Sunnanvindur Gríðarlega góð stemning var í Hofi á Akureyri á laugardag þar sem Grétar Örvarsson steig á svið ásamt einvalaliði tónlistarmanna.
Sunnanvindur Gríðarlega góð stemning var í Hofi á Akureyri á laugardag þar sem Grétar Örvarsson steig á svið ásamt einvalaliði tónlistarmanna. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
„Það er virkilega gaman að spila í Hofi, fallegt hús og vel tækjum búið,“ segir tónlistarmaðurinn Grétar Örvarsson, sem hélt tvenna tónleika um helgina undir yfirskriftinni Sunnanvindur – Eftirlætislög Íslendinga

„Það er virkilega gaman að spila í Hofi, fallegt hús og vel tækjum búið,“ segir tónlistarmaðurinn Grétar Örvarsson, sem hélt tvenna tónleika um helgina undir yfirskriftinni Sunnanvindur – Eftirlætislög Íslendinga. Fyrri tónleikarnir voru í Salnum í Kópavogi á föstudaginn en þeir seinni í Hofi á Akureyri á laugardaginn.

„Viðtökurnar voru frábærar og færri komust að en vildu á báða tónleikana,“ segir Grétar og bætir við að á lagalistanum hafi verið mörg af skemmtilegustu dægurlögum Íslendinga. „Það voru t.d. lög sem hljómsveit Ingimars Eydals og Sextett Ólafs Gauks fluttu á sínum tíma, lög sem BG og Ingibjörg fluttu og svo nokkur af lögum Örvars Kristjánssonar, [föður Grétars og harmonikkuleikara]“ segir Grétar og bætir við að fólki hafi þótt lagavalið mjög skemmtilegt.

Tónleikarnir í ár voru sjálfstætt framhald á fernum tónleikum sem Grétar hélt í minningu föður síns í fyrra og hitteðfyrra, þar sem spiluð voru eftirlætislög Örvars Kristjánsson og segir Grétar að nú hafi hugmyndin verið að víkka það út í eftirlætislög Íslendinga. „Og þar er af nógu að taka,“ segir Grétar.

Á dagskránni voru til dæmis lög eins og Góða ferð, María Ísabel, Segðu ekki nei, Litla sæta ljúfan góða, Hvítur stormsveipur, Því ertu svona uppstökk, Með þér, Vegir liggja til allra átta, Það er bara þú, og Láttu mjúkra lokka flóð auk vinsælustu laga Örvars eins og Sunnanvindur, Siglt í norður og Við förum bara fetið.

Auk Grétars sáu þau Ragnheiður Gröndal og Karl Örvarsson, bróðir hans, um sönginn, en í hljómsveitinni voru Eiður Arnarsson á bassa, Haukur Gröndal á blásturshljóðfæri, Ásta Soffía Þorgeirsdóttir á harmonikku, Pétur Valgarð Pétursson á gítar, Sigfús Óttarsson á trommur og Þórir Úlfarsson á píanó.

„Í ljósi mikils áhuga ætlum við að endurtaka leikinn,“ segir Grétar aðspurður, og hefur því þegar verið ákveðið að bæta við tónleikum í Salnum í Kópavogi hinn 27. október í haust. Er miðasala hafin á tix.is.