Sigurhanna Erna Gísladóttir fæddist 18. mars 1941 á Fæðingarheimilinu við Rauðarárstíg. Hún lést á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni 2 3. apríl 2023.

Hún var dóttir hjónana Gísla Gunnars Björnssonar, vörubílstjóra, f. 26.12. 1917, d. 26.12. 2003, og Ólafíu Símoníu Sigrúnar, herrafataklæðskera, f. 16.7. 1917, d. 12.10. 2012. Sigurhanna var þriðja elst fimm systkina.

Sigurhanna giiftist Baldri H. Oddssyni, f. 10.7. 1936. Hann er sonur hjónanna Odds H. Björnssonar bifreiðastjóra, f. 9.12. 1908, d. 14.1. 2004, og Sigríðar Oddsdóttur, húsfreyju, f. 2.11. 1915, d. 8.10. 2013.

Sigurhanna átti fjóra bræður, þá Jóhann Gunnar Gíslason, f. 17.6. 1937, d. 6.4. 2010, Björn H. Gíslason, f. 17.11. 1939, d. 24.3. 2004, Einar J. Gíslason, f. 24.12. 1945, og Halldór Gíslason, f. 26.7. 1951.

Sigurhönnu varð fjögurra barna auðið. Elstur var Gísli Gunnar Sveinbjörnsson, f. 26.8. 1958. Hann eignaðist þrjú börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Bergmann, f. 2.8. 1958. Elstur er Ingi Örn Gíslason, f. 16.11. 1979. Sambýliskona hans er Emelía Björg Óskarsdóttir. Næst er Berglind Gísladóttir, f. 11.1. 1985. Yngstur af börnum Gísla er Birgir Gíslason, f. 23.7. 1992. Sambýliskona Gísla í dag er Guðríður Guðmundsdóttir, f. 15.1. 1960. Næstur er Björn Þór Baldursson, f. 2.10. 1960, og einkadóttir Sigurhönnu er Berglind Baldursdóttir, f. 2.5. 1964. Yngstur er Baldur Oddur Baldursson, f. 11.6. 1967. Kona hans er Margrét Hilmisdóttir, f. 21.6. 1963. Saman eiga þau tvær dætur, Selmu Björk Baldursóttir, f. 8.8. 2000, og Snædísi Baldursdóttir, f. 8.12. 2004. Fyrir átti Baldur eina dóttur, Hönnu Rose Baldursdóttur, f. 3.2. 1993, móðir hennar var Karimah Sunkett.

Sigurhanna bjó fyrstu mánuði ævi sinnar á Bergþórugötu 14. Þaðan flutti hún á Rauðarárstíg 20 og bjó þar til sex ára aldurs. Sigurhanna flutti með foreldrum sínum á Laugaveg 57 og þar hóf hún skólagöngu sína í Austurbæjarskóla, sjö ára að aldri. Eftir að hafa flutt nokkrum sinnum, flutti hún á Barónsstíg 12 og hóf skólagöngu í Lindargötuskóla.

Sigurhanna hóf störf í matvöruverslun Jónasar Bergmann aðeins 11 ára og vann þar í tvö ár. Þaðan fór hún yfir til Silla og Valda en eftir stutta viðkomu þar hóf hún störf í Gardínuversluninni og vann þar lengi. Sigurhanna fór í Menntaskólann á Laugavatni 15 ára og undi sér vel þar. Hún varð barnshafandi 16 ára og eignaðist sitt fyrsta barn, Gísla, 17 ára. Hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum 17 ára en þau opinberuðu trúlofun sína 1959. Þau gengu síðan í hjónaband ári seinna og stuttu síðar eignaðist hún sitt annað barn. Þeirra fyrsta heimili var að Kjartansgötu 5. Hanna og Baldur skildu árið 2001 og þá flutti Sigurhanna á Háaleitisbraut 51 en þar bjó hún til dauðadags. Sigurhanna vann á seinni árum við ýmis verslunarstörf, meðal annars í Máli og menningu og Búsáhöldum og gjafavörum.

Jarðsungið verður frá Lindakirkju í dag, 17. apríl 2023, klukkan 13. 

Það er að reynast mér mun erfiðara en ég átti von á að skrifa minningargrein um hana mömmu. Hvað getur maður skrifað um konu sem elskaði mann takmarkalaust alla tíð og gerði allt fyrir mann sem í hennar valdi stóð.

