Sæmundur Oddsson
Sæmundur Oddsson
Íslenska heilbrigðisfyrirtækið Sidekick Health hefur vaxið hratt á undanförnum árum, og telur það nú yfir 170 starfsmenn í fjórum löndum. Fyrirtækið býður upp á notkun snjalltækni til að styðja við sjúklinga og hjálpa þeim m.a

Íslenska heilbrigðisfyrirtækið Sidekick Health hefur vaxið hratt á undanförnum árum, og telur það nú yfir 170 starfsmenn í fjórum löndum. Fyrirtækið býður upp á notkun snjalltækni til að styðja við sjúklinga og hjálpa þeim m.a. að bæta lífstíl sinn og hafa þannig áhrif á sjúkdómshorfur og líðan.

Sæmundur Oddsson, læknir og framkvæmdastjóri Sidekick Health, segir í samtali við Morgunblaðið í dag, að Sidekick Health hafi í upphafi verið hugsað sem nokkurs konar hjálpar­hella fyrir heilbrigðisstarfsfólk, en hann stofnaði fyrirtækið ásamt Tryggva Þorgeirssyni, lækni og forstjóra þess.

Forritið má t.d. nota til fjar­vöktunar á ástandi sjúklinga, og hefur hún gefið góða raun á hjartadeild Landspítalans þar sem verið er að rannsaka gagnsemi þess við vöktun sjúklinga.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að forritið hefði verið valið til þátttöku í sérstöku átaki Bandaríkjaforseta sem miðar að því að sameina á einn stað fjölbreytta þekkingu, reynslu og lausnir til að bæta krabbameinsmeðferðir og forvarnir. Segir Sæmundur að valið sé viðurkenning á margra ára þrotlausri vinnu og þeim eldmóði sem liggi að baki forritinu. Þá fái Sidekick Health tækifæri með verkefninu til að taka þátt í að skrifa heilbrigðissöguna » 12