Guðrún Rannveig Guðmundsdóttir fæddist 14. nóvember 1931. Hún lést 29. mars 2023.

Útför Guðrúnar Rannveigar fór fram 12. apríl 2023.

Elsku tengdamóðir mín. „Nafna mín, ertu komin?“ sagði hún alltaf skælbrosandi baðandi út höndum eftir faðmlagi þegar ég kom til hennar. Við vorum miklar vinkonur og brölluðum mikið saman. Hún sagði að ég væri dóttir sín sem hún eignaðist aldrei. Ég kynntist nöfnu minni árið 1988, þá var ég á 16. ári og ég og Kristján minn kærustupar. Ég var alltaf svo innilega velkomin inn á heimili hennar og Kristjáns (Bjössa) tengdaföður míns. Síðastliðnu árin fórum við mikið rúntinn okkar eins og við kölluðum það, hann var um ALLAN Hafnarfjörðinn. Stoltari Hafnfirðing er ekki hægt að finna og þar var mín kona á heimavelli. Áður en við settumst í bílinn rétti ég henni alltaf bíllykilinn og sagði í gríni: „Þú keyrir.“ Þetta þótti henni alltaf jafn fyndið og skemmtilegt og sagði alltaf hlæjandi: „Ég er ekki með bílpróf.“ Í Hafnarfirði þekkti hún hverja einustu götu og hver bjó í þessu húsi og hinu, hvaða starfsemi var í þessu húsi og hinu. Hún sagði svo áhugaverðar sögur af sjálfri sér, fólki og fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir að ég væri búin að heyra sögurnar oft, þá var alltaf eins og ég væri að heyra þær í fyrsta sinn, því þær voru svo fallegar, skemmtilegar og fróðlegar. Austurgata 19 var hennar hús, takk fyrir. Þar ólst nafna mín upp. Dásamlegu sögurnar af móður hennar og föður, bræðrum hennar, Bryndísi bestu vinkonu hennar, þau voru efst í huga Guðrúnar ásamt sonunum fimm. Við enduðum alltaf rúntinn okkar í Firðinum á Rif veitingahúsi til að fá okkur rifin okkar góðu. Afgreiðsludaman sagði alltaf þegar við komum: „Nei, Guðrúnurnar eru mættar.“ Nafna sagði alltaf að beinin skömmuðust sín svo mikið, því kjötið rennur svo auðveldlega af beinunum. Nafna var svo orðheppin og sagði oft að móðir hennar kenndi henni að „ef það eru til tvö orð yfir orðið sem þú ætlar að nota, notaðu þá fallegra orðið“. Guðrún var með sína skoðun á hlutunum og ákveðin kona: „Fjöllin eru ekki falleg nema þau séu blá.“ Hún var alltaf snyrtileg til fara. Eitt sinn fórum við og keyptum okkur pylsu og kók í Hafnarfirði, lak þá smá dropi af kókinu á buxurnar hennar, sem voru svartar, ég sagði þetta er allt í lagi og sést ekkert, en henni fannst þetta agalegt og þetta truflaði hana það mikið að hún varð að fara heim og skipta um buxur, samt sást ekkert á buxunum.

Í huganum sl. mánuði var nafna stödd HEIMA í Austurgötu 19. Hún var stundum orðin of sein heim í Austurgötuna og móðir hennar væri að bíða eftir henni. Alltaf var stutt í húmorinn hjá þessari elsku, ég sagði þá við hana til að róa hugann hjá henni: „Eigum við að dansa“, alltaf þótti nöfnu þetta skemmtilegt og byrjaði að dansa með mér. Elsku nafna mín og mikla vinkona mín, mikið er söknuðurinn sár og tíminn þinn kominn þrátt fyrir að maður sé aldrei tilbúinn. Þú munt alltaf eiga fallegan stað í mínu hjarta. Ég veit að foreldrar þínir og bræður og Bjössi þinn tóku vel á móti þér og umvefja þig. Takk fyrir allt og allt, fallega og yndislega tengdamóðir mín. Mining þín lifir í hjörtum okkar allra.

Þín tengdadóttir,

Guðrún Björk Sigurjónsdóttir.