Allt frá því að ég man eftir mér átti ég alltaf í mömmu-hús að venda hvað sem á gekk. Hún lét mig stundum heyra það og sparaði ekki stóru orðin, en svo var málið afgreitt, aldrei fýla en alltaf vinskapur. Samband okkar mömmu einkenndist af vinskap en það eru einmitt vinir manns sem segja manni sannleikann. Ég var langt því frá að vera auðveldur unglingur en mamma áttaði sig fljótt á því hvað virkaði og hvað virkaði alls ekki. Það var helst þess vegna sem ég gat alltaf rætt málin við mömmu án þess að hræðast einhverjar afleiðingar og áttum við því ótrúlega gott samband þótt flestar reglur hafi verið brotnar eins og oft á við um unglinga.

Eftir unglingsárin varð talsvert auðveldara að vera móðir mín, en ég fékk þó alltaf að heyra það ef henni mislíkaði eitthvað. Eins og þeir vita sem þekktu múttu var hún einstakur snyrtipinni og ég hef fengið sömu spurninguna frá henni í rúm þrjátíu ár og fram á síðustu daga hennar: Áttu ekki rakvél?

Hún er mér mikil fyrirmynd í því hvernig á að ala upp börn, þó að mér hafi ekki tekist nærri jafn vel upp og henni.

Það er óbærilega þungt að hugsa til þess að geta aldrei faðmað hana aftur og hvað þá meir á maður eftir að sakna umvandana hennar. Það er þó smá huggun í því að vita að hún hefur fengið hvíldina góðu, enda voru lífsgæðin orðin afskaplega lítil undir það síðasta.

Blessuð sé minning múttu, með ást og söknuði,

Baldur.

Elsku dásamlega mamma mín. Nú ert þú farin í Sumarlandið þar sem ég veit að tekið er á móti þér með miklum fögnuði og þú umvafin ástvinum sem nú þegar hafa kvatt.

Söknuður minn er ólýsanlegur. Kletturinn minn, fyrirmyndin og stjarnan mín er horfin til himna.

Það hrannast upp minningar, svo margar að ég gæti skrifað fleiri bækur um allt það sem við tvær brölluðum saman í gegnum tíðina. Mikið er ég þakklát fyrir allar okkar stundir saman.

Þú varst ekki bara elskuð af mér heldur af öllum í kringum þig enda með eindæmum félagslynd, skemmtileg, hláturmild, ljúf, blíð og réttsýn, þó að heyrst gæti hátt í þér ef þér mislíkaði.

Ég á þér allt að þakka. Þú varst alltaf til staðar, studdir við bakið á mér í öllu sem mér datt í hug og hvattir mig til dáða. Þú lagðir alla þína fallegu mannkosti í að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og þér tókst vel til.

Þú þurftir svo sannarlega oft að takast á við erfiðleika og veikindi í gegnum lífið og gerðir það með æðruleysi og reisn; stóðst uppi bein í baki og glæsileg.

Ég mun taka styrk þinn, ást og kjark sem veganesti áfram veginn.

Ég elska þig til tunglsins og til baka.

Ég kveð allra bestu mömmu sem hægt er að hugsa sér með bæninni sem við báðum alltaf saman þegar ég var lítil:

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Takk fyrir að vera mamma mín.

Þín

Berglind (Bess).

Hanna tengdamóðir mín kvaddi okkur mánudaginn 3. apríl. Síðustu dagana sem við vöktum yfir henni streymdu inn vinir og ættingjar að kveðja hana. Við vonum að hún hafi fundið fyrir nærverunni, því ekkert þótti henni skemmtilegra en að fá fólkið sitt í heimsókn. Hjá henni var alltaf opið hús og ef það voru ekki vinir í heimsókn, þá voru það ættingjar. Hún var einstaklega ræktarsöm við sína nánustu, sem voru reyndar ansi margir, og átti ég ófáar stundir með henni þar sem hún sagði sögur af æskuvinkonunum eða talaði með stolti um börnin sín og barnabörn; Hann Inga sinn sem var svo músíkalskur, Berglindi og Bigga grallaraspóa, ásamt börnum okkar Baldurs. Elsku Björn sonur hennar var lengi erlendis og læknaði hún söknuðinn með að segja endalausar sögur af Bössó sínum. Hún var hamhleypa í bakstri og fjöllunni féllust oft hendur þegar við mættum í kaffiboð. Þá var gjarnan spurt: Bíddu, erum við ekki bara fimm eða áttir þú von á 20 manns? Það var líka oft glatt á hjalla þegar við kjellur sátum saman ásamt Berglindi, einkadóttur hennar og sólargeisla, ásamt Guðrúnu Bergmann sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Hönnu og auðvitað mörgum öðrum góðum konum. Það var farið í leikhús, kaffihús og listasýningar. Hanna var alltaf til í að hittast.

