— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Forsvarsmenn fyrirtækisins FF 11 ehf. hafa lagt fram kæru á hendur tveimur fyrirtækjum, fasteignafélaginu Regin hf. og dótturfyrirtæki þess, RA 5 ehf., fyrir meint brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um brunavarnir vegna brunans í Miðhrauni 4 í Garðabæ 5. apríl 2018.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Forsvarsmenn fyrirtækisins FF 11 ehf. hafa lagt fram kæru á hendur tveimur fyrirtækjum, fasteignafélaginu Regin hf. og dótturfyrirtæki þess, RA 5 ehf., fyrir meint brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um brunavarnir vegna brunans í Miðhrauni 4 í Garðabæ 5. apríl 2018.

FF 11 var eigandi fjórðungs fasteignarinnar og hafði leigt eignarhluta sinn fyrirtækinu Geymslum ehf. með samningi árið 2015. Auk geymsluleigu var ýmis önnur starfsemi í húsinu, verslun, skrifstofur og lagerhúsnæði. Alls skiptist Miðhraun 4 í níu brunahólf að frátöldum stigahúsum og tæknirýmum. Lágu tveir eldveggir þvert gegnum bygginguna, frá austri til vesturs, og skildu að miðrými hennar og norðurenda annars vegar og suðurenda hins vegar.

Kom eldurinn upp í miðrýminu, lager Drífu ehf. sem framleiðir og selur útivistarfatnað úr hraðbrennanlegum efnum. Eldurinn átti upptök sín við vegg er skildi lagerinn frá eignarhluta FF 11 ehf. í húsnæðinu og þeirri geymslustarfsemi er þar var þá rekin. Lagerrýmið, eign RA 5 ehf., hafði upphaflega verið kvikmyndaver.

Hafði eldvarnaeftirlit með húsinu tvívegis farið fram af hálfu slökkviliðis höfuðborgarsvæðisins, árið 2004, þegar framangreindur hluti þess var enn kvikmyndaver, og 2015, en þá var eingöngu suðurhlutinn, eignarhluti FF 11 ehf., tekinn til skoðunar. Voru minni háttar athugasemdir gerðar í báðum úttektunum, þar af ein árið 2015. Engin skoðun fór hins vegar fram á miðrými hússins eftir að RA 5 ehf. leigði Drífu ehf. húsnæðið sem þá fékk nýtt hlutverk og varð að fatalager.

Fótum fjör að launa

Samkvæmt lýsingu slökkviliðs á brunanum virtist eldurinn hafa farið hratt upp vegg í húsnæði Drífu ehf. og um loftið til norðnorðausturs. Hafi hillurekki á veggnum og mikill eldsmatur í honum stuðlað að hraða og stærð þess elds sem þar brann.

Er þess getið í skýrslu að starfsfólk Drífu ehf. hafi átt fótum fjör að launa þar sem reykur hafi komið nær samstundis inn á efri hæð í norðurenda. Voru reyklosunarop á húsnæðinu lítil miðað við umfang eldsins og hafi þetta haft áhrif á hversu fljótt lagerrýmið varð alelda. Hafi mikill undirþrýstingur myndast neðarlega í rýminu og reykur og hiti því fljótt farið inn í rýmin í suður- og norðurenda byggingarinnar. Hélt brunahólfun milli rýmanna einungis að hluta þar sem reykur komst strax á milli þeirra.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Mannvirkjastofnun, MVS, komu að rannsókn málsins, MVS í krafti ákvæða laga um brunavarnir sem kveða á um að hún skuli, verði umtalsvert eignatjón í eldsvoða, rannsaka atburðinn óháð lögreglurannsókn. Er skýrsla MVS dagsett 29. nóvember 2019 og fékk lögmaður kæranda hana í hendur 17. febrúar árið eftir.

Eldsmatur frá gólfi til lofts

Leiddi rannsóknin, sem framkvæmd var í samstarfi við aðra opinbera aðila, í ljós að líklega hefði kviknað í út frá rafmagni neðarlega á suðurvegg lagerrýmisins og sennilegt að skammhlaup í skemmdum tengli hefði gert það að verkum að eldur kviknaði í varningi er lá þar upp við.

