Óraunsætt tal heldur hvorki lengi né vel

Stóru lýðræðislegu iðnríkin, G7, funduðu um helgina í Japan. Ráðherrar ríkjanna ræddu loftslags- og orkumál og náðu á endanum saman um að hraða því að skipta út jarðefnaeldsneyti og ná kolefnishlutleysi um miðja öldina.

Japanski ráðherrann hafði rætt málin af meira raunsæi og meðal annars bent á að loftslagsmarkmið þyrftu einnig stuðning þróunarríkjanna ef þau ættu að hafa þýðingu, en ákveðið var að horfa fram hjá því.

Tal ráðherranna mun þó sennilega litlu breyta. Þjóðverjar, nýbúnir að loka á loftslagsvænu orkuna, munu sjálfsagt halda áfram að jafna þorp við jörðu til að grafa eftir kolum og Japan og fleiri munu sömuleiðis treysta á þann orkugjafa ásamt öðru. Þá eru Japanir meðvitaðir um að slíkar yfirlýsingar hafa lítið að segja þegar á reynir. Á dögunum keyptu þeir til að mynda olíu frá Rússum á verði sem var yfir þaki G7-ríkjanna sem sett var vegna innrásarinnar í Úkraínu. Bandaríkjamenn og aðrir í hópnum sýndu þessu skilning enda væri þörf fyrir orkuna í Japan.

Þökin og markmiðin halda alveg þar til þörfin fyrir að brjóta þau verður raunveruleg.