Straumur Finnar hafa þurft að bíða lengi eftir gangsetningu OL3.
Straumur Finnar hafa þurft að bíða lengi eftir gangsetningu OL3. — AFP/Oliver Morin
Olkiluoto-3 (OL3) kjarnorkuverið var að fullu gangsett um helgina og kemur til með að uppfylla um 14% af raforkuþörf Finnlands. Að sögn Reuters hafa meira en fjórir áratugir liðið frá því Finnland smíðaði síðast kjarnorkuver og er OL3 fyrsta nýja kjarnorkuver Evrópu í 16 ár

Olkiluoto-3 (OL3) kjarnorkuverið var að fullu gangsett um helgina og kemur til með að uppfylla um 14% af raforkuþörf Finnlands. Að sögn Reuters hafa meira en fjórir áratugir liðið frá því Finnland smíðaði síðast kjarnorkuver og er OL3 fyrsta nýja kjarnorkuver Evrópu í 16 ár.

OL3 er staðsett í sveitarfélaginu Eurajoki í fylkinu Satakunta í Suðvestur-Finnlandi, um 200 km norðvestur af Helsinki.

Opnun OL3 er nokkrum árum á eftir áætlun en upphaflega stóð til að gangsetja orkuverið árið 2009. Tæknileg vandamál ollu því að opnun orkuversins tafðist og hófust fyrstu tilraunir með raforkuframleiðslu ekki fyrr en í mars í fyrra. Áfram héldu tæknivandræði og bilanir að plaga starfsemi kjarnorkuversins en vonast hafði verið til að geta gangsett OL3 að fullu um mitt síðasta sumar.

Framleiðir OL3 kjarnorkuverið 1,6 gígavött af raforku en til samanburðar er uppsett afl Fljótsdalsstöðvar 0,69 gígavött.

Finnsk stjórnvöld vænta þess að OL3 muni verða til þess að lækka raforkuverð í landinu úr 70 niður í 60 evrur á megavattstund á þessu ári og niður í 45 evrur árið 2024. ai@mbl.is