Aðalbjörg Óskarsdóttir fæddist 25. janúar 1982. Hún lést 18. mars 2023.

Útför hennar fór fram 25. mars 2023.

Ég ligg í sófa á Holtagötu 5 er lítil stúlka vindur sér að mér og ber upp erindi. Röðun orða og orðaval ruglaði mig en beiðninni var fylgt eftir með blíðum augum, eitthvað snerist þetta um pening. Ég greip þá í línu sem ég hafði lært í svona aðstæðum og sagði á móti: „Ég veit ekki hvað þú ert að fara.“ Ekki stóð á svari: „Ég er bara að fara út í búð!“

Á Drangsnesi við Steingrímsfjörð er samfélag sem byggist á gömlum grunni, sjórinn er aðallífsviðurværið auk búskapar með sauðfé í grennd við þorpið. Hver þegn vinnur að sínu og allir eru þátttakendur í að brúa bil kynslóða svo segja má að um eina fjölskyldu sé að ræða sem lætur sér annt um börnin á staðnum en samt svona fyrirhafnarlaust og eðlilegt þar sem fer saman öryggi og frelsi.

Alla var eitt þessara barna, hún fékk gott veganesti út í lífið og vissi alltaf hvert hún var að fara. Fyrir Drangsnes sló hjarta hennar, hún kom til baka eftir nám og fann svo ástina í lífi sínu, Halldór Friðgeirsson, frá sama stað. Þau höfðu góðar fyrirmyndir úr sínu uppeldi, foreldrar beggja lagt mikið til samfélagsins. Þau lágu ekki á liði sínu, Alla tók að sér kennslu í grunnskólanum og meðfram barneignum var hún virk í öllu skemmtanalífi staðarins og reis þar hin rómaða Bryggjuhátíð hæst. Áhugi hennar á íþróttaiðkun ungmenna var mikill, hvort sem ástundun var um sumar eða vetur og átti vel við hana að taka þátt í uppbyggingu skíðaaðstöðunnar í Selárdal þar sem nú er komin góð aðstaða til að halda Íslandsmót í skíðagöngu.

Mikið var gaman að vera boðið til veislu á Drangsnes, alltaf svo vel mætt og móttökur einstakar, t.d. í einni fermingunni á Drangsnesi fóru margir gestir í siglingu með Dóra í kringum Grímsey. Í sumar, 17. júní, hittum við svo fjölskylduna á stórri stund í útskrift Sigurbjargar frá MA, frá þeirri útskrift gekk stolt móðir út er góður vitnisburður um nemanda frá Drangsnesi var gerður kunnur og Sigurbjörg leyst út með gjöf.

En lífið er hverfult, Aðalbjörg er ekki lengur hér á meðal okkar, hún ein veit hvert ferðinni er heitið. Ég á margar góðar minningar um heimsóknir til Öllu eftir að hún veiktist, þar sem tal barst jafnt að fyrirhuguðum veislum í fjölskyldunni og svo þessum mörkum lífs og dauða. Við fórum saman yfir myndir af fjölskyldunni í körfubolta sem tengjast áttu við 100 ára afmæli afa Torfa og þær sælu minningar leystu úr læðingi lindir þeirra fegurstu tára sem ég hef grátið, hversu mikilvægar eru í dag allar þær góðu samverustundir sem fjölskylda og vinir Aðalbjargar hafa átt.

Tíminn sem þér var gefinn hér á Hótel jörð var skammur en þú nýttir hann svo sannarlega vel og leitun er að öðrum eins vinahópi og þeim sem tilheyrir þér.

Kæra fjölskylda Halldór, Sigurbjörg, Guðbjörg, Friðgeir, Óskar og Gógó og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur samúð mína og við sem eftir stöndum getum reynt að skilja betur dýrð himnaríkis. Guð blessi ykkur öll.

Guðbrandur.