Jóhanna Kristín Arnberg Matthíasdóttir fæddist á Landspítalanum 2. mars 1969. Hún lést á Sjúkrahúsinu í Karlskrona í Svíþjóð 6. mars 2023.

Foreldrar Jóhönnu voru Matthías Baldur Einarsson, f. 4. janúar 1935, d. 9. september 2012, og Málfríður Ólína Þorsteinsdóttir, f. 2. desember 1935, d. 17. september 2003.

Jóhanna eignaðist tvö börn, Guðbjörgu Benediktsdóttur, f. 2. maí 1992, og Gunnar Benediktsson, f. 8. ágúst 1996.

Jóhanna ólst upp á Meistaravöllum í Reykjavík og á Flateyri og flutti svo ásamt börnum sínum út til Svíþjóðar þar sem hún bjó síðustu árin.

Útför Jóhönnu fór fram í safnaðarheimilinu í Bredåkra í Svíþjóð 5. apríl 2023.

Elsku valkyrjan mín, gullið mitt. Andlát þitt kom eins og þruma úr heiðskíru lofti eftir að hafa fylgst með þér þar sem þú hélst upp á afmælið þitt á sjúkrahúsinu með glæsibrag bara tveimur dögum fyrir þessar óvæntu fréttir. Bara eintóm gleði í kringum þig eins og venjulega. Þú hafðir að vísu barist meira en hetjulega við bölvaðan krabbann og vildir aldrei gefast upp en fékkst þá von um að komast næstum því heim af sjúkrahúsinu eftir nokkrar vikur. Haldið var upp á afmæli þitt með glæsibrag og þú skeinst eins og sól. Umhyggja þín sýndi það einnig þann dag að þú sást til þess að nóg væri af tertum handa starfsfólkinu sem sýndi þér hina mestu umhyggju og snerist í kringum þig eins og prinsessu sæmir.

Umhyggja þín var alveg ótrúleg gagnvart náunganum, sérstaklega gagnvart fv. tengdaforeldrum þínum sem þú endalaust færðir mat og kökur. Þú varst alveg snillingur í eldhúsinu, garðinum þínum sem þú skreyttir með litlu álfunum, allt vel upplýst á kvöldin já og allt sem þú tókst þér fyrir hendur, ekkert var ómögulegt. Nú vakir þú yfir börnunum þínum tveimur sem sýndu þér ótæmandi ást, Guðbjörgu og Gunnari, sem sjá á bak alveg yndislegri móður og jú litlu álfunum. Ekki má gleyma gullunum þínum hundunum sem þú dýrkaðir og það var alveg yndislegt að sjá að þau gátu smyglað einum til þín upp á sjúkrahús.

Ég sakna „samtalanna“ okkar á kvöldin þar sem þú peppaðir mig, því ég er einnig með krabbamein. Minning þín mun lifa lengi og söknuðurinn er mikill bæði hjá mér og ákaflega mörgum vinum þínum, m.a. „mom og pap“ sem sjá eftir „dóttlu“ sinni, vinum bæði hér í Svíþjóð og heima á Íslandi þar sem þú áttir skara af vinum sem virkilega sýndu það í verki hversu ástsæl þú varst/ert og sjá eftir yndislegri, kátri og glettinni vinkonu þar sem alltaf var stutt í hlátur. Aldrei lognmolla í kringum þig. Hlakka til að hitta þig þegar minn tími kemur. Ég ætla ekki að kveðja heldur segi ég: Við sjáumst aftur elsku vinkona. Sakna þín innilega.

Vilhelmína Ragnarsdóttir Bjarnarson, Trelleborg.