Gunnar Marinó Sveinbjörnsson fæddist 7. nóvember 1954. Hann lést 19. mars 2023.

Útför fór fram í kyrrþey.

Ég er svo glaður og þakklátur yfir að fá að hitta þig í matarboði hjá Gínu og Tryggva skömmu áður en þú skiptir um tilveru, fá að faðma þig, spjalla um heima og geima og pota í bumbuna þína sem á skömmum tíma „spratt upp“, þú annars granni gaur, „það er svo merkilegt að stundum er hún hörð og stundum er hún lin.“ Svo veltum við vöngum og svo var hlegið að öllu saman. Æðruleysi þitt gagnvart óskýrðum veikindum þínum var aðdáunarvert. Þín karaktereinkenni voru áræði, drift og dugnaður. Þú kláraðir verkefnin helst á sem skemmstum tíma. Síðasta dæmið um það er þegar þú keyrir út á Hjalteyri 19. mars síðastliðinn, þú náðir að komast út eftir, hrynur þar út úr bílnum, ofan í mölina og ert skömmu síðar allur en áfangastaðnum náðir þú.

Þú tókst hlutina alla leið, lærðir að elda á 09 af því að þú varst búinn að ráða þig sem kokkur á bát í Eyjum, eitthvað varð svo sem að gera í málinu og það strax.

Tölum um stóra fjallajeppann með gistiaðstöðu og græjum. Það var fátt honum til fyrirstöðu, allavega ekki jöklarnir en þó fór svo að þyrlan þurfti eitt sinn að leita að þér kæri ven og í framhaldinu varstu skammaður í beinni útsendingu.

Þú varst mikill búmaður og kom það meðal annars vel fram þegar við vorum saman í siglingum í den. Man eftir því þegar vorum í Grimsby og vorum á randi um bæinn og rákumst á stakstæða verslun þar sem fékkst fullt af framandlegu sælgæti og roskin kona þar að vinna. Hún komst fljótlega að því að þar færi ungur sægreifi frá Íslandi í stórverslunarhugleiðingum og aðstoðarsveinn þannig að hún dró fram strigapoka og hálffyllti hann af sælgæti með bros á vör. Það voru margir glaðir þegar við komum heim.

Þú varðst fljótt glöggur og vel læs á náttúruna, þekktir t.d. fuglana í sveitinni og eggin þeirra í hreiðrunum, þetta þótti mér merkilegt því ég var ekki einu sinni byrjaður að pæla í fuglum í þá tíð.

Höldum samt einu til haga, góðurinn, þú varst yngri bróðirinn og með húmorinn í góðu lagi, tilbúinn að stríða virðulegum eldri sauðnum.

Kæri bróðir, takk fyrir samveruna, ljúfa sál, sjáumst einhvers staðar, einhvern tíma aftur.

Grétar Óli.

Elsku bróðir okkar. Þú kvaddir snögglega og við vorum engan veginn viðbúin þeim fregnum í símtalinu sem við fengum 19. mars síðastliðinn. Á þessum sorglegu tímamótum leitum við í minningabankann okkar og af mörgu er þar að taka.

Gunni var mikið ljúfmenni, stundum hrakfallabálkur en með eindæmum handlaginn og hugmyndaríkur. Það var sama hvað þér datt í hug að smíða og hanna, gera við og laga, þú gast þetta allt, sama hvað það var, það lék allt í höndunum á þér. Þú varst einstakur.

Þú fórst snemma að heiman, rétt orðinn 16 ára þegar þú fórst á vertíð til Vestmannaeyja. Þar hittir þú Lilju þína og voruð þið búsett í Eyjum næstu 20 ár. Þú varst alltaf viðriðinn sjóinn á þessum árum við ýmis störf og síðast varstu farinn að kokka og hafðir gaman af. Þú varst mjög flinkur og góður kokkur. Þú elskaðir að atast í og útbúa mat, tala um mat og símtöl okkar fóru oftast út í hvernig væri best að elda þorskhnakkann, rauðsprettuna, svartfuglinn og við deildum þessum uppskriftum okkar á milli.

Þú varst svo heppinn að hafa alltaf ferskan og góðan fisk sem þú veiddir sjálfur við Hjalteyri en þar varstu með litla bátinn ykkar og dvaldir mikið síðustu árin. Þú varst með aðstöðu í gömlu Síldarvinnslunni á Hjalteyri og varst langt kominn með að innrétta íverustað svo að Lilja gæti verið oftar hjá þér.

En enginn veit sína ævina fyrr en öll er og vonum við að mamma og pabbi hafi tekið vel á móti þér með útbreidda vængi sína í sumarlandinu góða.

Þín er sárt saknað af systkinum og fjölskyldum.

Margrét Selma.