Kartúm Svartan reyk og púðurþef lagði yfir höfuðborgina í gær vegna átakanna á milli stjórnarhersins og RSF.
Kartúm Svartan reyk og púðurþef lagði yfir höfuðborgina í gær vegna átakanna á milli stjórnarhersins og RSF. — AFP/STR
Bardagar geisuðu í Kartúm, höfuðborg Súdan, um helgina eftir valdaránstilraun málaliðasveita á laugardagsmorgun. Höfðu að minnsta kosti 56 óbreyttir borgarar fallið í átökunum og rúmlega 600 særst þegar vopnahlé, sem Sameinuðu þjóðirnar áttu frumkvæði að, tók gildi um eftirmiðdaginn í gær

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bardagar geisuðu í Kartúm, höfuðborg Súdan, um helgina eftir valdaránstilraun málaliðasveita á laugardagsmorgun. Höfðu að minnsta kosti 56 óbreyttir borgarar fallið í átökunum og rúmlega 600 særst þegar vopnahlé, sem Sameinuðu þjóðirnar áttu frumkvæði að, tók gildi um eftirmiðdaginn í gær.

Var vopnahléinu, sem stóð frá kl. 14 til 17 að íslenskum tíma, ætlað að gefa óbreyttum borgurum færi á að forða sér frá helstu átakasvæðunum, auk þess sem reyna átti að koma særðum og öðrum viðkvæmum hópum undan.

Átökin kviknuðu vegna valdabaráttu á milli hershöfðingjanna Abdel Fattah al-Burhan, yfirmanns herforingastjórnarinnar í Súdan, og næstráðanda hans, Mohamed Hamdan Daglo, en hann hefur stýrt vígasveitunum RSF (Rapid Support Forces) undanfarin misseri. Mun Daglo ekki hafa fellt sig við hugmyndir um að sveitir hans yrðu sameinaðar hernum.

Bæði stjórnarherinn og RSF sögðust í gær ráða yfir helstu kennileitum Kartúm-borgar, en ríkissjónvarpsstöð Súdans var eingöngu með ættjarðarlög á dagskrá sinni í gær meðan bardagar geisuðu. Sögðust talsmenn RSF hafa náð valdi á forsetahöll landsins, alþjóðaflugvellinum í Kartúm og öðrum mikilvægum stöðum, en stjórnarherinn bar þær fregnir til baka. Þá sást reykur stíga frá byggingu í nágrenni við höfuðstöðvar hersins í höfuðborginni.

Sjónarvottar lýstu því við AFP-fréttastofuna hvernig þeir hefðu séð skriðdreka keyra um götur höfuðborgarinnar meðan orrustuþotur flugu yfir. Vélbyssuskothríð og sprengingar heyrðust svo með reglulegu millibili, en göturnar voru tómar að frátöldum hermönnum.

Þrír starfsmenn SÞ myrtir

Einnig var barist utan höfuðborgarinnar, þar á meðal í Darfúr-héraði og í Kassala-héraði, en þar var stjórnarherinn sagður hafa beitt stórskotaliði á bækistöðvar RSF-hópsins.

Þá létust þrír starfsmenn Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í skærum í norðurhluta Darfúr-héraðs. Volker Perthes, sérstakur fulltrúi SÞ í Súdan, fordæmdi morðin á starfsmönnunum þremur og sagði að hjálparstarfsmenn væru ekki lögmæt skotmörk í átökum.

Perthes sagðist einnig vera hneykslaður á fregnum af því að eldflaugum hefði verið skotið á búðir Sameinuðu þjóðanna og annarra mannréttindasamtaka á nokkrum stöðum í Darfúr-héraði. Flugvél á vegum Matvælaaðstoðarinnar skemmdist einnig mjög í átökum við flugvöllinn í Kartúm.

Sakaður um stríðsglæpi

RSF-hópurinn var stofnaður árið 2013 á grunni Janjaweed-vígahópsins sem Omar al-Bashir, þáverandi forseti Súdan, beitti gegn minnihlutahópum í Darfúr-héraði á fyrstu árum 21. aldarinnar. Voru Bashir og vígahópurinn sakaðir um stríðsglæpi vegna framferðis síns í Darfúr.

Gert var ráð fyrir því að RSF-hópurinn yrði settur undir stjórnarher Sýrlands á næstunni, en það var talið lykilatriði í því að færa stjórnartaumana í landinu aftur til borgaralegra afla eftir valdarán hersins árið 2021.

Kallað eftir vopnahléi

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði í gær eftir því að báðar fylkingar legðu niður vopn sín án nokkurra tafa. Fordæmdi hann átökin og krafðist þess að þeir sem hefðu orðið valdir að mannfalli meðal óbreyttra borgara yrðu dregnir til ábyrgðar þegar í stað.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti sömuleiðis til friðar og sagði að átökin ógnuðu öryggi óbreyttra borgara. Svipuð áköll bárust frá Afríkusambandinu, Arababandalaginu, Bretlandi, Evrópusambandinu, Kína og Rússlandi, auk þess sem Frans páfi sagði að hann hefði áhyggjur af ástandi mála og hvatti til viðræðna.

Afríkusambandið hélt neyðarfund í gær um ástandið í Súdan og var þar ákveðið að Moussa Faki Mahamat, yfirmaður framkvæmdastjórnar sambandsins, myndi halda til landsins við fyrsta tækifæri til þess að freista þess að koma á vopnahléi og viðræðum á milli stríðandi fylkinga.

Ólíklegt er hins vegar talið að sú viðleitni geti borið árangur, en Daglo sagði í viðtali í gær að Burhan væri „glæpamaður“ sem yrði að gefast upp, á sama tíma og stjórnarherinn lýsti því yfir að engar viðræður myndu eiga sér stað við „vígasveitir uppreisnarmanna.“

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson