Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir — Morgunblaðið/Ágúst Óliver
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur þungar áhyggjur af fjárhagsstöðu borgarinnar og telur að of miklum fjármunum hafi verið varið í stafrænar lausnir án sýnilegs árangurs. Flokkur fólksins ætlar að bera fram tillögu í…

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur þungar áhyggjur af fjárhagsstöðu borgarinnar og telur að of miklum fjármunum hafi verið varið í stafrænar lausnir án sýnilegs árangurs. Flokkur fólksins ætlar að bera fram tillögu í vikunni um að Stafrænt ráð, sem var stofnað í kjölfar síðustu borgarstjórnarkosninga, verði lagt niður.

Ráðinu var ætlað að „móta stefnu í gegnsæis-, lýðræðis-, stafrænum og þjónustumálum, ásamt innri og samfélagslegri nýsköpun.“ Þá á ráðið einnig að bera ábyrgð á eftirliti með rekstri þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Kolbrún telur verkefni ráðsins hins vegar eiga heima í öðrum ráðum og nefndum.

Leikskólamál á pappír þrátt fyrir stafvæðingu

Borgarfulltrúinn er á því máli að fjárútlát til stafrænna lausna kristalli bresti meirihlutans sem felist í eyðslu um efni fram í gæluverkefni á meðan grunnþjónusta sé virt að vettugi. Í því samhengi nefnir hún að þrátt fyrir að hafa fjárfest ríkulega í stafrænni þróun séu úthlutun og umsóknir um leikskólapláss enn þá að nokkru leyti unnin á pappír.

„Það streymdu á þremur árum tíu milljarðar í þetta og svo bættust við aðrir þrír en maður sér svo engar almennilegar afurðir í hlutfalli við þessar upphæðir,“ segir Kolbrún sem vill sjá meira samstarf við ríkið á vettvangi upplýsingatæknimála.

Með því að verja svo miklu fé í að stafvæða ýmsa hluta rekstrarins á síðustu árum telur Kolbrún að borgarstjórn hafi farið á mis við tækifæri til þess að greiða niður skuldir og tryggja stoðir rekstrarins. Nú þurfi borgarbúar að súpa seyðið af því þegar hart er í ári og þá sé skorið niður í þjónustu.

„Mín tillaga í borgarráði var að borgin kalli eftir aðstoð og fái einhvern óháðan til þess að taka út reksturinn,“ segir Kolbrún sem er á því máli að Framsókn hafi brugðist með því að ganga inn í meirihlutasamstarfið.

Sérðu einhvern mun á þessum meirihluta með Framsókn?

„Nei, nema kannski pínu meiri kurteisi á fundum.“