Hanna var stórglæsileg kona og mun ég alltaf minnast hennar í litríkum fötum með eldrauðan varalit. Hún átti fleiri, fleiri fataskápa fulla af fötum, svo ekki sé minnst á skóúrvalið. Í þessum skápum öllum voru líka jólagardínur, páskagardínur, vorgardínur og alls konar gardínur, sem notaðar voru samviskusamlega á réttum árstíma og allt þvegið reglulega. Eitt árið bjó hún hjá okkur Baldri í dálítinn tíma. Þegar ég kom heim úr vinnunni dag einn, hafði hún varið sínum vinnudegi í að þvo út úr öllum skápum á heimilinu, því það var víst komin lykt sem hún kynnti mér; Skápalykt! Hún skensaði mig reglulega fyrir að vera arfaléleg húsmóðir með ryk út um allt og þegar ég setti upp sólgleraugun til að sjá það ekki, hló hún mikið. Hanna sagði hlutina eins og hún sá þá alveg filterslaust, en eitt það allra skemmtilegast við hana var húmorinn. Það var endalaust hægt að grínast með henni.

Dætur mínar eiga dásamlegar minningar um hana og heilan fjársjóð af listaverkum, bæði handprjónuð föt, postulínsmálaða dýrgripi og glerlistaverk. Hún var jafn mikil hamhleypa í listmunaframleiðslu og þrifum og erum við fjölskyldan afar þakklát fyrir þessi djásn. Við kveðjum stórbrotna konu sem gaf lífi okkar lit og gleði. Hvíl í friði elsku Hanna.

Þín tengdadóttir,

Margrét.

Þegar við systur fregnuðum andlát Sigurhönnu tóku minningarnar að streyma til okkar. Minningar um konu sem var ein af bestu vinkonum móður okkar, Guðlaugar Ragnarsdóttur, eða Lullu eins og Sigurhanna kallaði hana. Vinátta þeirra var einstök. Við fundum vel hversu mikil væntumþykja var á milli þeirra og hversu stóran sess þær skipuðu í lífi hvor annarrar.

Þær höfðu kynnst á bernskuárunum og smullu strax saman þrátt fyrir hversu ólíkir persónuleikar þær voru. Kannski má segja að það hafi verið það sem dró þær hvor að annarri. Þær sungu saman í barnakór Hallgrímskirkju, gengu í sunnudagaskóla hjá þeim Margréti og Maríu og sóttu fundi hjá KFUK. Síðar tóku þær þátt í barnakór Sólskinsdeildarinnar.

Þessi einstaka og fallega bernskuvinátta hélst allar götur. Sambandið var mismikið og á tímabili bjó mamma ásamt okkur fjölskyldunni erlendis. Þær fylgdust þó hvor með annarri og heyrðust reglulega. Eftir dvölina erlendis endurtók tími bernskuáranna sig þar sem þær fluttu í sama hverfi með fjölskyldur sínar. Þá endurnýjuðu þær vináttu sína.

Við systurnar minnumst tímanna í Brekkugerði með Sigurhönnu, þar sem hún kom í heimsókn með sínum einstaka hressileika og krafti. Hlátursköstin sem þær gátu farið í smituðust til okkar sem í kringum þær voru. Sigurhanna reyndist mömmu vel á erfiðum tímum í lífi hennar og gat alltaf haft góð og uppbyggileg áhrif á vinkonu sína. Við vitum reyndar að það var gagnkvæmt.

Okkur fannst dásamlegt að koma á heimili Sigurhönnu, allt svo smart, huggulegt og fínt og tekið var á móti okkur eins og við værum merkilegustu manneskjur í heimi. Hlýja hennar, gleði, hlátur og bros gerði það að verkum að okkur leið vel í návist hennar.

