á fundi Búnaðarsambands Austurlands þar sem fólk spurði sig líkt og ég geri – hver standi á hinu pólitíska sviði vörð um hinar dreifðu byggðir landsins og aðstæðurnar þar. Lífsviðurværi bænda er ekki nægilega sterkt sem birtist í því að nýliðun í greininni er ekki sem vera skyldi. Því þarf að bregðast við með aðgerðum, en fyrst og fremst heildstæðri skoðun á mörgum málum. Stóra spurningin þar er hvernig eigi að nýta auðlindir landsins eðlilega í þágu frumframleiðslu. Og þessum munum við bændur og væntanlega fleiri hamra á næstu misserin; full eldmóðs svo umræðan og málstaðurinn skili árangri,“ segir Gunnar Þorgeirsson.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson