Svavar Hjörleifsson fæddist 9. janúar 1930. Hann lést 8. apríl 2023.

Útför Svavars fór fram 14. apríl 2023.

Elsku afi minn, nú er komið að kveðjustundinni. Við áttum alveg sérstakt samband og ég er þakklát fyrir það hversu ófeiminn þú varst að biðja mig um aðstoð með ýmsa hversdagslega hluti. Mér eru minnisstæð boð í bagga í Lyngholt, hestaferðirnar okkar í Laufskálarétt, göngur í vesturfjöllin og styttri reiðtúrar um nágrennið en framkoma þín við hrossin var svo einstök. Þú talaðir mikið við þau og það var nóg fyrir þig að kalla á gobbana þína og allir hlupu þeir heim að fjósi.

Allir voru velkomnir í Lyngholt og það var gestkvæmt hjá þér, móttökurnar voru góðar og þegar við komum tókstu á móti okkur með orðunum: „Það er gott að þið eruð komin“. Fljótlega á eftir fylgdi svo setningin: „Það eru rúsínur í búrinu handa drengjunum“. Þú spurðir frétta og oft sagðir þú okkur fréttir.

Afi fylgdist vel með og var virkur í félagsstarfi eldri borgara og duglegur að sækja viðburði þar, en einnig fór hann gjarnan í dagsferðir með góðum vinum. Afi var mikið snyrtimenni, alltaf svo fínn í skyrtu og vesti yfir og alveg teinréttur til gangs. Allt átti sinn stað og hann var nákvæmur og vandvirkur. Þetta sást hvað best í bílskúrnum þar sem skrúfur og rær voru vandlega flokkaðar í gamla afskorna bensínbrúsa.

Afi fylgdist vel með afkomendum sínum. Hann var áhugasamur um það sem allir tóku sér fyrir hendur og var stoltur af hópnum sínum. Hann var einstakur og umhyggjusamur, það sýndi hann í umönnun við ömmu þar sem hann hugsaði vel um hana heima og kom daglega til hennar á dvalarheimilið eftir að hún fluttist þangað. Hann hafði félagsskap upp úr heimsóknunum og ekki síður heimilisfólkið. Hann fylgdi ömmu inn á herbergi eftir seinna kaffið og lagðist við hlið hennar í sjúkrarúminu þar sem þau dormuðu bæði fram undir kvöldmat, þetta er það allra fallegasta sem ég hef séð.

Takk fyrir samfylgdina afi. Eftir sitja dýrmætar samverustundir, minningar og þakklæti fyrir allt.

Þín afastelpa,

Elín Árdís.

Gunna og Svavar voru kunningjar foreldra minna. Ég var sjö ára þegar ég kom fyrst til þeirra í Lyngholt til sumardvalar. Hafði aldrei farið svo langt að heiman og þekkti ekki heimilisfólkið. Til að gera langa sögu stutta þá var ég alsæl, átti eftir að vera hjá þeim mörg sumur og hlakkaði til á hverju vori að fara í sveitina. Var ákveðin í að verða bóndi eins og þau. Það bættist í barnahópinn í Lyngholti með hverju árinu, hraustur og uppátækjasamur hópur þar á ferð.

Ég lærði að meta mikilvægi veðurfrétta, bannað að vera með læti þegar veðurspáin var lesin í Ríkisútvarpinu, við krakkarnir teiknuðum á pappírinn sem Þjóðviljinn kom pakkaður inn í og sögðum ekki orð á meðan. Svavar var þó með sína eigin veðurspá, leit til himins og sagði til um veðurfar morgundagsins. Hann var alveg með það á hreinu og kenndi okkur krökkunum að þekkja bólstraský, maríutásur og flákaský. Hann var góður bóndi, hugsaði vel um jörðina og skepnurnar, vissi heiti á öllum grösum og blómum. Hann var hluti af náttúrunni, verndaði votlendið fyrir fuglana og bar út æti fyrir hrafna og refi á veturna.

Mörgum árum eftir að ég var í sveit í Lyngholti gengum við Svavar saman torfæra leið vestur í Djúpi upp að arnarhreiðri. Svavar var léttur í spori, hann tók eftir öllu í umhverfinu, jurtum sem voru sjaldgæfar í Skagafirði, fann köggla úr arnarælu með beinum, fuglsfótum og fiðri og greindi hvað örninn hafði étið þann daginn. Enn þá að fræða mig.

Takk Svavar fyrir að kenna mér á fuglana, flóruna og landið.

Kær kveðja,

Gunnhildur Olga Jónsdóttir.