Árið 1999, í aðdraganda andláts mömmu, var Sigurhanna klettur í lífi okkar. Daglega kom hún til vinkonu sinnar með lifandi blóm sem hún setti í vasa sem var á náttborðinu við rúm mömmu og faðmaði hana. „Sigurhanna mín,“ sagði mamma á meðan hún gat en hún kallaði hana aldrei annað en þessu fallega nafni.

Eftir því sem við hugsum meira um liðna tíð sjáum við betur hversu falleg og sterk vinátta þeirra vinkvenna var. Þær voru ætíð til staðar hvor fyrir aðra. Þær glöddust saman á góðu stundunum sem voru sem betur fer margar en kunnu einnig að syrgja saman og bakka hvor aðra upp á tímum erfiðleika og áfalla.

Við erum þakklátar fyrir vináttu mömmu og Sigurhönnu. Á kveðjustundu viljum við í minningu mömmu þakka Sigurhönnu fyrir allt. Það er ekki sjálfsagt að bernskuvinátta haldist ævina á enda en það gerði hún í tilfelli þeirra. Líf okkar og mömmu var ríkara og skemmtilegra með Sigurhönnu sem hluta af því.

Elsku Sigurhanna, takk fyrir að vera þú, alltaf sjálfri þér samkvæm, hreinskiptin, hlý, uppörvandi og einstakur gleðigjafi. Takk fyrir að vera vinkonu mömmu, fyrir að standa þétt við bakið á henni þegar á þurfti að halda en um leið allt gamanið og hláturinn.

Kæru Gísli, Björn, Begga, Baldur og fjölskyldur. Við færum ykkur einlægar samúðarkveðjur við andlát yndislegrar móður, tengdamóður, ömmu og langömmu. Guð blessi minningu hennar. Vonandi eru þær vinkonur nú sameinaðar á ný þar sem þær njóta þess að hlæja saman.

Meira á www.mbl.is/andlat

Með innilegri kveðju,

ykkar

Guðlaug Helga,

Steinunn, Ragnhildur

og fjölskyldur.

Kynni okkar Hönnu hófust fyrir ríflega fimmtíu árum þegar eiginmenn okkar kynntust þar sem þeir unnu á sama stað. Okkur varð fljótt vel til vina og hefur sá vinskapur haldist allar götur síðan. Það var alltaf gott að heimsækja Hönnu og fjölskyldu bæði þegar þau bjuggu í Bogahlíðinni og ekki síður í Viðjugerðinu þar sem þau bjuggu sér fallegt heimili, en heimsóknir á báða bóga voru tíðar. Hún var traustur vinur og sannarlega höfðingi heim að sækja, hrein og bein, lá ekki á skoðunum sínum og sagði þær umbúðalaust. Oft reyndar þannig að maður hrökk við, en brosti jafnframt út í annað því að hún hafði sannarlega munninn fyrir neðan nefið og skóf ekki af hlutunum. Það var því alltaf líf og fjör þar sem Hanna var því hún hafði einnig dillandi hlátur og fasið var þannig að eftir henni var tekið.

Hanna var stórglæsileg kona, hörkudugleg og röggsöm. Hún var jafnframt mikill fagurkeri sem vildi hafa bæði hreint og fallegt í kringum sig. Heimilið bar þess merki því hún þreyttist sannarlega ekki á því að skúra, skrúbba og bóna þar til allt varð glansandi í hólf og gólf. Þannig vildi hún hafa hlutina.

Hanna hafði ánægju af því að ferðast, sem hún gerði reyndar alla tíð og ekki síst með Berglindi sem fór ófáar ferðir með mömmu sinni um víða veröld. Það hafa eflaust verið yndislegar stundir sem munu geyma góðar minningar.

Síðustu árin átti Hanna við erfið veikindi að stríða og það var virkilega sárt að sjá henni hraka. Hún dvaldi í Sóltúni þar sem hún naut góðrar umönnunar.

Við þökkum Hönnu samfylgdina, einlæga vináttu og margar góðar og skemmtilegar samverustundir. Börnum hennar og fjölskyldunni allri vottum við innilega samúð.

Anna Einarsdóttir og

Fríður Halldórsdóttir.