Rusl Mikið rusl fer í urðun á hverju ári og borgarfulltrúi telur úrbóta þörf.
Rusl Mikið rusl fer í urðun á hverju ári og borgarfulltrúi telur úrbóta þörf. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ef við gerum ekki eitthvað núna þá stefnir í óefni á næstum árum enda verður losun borgarinnar búin að þrefaldast. Þá er ljóst að markmið um kolefnishlutleysi munu ekki nást,“ segir Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ef við gerum ekki eitthvað núna þá stefnir í óefni á næstum árum enda verður losun borgarinnar búin að þrefaldast. Þá er ljóst að markmið um kolefnishlutleysi munu ekki nást,“ segir Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Ragnhildur Alda leggur fram tillögu í borgarstjórn á morgun um að framkvæmd verði úttekt og rekjanleikagreining á úrgangsstraumum frá starfsstöðum Reykjavíkurborgar til þess að draga úr úrgangi, auka endurvinnslu, lækka kostnað og ekki síst bæta yfirsýn yfir úrgangsmálin hjá starfsstöðum borgarinnar.

Úrgangslosun aukist mikið

Borgarfulltrúinn rekur í samtali við Morgunblaðið að rusl sé fjórða stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda í Evrópu en mesti skaðinn sé af völdum sorps sem fari í urðun. Í Græna bókhaldi Reykjavíkurborgar komi fram að í rekstri sínum henti borgin rétt tæplega 2.800 tonnum af rusli árið 2021. Þar af fóru 67% í urðun eða 1.900 tonn. Úrgangslosun frá rekstri Reykjavíkurborgar hefur að hennar sögn aukist mikið undanfarin ár og ætti með þessu áframhaldi að rjúfa þrjú þúsund tonna múrinn við lok þessa kjörtímabils.

„Bæði Reykjavíkurborg og ríkið hafa sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Áherslan hefur verið sett á samgöngumál en mér hefur þótt rétt að halda til haga þætti sorps í losun gróðurhúsalofttegunda. Reykjavíkurborg urðar allt of mikið af rusli frá rekstrinum. Raunar er það svo að urðun sorps er stærsta ástæða losunar gróðurhúsalofttegunda frá rekstri borgarinnar og fer bara vaxandi nema eitthvað verði að gert.“

Ótrúlegt magn af sorpi á ári

Hún segir að erfitt sé að átta sig á umfanginu, jafnvel þótt 1.900 tonn sem fari í urðun sé afar há tala. „Samkvæmt mínum útreikningum jafngildir það að grafa 1.711 Toyta Yaris bifreiðar í jörðu á hverju ári. Það er ekkert smáræðis magn.“

Ragnhildur Alda segir að tímabært sé að staldra við og kanna hvað sé hægt að gera betur.

„Í Græna bókhaldi borgarinnar eru ýmsar forsendur, til dæmis að Gaia yrði komin á fullt og myndi vinna mikið af metangasi úr úrganginum og ekki þyrfti að urða mikið. Sú forsenda gekk ekki eftir og nú er verið að skoða það að senda rusl til Danmerkur til að brenna það. Það er nú ekki lítið kolefnisspor af slíkum ferðum. Ég tel að skynsamlegast væri að skoða það hverju við erum að henda og af hverju við erum að urða það. Þannig er hægt að finna út hvað er hægt að minnka og svo framvegis. Finna leiðir til að spara og endurnýta betur, er hægt að finna leiðir til að gera þetta skilvirkara og ódýrara. Mörg fyrirtæki og sveitarfélög hafa ráðist í úttekt eins og þá sem ég legg til og þær hafa yfirleitt heppnast mjög vel. Það er til mikils að vinna,“ segir Ragnhildur Alda.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon