Skipuleggjendur Metnaður að baki hátíðinni er að aukast, segir Harpa Rut Hilmarsdóttir. Hún er hér til hægri og með henni er Harpa Jónsdóttir.
Skipuleggjendur Metnaður að baki hátíðinni er að aukast, segir Harpa Rut Hilmarsdóttir. Hún er hér til hægri og með henni er Harpa Jónsdóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Barnamenningarhátíð er einn af stórviðburðum ársins hjá börnunum í borginni,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir. Hún er framkvæmdastjóri þeirrar miklu hátíðar í Reykjavík sem hefst á morgun, 18

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Barnamenningarhátíð er einn af stórviðburðum ársins hjá börnunum í borginni,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir. Hún er framkvæmdastjóri þeirrar miklu hátíðar í Reykjavík sem hefst á morgun, 18. apríl og stendur til sunnudags. Hátíðin fer fram um alla borg og efnt er til fjölbreyttra sýninga og viðburða sem unnir eru fyrir börn og með börnum. Verk eru sýnd í menningarhúsum og víðar. Má segja að barnamenning verði ráðandi í listalífi Reykjavíkur næstu daga. Í ár er sérstök áhersla lögð á viðburði í Grafarvogi og viðburði sem tengjast friði.

„Okkur fannst liggja beint við að leggja áherslu á frið á hátíðinni í ár. Lag hátíðarinnar, Kæri heimur, sem Vigdís Hafliðadóttir semur og syngur, fjallar um frið og byggist á hugmyndum barna í skólum borgarinnar um frið. Við hvöttum þau sem eru með viðburði á hátíðinni til að hugsa frið inn í þá og sýningar á verkum barna á menningarstofnunum borgarinnar eru tileinkaðar friðarboðskap,“ segir Harpa, sem ásamt Björgu Jónsdóttur hefur verið í aðalhlutverki við að skipuleggja Barnamenningarhátíðina.

Skapa list með börnunum

Nemendum 4. bekkjar í grunnskólum Reykjavíkur er boðið á opnunarviðburð hátíðarinnar sem verður í Eldborgarsal Hörpu á morgun, þriðjudag, kl. 09:45 og 11:45. Þar verða fjölbreytt atriði. „Mörg börn hafa undirbúið þátttöku í hátíðinni allt skólaárið í skólunum sínum eða frístundamiðstöðvunum. Þau hafa lært lög, skapað tónlist og unnið listaverk fyrir sýningar í samstarfi við listafólk og kennarana sína,“ segir Harpa Rut og heldur áfram:

„Metnaðurinn að baki hátíðinni er alltaf að aukast. Við byggjum ofan á reynslu síðustu ára. Barnamenning á Íslandi er í miklum blóma og fjöldi listafólks sem skapar fyrir börn og með börnum eykst sífellt. Nú er líka ótrúlega flott evrópsk tónlistarhátíð, Big Bang, jafnhliða barnamenningunni. Þangað fáum við meðal annars erlent tónlistarfólk alla leið frá Mósambík sem verður með trommusirkuslistir en líka fjölda íslensks tónlistarfólks og barna sem flytja tónlist.“

Þúsundir barna eru í skólum Reykjavíkur og vænst er virkrar þátttöku þeirra í hátíðinni; á skólatíma og svo utan hans þegar hátíðin getur verið góður upptaktur að gæðastund þar sem fjölskyldan öll gerir eitthvað saman. Meðal einstakra viðburða á Barnamenningarhátíð má nefna að á morgun verður á Kjarvalsstöðum opnuð sýning barna á leikskólanum Kvistaborg í Fossvogi. Börnin hafa lært um líf og störf Kjarvals og áhrif hans á íslenskt menningarlíf með ferðalagi um listir, landslag og með sögum.

Virkir þátttakendur

„Börn eiga að fá að vera virkir þátttakendur í menningarlífi. Það á að taka þeirra hugmyndir og sköpunarverk alvarlega eins og gert er á Barnamenningarhátíð þar sem þeim er boðið á metnaðarfulla menningarviðburði. Og nú fá börn að syngja á stóra sviðinu í Hörpu og starfa með listafólki. Sýna verkin sín á virtum menningarstofnunum, skapa tónlist sem fagfólk flytur og eignast sérstaka tónlistarhátíð þar sem áhersla er lögð á að viðburðirnir séu sniðnir að upplifunum barnanna. Það eru ekki öll börn sem fara t.d. í Hörpu með fjölskyldum sínum en við tryggjum að öll börnin í borginni fái einn viðburð sem er sérhannaður fyrir þau,“ segir Harpa Rut.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson