Poul Erling Pedersen fæddist 24. október 1939. Hann varð bráðkvaddur 1. apríl 2023.

Útför hans fór fram 14. apríl 2023.

Elsku Palli, „ævarandi“ tengdafaðir minn, er fallinn frá. Það er erfitt að hugsa sér heimsókn á Markarflötina án þess að Palli taki á móti manni. Mín fyrstu kynni af Palla voru einmitt þar fyrir utan þegar ég var að skutla Herberti heim fljótlega eftir að við vorum farin að draga okkur saman. Í prakkaraskap sínum þakkaði hann mér fyrir að skila honum. Ég náði ekki alveg gríninu og varð hálfskelkuð. Ég vissi það ekki þá en lærði fljótt að Palla þurfti ekki að hræðast því hann var einn ljúfasti og hlýjasti maður sem ég hef kynnst. Palli og Mæja urðu mér eins og foreldrar sem alltaf var hægt að leita til. Ég sótti því snemma mikið á Markarflötina. Þegar Herbert var skiptinemi í Bandaríkjunum vandi ég komur mínar alloft til Palla og Mæju. Það var svo gott að vera hjá þeim, við Mæja urðum perluvinkonur og Palli sýndi mér umhyggjusemi sem ég hafði aldrei áður upplifað. Þau sterku bönd hafa aldrei slitnað þrátt fyrir að við Herbert skildum að skiptum.

Palli var einstaklega hjálpsamur og umhyggjusamur. Hann var ætíð fyrstur til að bjóðast til að skutla og sækja á flugvöllinn, hann elskaði að stússa í eldhúsinu og stjana við sitt fólk. Palli var góður afi, hlýr og ástríkur, og barnabörnin nutu þess að eiga hann sem afa. Dætur okkar Herberts, þær Lára Kristín og Andrea Rut, hafa því alla tíð sótt mikið í afa og ömmu og var Lára Kristín svo lánsöm að búa í návist við þau, bæði sem lítið barn og síðar á fullorðinsárum.

Ekki er hægt að minnast góðmennsku og hlýju Palla án þess að nefna ást hans á dýrum. Meiri dýravin en afa Palla er vart hægt að hugsa sér. Dýr hændust að honum enda alltaf velkomin og þeim sýnd sú blíða og nærgætni sem dýr kunna að meta. Palli talaði sérstakt tungumál við hundana. „Nunusta“ var eitthvað sem hann sagði oft þegar hann klappaði voffa. Það hljómaði sem eitthvað ástríkt og fallegt og ég er viss um að voffinn skildi.

Það duldist engum hvað Palli var alla tíð skotinn í Mæju sinni. Hann hvatti hana áfram í list sinni og aðstoðaði við að tengjast glerframleiðendum erlendis. Hann smíðaði ferðakassa fyrir glerið og sá um að hengja upp verkin á sýningunum hennar. Palli var sérlega hand- og verklaginn. Hann byggði húsið þeirra á Markarflötinni og síðar byggði hann Mæju sinni listaskála þar í garðinum.

Palli og Mæja voru samheldnir ferðafélagar og ferðuðust víða um heim. Við Gunnar nutum samveru með þeim í golfferð í Flórída 2017. Palli tók Gunnari mínum vel og myndaðist vinátta þeirra á milli. Ekki er sjálfgefið að fyrrverandi tengdaforeldrar taki nýjum maka svo opnum örmum. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að eiga Palla sem ævarandi tengdaföður og afa barnanna minna. Það er svo sárt að hugsa til þess að hann sé ekki lengur í lífi okkar.

Elsku Mæja, Gíó, Herbert, Hálfdan og barnabörn, ég samhryggist ykkur innilega við ykkar sára missi. Ég kveð Palla með þakklæti í hjarta. Megi hann hvíla í friði.

Erna Reynisdóttir.

Okkar kæri Poul, sem alltaf var kallaður Palli, hefur kvatt þennan heim, en hann varð bráðkvaddur 1. apríl sl. Okkur verður hugsað til þess tíma þegar við vorum að draga okkur saman á menntaskólaárum Ingu, á árunum 1971-73. Palli og Marta María, Maja frænka föðursystir Ingu, voru þá tiltölulega nýflutt í hús sem þau byggðu sér við Markarflöt í Garðabæ og á þeim tíma fóru Hvergerðingar ekki daglega til vinnu eða í skóla til Reykjavíkur svo það varð úr að Inga byggi hjá þeim. Sonurinn Herbert var þá tveggja og hálfs árs þegar Inga bættist við fjölskylduna og þegar hún kynntist Þorgils var honum vel tekið og hann varð þar heimagangur. Yngri sonurinn Hálfdan bætist svo í hópinn 1972.

Palli var ljúfur maður í umgengni, traustur, hæglátur og hvetjandi. Hann hafði gaman af að elda mat, sem var nokkur nýlunda fyrir okkur bæði að eldamennskunni væri líka sinnt af karlmanni heimilisins. Þetta var fyrirboði nýrra tíma og Palli átti ekki langt að sækja þann áhuga þar sem faðir hans, Herbert, var listakokkur. Honum var líka indælt að kynnast sem og konu hans Mattheu.

Palla var annt um að Ingu liði vel hjá þeim og bauð henni að mála herbergi sitt ef henni sýndist svo og benti á að til væri alls kyns málning og sýnishorn sem hún mætti ganga í. Inga tók hann á orðinu og málaði herbergið nokkuð skrautlegt með útþynntri málningu í tveimur sterkum litum en hvíti grunnliturinn fékk að skína í gegn. Engin hnjóðsyrði féllu þótt herbergð væri ekki málað að hefðbundnum hætti, enda Maja og Palli bæði listfeng og opin fyrir tilraunastarfsemi. Einnig fékk Inga að halda menntaskólapartí fyrir árshátíð og þau hjónin voru áhugasöm um að það yrði vel heppnað sem og varð. Í aðdraganda partísins man Inga eftir hlýlegri en alvarlegri áminningu frá Palla að fara samt varlega í skemmtanahaldi.