Gekk slökkvistarf erfiðlega vegna flókinna og krefjandi aðstæðna enda, svo vitnað sé í skýrsluna, „brunaálag langt yfir viðmiðum þeirra brunavarna sem voru til staðar og brunahraði mikill. Fatalager með mjög hraðbrennanlegum efnum staflað frá gólfi og nánast upp undir þak, gerði það að verkum að eldurinn óx mjög hratt og magn brennanlegra efna (brunaálag) var svo mikið að brunahólfið varð alelda á mjög skömmum tíma.“

Ekki varð manntjón í brunanum en starfsmaður Drífu ehf. hlaut þó brunasár er hann forðaði sér undan eldinum í reykjarmekki auk þess sem slökkviliðsmaður féll niður um eina hæð við reykköfun og hlaut minni háttar meiðsl af.

Var meginniðurstaða skýrslu MVS að ekki hefði verið farið eftir gildandi reglum og leiðbeiningum hvað brunavarnir snerti og benti stofnunin þar á fjögur atriði sem hún telur vega þungt.

Brunaálag langt yfir mörkum

Ekki hefði verið óskað eftir lokaúttekt þegar húsnæðið var fyrst tekið í notkun, ekki hefði verið óskað eftir úttekt á stöðu framkvæmda við sama tækifæri, eldvarnaeftirlit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefði ekki sinnt reglubundnu eldvarnaeftirliti í samræmi við reglugerð og í fjórða og síðasta lagi hefði ekki verið sótt um leyfi fyrir breyttri notkun byggingarinnar „þegar henni var breytt með afgerandi hætti úr kvikmyndastúdíói fyrir Latabæ í lager með auknu brunaálagi“.

Telur MVS síðasttalda atriðið vega þungt í því hvernig fór 5. apríl 2018 þegar stórbruni varð í Miðhrauni 4 og lætur þess enn fremur getið í skýrslu sinni að helsta orsök þess að bruninn hafi orðið svo mikill og byggingin eyðilagst með öllu hafi verið brunaálag langt yfir þeim mörkum sem forsvaranlegt væri miðað við skráð notkunarsvið húsnæðisins sem kvikmyndavers.

Eina lausnin með tilliti til brunaöryggis hefði að áliti MVS verið vatnsúðakerfi fyrir mikla áhættu ásamt slíku kerfi í allar hillur. Hefðu eigandi og forráðamaður húsnæðisins átt að gera sér grein fyrir auknu brunaálagi vegna lagers Drífu ehf.

Þá gáfu byggingafulltrúinn í Garðabæ og slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins út sameiginlegt minnisblað vegna brunans með skýringum á hönnun, byggingarleyfi, brunavörnum og notkun hússins og samhengi þessara þátta við brunann.

Úðakerfi tekið út úr hönnun

Kemur þar fram að þegar ljóst hafi orðið hverjir notendur hússins yrðu, rekstraraðilar geymsluhúsnæðis í suðurhluta þess og kvikmyndaver Latabæjar, hafi brunaálag verið metið umtalsvert minna en ella, viðmiðunarálag í kvikmyndaveri væri til dæmis lítið. Vatnsúðakerfi hafi því verið tekið út úr hönnun og í staðinn komið fyrir reyklúgum í þaki og eldvörn á burðarvirki. Er niðurstaða minnisblaðsins eftirfarandi:

„Það er mat slökkviliðsstjóra að við fyrri notkun hússins sem kvikmyndavers hafi bruni af þessum toga aldrei verið mögulegur. Jafnframt hefðu mestar líkur verið á því að versta mögulega tilvik hefði orðið viðráðanlegt í slökkvistarfi og tjón í samræmi við það. Notkun húsnæðisins fyrir mikið magn af hraðbrennanlegri vöru án þess að brunavarnir hússins hafi verið uppfærðar m.t.t. þess er [ástæða] þess að svo fór sem fór.“

Voru Geymslur ehf. sýknaðar á öllum dómstigum þegar eigendur varnings í geymsluhúsnæðinu, eign FF11 ehf., stefndu leigusalanum. Telur FF 11 ehf. í kæru sinni að kærðu, Reginn hf. og RA 5 ehf., hafi átt að gera sér grein fyrir því að nauðsyn sé að leiguhúsnæði þeirra standist kröfur laga um brunavarnir. Enn fremur hafi kærandi haft spurnir af því að kærðu hafi leitað tilboða í fullnægjandi brunavarnir en kosið að fara ekki í þær framkvæmdir.

Telur kærandi háttsemi kærðu auk þess fela í sér brot gegn hegningarlögum með því að hafa ekki afstýrt eldsvoða með því að nota fullnægjandi brunavarnir auk þess sem hann telur brotið gegn lögum um brunavarnir með því að framkvæma ekki nauðsynlegar úrbætur á húsnæðinu.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson