Uggur er meðal íbúa í Húnaþingi vestra vegna riðuveiki sem greinst hefur í sauðfé á tveimur bæjum í Miðfirði. Búið er að fella allt fé á Bergsstöðum og sama verður gert við stofninn á Syðri-Urriðaá. Á báðum bæjum hafa verið um 700 fjár

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Uggur er meðal íbúa í Húnaþingi vestra vegna riðuveiki sem greinst hefur í sauðfé á tveimur bæjum í Miðfirði. Búið er að fella allt fé á Bergsstöðum og sama verður gert við stofninn á Syðri-Urriðaá. Á báðum bæjum hafa verið um 700 fjár. „Um leið og upp kemur sýking í sauðfjárveikivarnahólfi fá allir hnút í magann,“ segir Sigríður Ólafsdóttir í Víðidalstungu, bóndi, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og fulltrúi í sveitarstjórn Húnaþings vestra.

Fyrrgreindir bæir, þar sem riða hefur greinst, eru í svonefndu Miðfjarðarhólfi sem er svæðið milli Hrútafjarðar og Fitjár. Þar eru nærri 40 sauðfjárbú og í raun er Húnaþing vestra eitt helsta fjárræktarsvæði landsins. Sá búskapur er undirstaða byggðar á svæðinu, þar sem margir þættir haldast í hendur og mynda samfélag.

„Áfallið er mikið fyrir alla sem búa hér á svæðinu,“ segir Sigríður Ólafsdóttir. „Þéttbýlið á Hvammstanga og atvinnustarfsemi þar byggist mikið á þjónustu við sveitirnar og fólk þar. Því telur verulega þegar framleiðslu er hætt á tveimur stórum sauðfjárbúum. Á þessum bæjum býr fólk sem þarf margs með; daglegrar neysluvöru, varnings til búrekstrar og bygginga, bensíns á bílinn, börnin sækja skóla og svo framvegis. Vonandi hefst sauðfjárbúskapur á þessum bæjum aftur að tveimur árum liðnum en um stundarsakir geta áhrifin á samfélagið orðið umtalsverð.“

Ýmsar spurningar eru uppi meðal fólks í héraði, segir Sigríður sem telur afar brýnt að þeim verði svarað sem fyrst. Fundur með dýralæknum og fleirum er áformaður á Hótel Laugabakka á morgun, þriðjudagskvöld. Vonandi muni heildarmyndin skýrast þar.