Tíminn á Markarflötinni var góður, sem gott og gaman er að rifja upp. Við þökkum Páli samfylgdina og sendum innilegar samúðarkveðjur til elsku Maju, Herberts, Hálfdans, Gíós og fjölskyldna þeirra.

Inga og Þorgils.

Palli Ped: „Að veiða er lífið“

Þá hefur einstakur vinur minn, Poul Erling Pedersen, eða „Palli Ped“ eins og við vinirnir kölluðum hann, fengið hvíldina langa eftir viðburðaríka ævi. Ég var 15 ára þegar ég hitti Palla og Mörtu fyrst á heimili þeirra á Markarflötinni. Það tók mig smátíma að kynnast Palla. Hann átti það til að vera svolítið hörkulegur í framan og göngulagið gaf það til kynna að þarna væri kall sem væri hokinn af reynslu og kallaði ekki allt ömmu sína. En bakvið þetta fas leyndist einstaklega ljúfur maður.

Mín fyrstu kynni af skotveiði eru frá Markarflötinni þar sem við áttum það til að stelast í byssuskáp Palla Ped og fá lánaðan 22 cal. riffil. Þá fórum við vinirnir til Krýsuvíkur og skutum á dósir og harðfisk. Eftir því sem tíminn leið þá töluðum við Palli æ meira um skotveiði. Hann gaf mér fyrstu veiðibókina mína sem hét Byssur og skotfimi. Þegar ég náði aldri til að sækja um byssuleyfi var Palli alltaf mér innan handar. Hann hjálpaði mér að kaupa fyrstu haglabyssuna mína og að sjálfsögðu fór hann með mig í fyrsta veiðitúrinn, þá héldum við vinirnir í Krýsuvíkurbjargið til að skjóta máf. Hann hlustaði ekkert á mig þegar ég vísaði í reglugerðina um fuglaveiðar. Ekki batnaði það þegar hann næstum því stökk út úr bílnum án þess að ég hafi náð að stöðva hann til þess að eltast við hóp af lóum. Mikið var ég feginn þegar hann skotin hans geiguðu! En Palli gafst ekki upp og hljóp áfram móann og náði á endanum að hitta einn fugl. Labbaði síðan rígmontinn að bílnum og setti bráðina á húddið. Ég staulaðist út og í höfði mínu hljómaði lagið „Lóan er komin að kveða burt snjóinn ...“ og þá hrökk út úr mér: „Mikið er þetta nú fallegur fugl.“ Palli snöggreiddist og sagði við mig: „Ætlar þú að fara að gráta núna?“

Margar veiðiferðir okkar eru að baki og ég lærði fljótt að Palli hafði ekki mikinn áhuga á því hvenær veiðitímabil byrjuðu eða enduðu, eða hvort fuglar væru friðaðir eða ekki. Eða eins og hann sagði, að það mætti alveg skjóta fugla sem væru ekki útrýmingarhættu. Sem betur fer þá komumst við ekki oft á veiðislóðir þar sem voru friðaðir fuglar héldu sig. Ég lærði mikið af Palla um veiðar og meðferð skotvopna. Þessar ferðir gleymast aldrei, enda var alla tíð hlýtt á milli okkar og stutt í húmorinn.

Ég fór í síðustu veiðiferðina mína með Palla mínum árið 2011 en þá fórum við á svartfuglsveiðar til Patreksfjarðar. Farartækið var VW Transport-bíll sem náði mest 70 km niður brekku en 30 km upp brekku. Skutum ógrynni af svartfugli í stafalogni í mynni Patreksfjarðar.

Það er óneitanlega undarleg tilfinning að geta ekki lengur hitt Palla eða hringt í hann til að ræða um okkar sameiginlega áhugamál. Það er leitun að eins traustum vini og skemmtilegum og hann var. En það voru ekki bara áhugamálin sem rædd voru, hann fylgdist grannt með hvernig fjölskyldunni reiddi af og gladdist yfir öllum sigrum mínum í lífinu. Blessuð sé minning góðs vinar.

Ég vona að það séu engin skotvopn í himnaríki. Fljúgandi englar eru nefnilega ekki í útrýmingarhættu.

Fjölvar Darri Rafnsson.

Við bræður, Gunnar og ég, fæddumst á Víðimel 43. Palli Ped við hliðina, á Víðimel 45. Við Palli vorum fæddir sama árið. Með okkur var ætíð góður vinskapur. Á matmálstímum heyrði maður mömmu hans kalla: „Poul Erling!“ Þannig vissum við hvað Palli Ped hét fullu nafni!

Við elskuðum að fara í bíó. Aldrei var ágreiningur um hvaða mynd ætti að sjá. Jafn háttvís og Palli var þá stjórnaði hann einn hvaða myndir við skyldum sjá.

Eitt sinn bráðvantaði okkur snæri. Þvottasnúrur í garðinum hjá þekktum heildsala í næsta húsi freistuðu. Þýsk vinnukona birtist skyndilega á tröppunum. „Kom mit snúren“ hrópaði hún á eftir okkur. Gunni bróðir var yngstur. Þegar hann heyrði urrið í þeirri þýsku sást að hann var spretthlaupari af Guðs náð!

Palla er hugljúft að minnast. Hann var stór hluti af veröld þeirrar hugljúfu æsku sem við áttum á Melunum.

Ragnar Tómasson.