Vörn David Okeke og Antonio Woods eigast við á Sauðárkróki.
Vörn David Okeke og Antonio Woods eigast við á Sauðárkróki. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
Antonio Woods var stigahæstur hjá Tindastóli þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik með öruggum sigri gegn Keflavík í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum í Síkinu á Sauðárkróki á laugardaginn

Antonio Woods var stigahæstur hjá Tindastóli þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik með öruggum sigri gegn Keflavík í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum í Síkinu á Sauðárkróki á laugardaginn.

Leiknum lauk með 18 stiga sigri Tindastóls, 97:79, en Woods skoraði 22 stig, tók tvö fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Tindastóll vann einvígið 3:1, en Sauðkrækingar komust í 2:0 í einvíginu áður en Keflavík minnkaði muninn í 1:2 í þriðja leik liðanna í Keflavík.

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 19 stig fyrir Tindastól, tók fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar en David Okeke var stigahæstur hjá Keflavík með 17 stig og fjögur fráköst.

Þá átti Jordan Semple stórleik fyrir Þór frá Þorlákshöfn þegar liðið tryggði sér oddaleik gegn Haukum með 12 stiga sigri, 94:82, í fjórða leik liðanna í Þorlákshöfn en staðan í einvíginu er 2:2.

Semple skoraði 26 stig, tók ellefu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en Tómas Valur Þrastarson var einnig öflugur fyrir Þórsara og skoraði 21 stig. Daniel Mortensen skoraði 20 stig fyrir Hauka, ásamt því að taka tvö fráköst og gefa fjórar stoðsendingar.

Oddaleikur liðanna fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld en sigurvegarinn úr þeim leik tryggir sér sæti í undanúrslitum ásamt Val, Njarðvík og Tindastóli.

Fari svo að Haukar vinni einvígið mætast Valur og Tindastóll í undanúrslitum og Njarðvík og Haukar. Vinni Þórsarar hins vegar þá mætast Valur og Þór og Njarðvík mætir Tindastóli.