Ingunn S. Sigurðardóttir fæddist í Kúfhól, Austur-Landeyjum, 24. september 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 31. mars 2023.

Ingunn átti eina dóttur, Guðríði Sveinbjörnsdóttur, f. 31. október 1954, faðir hennar var Sveinbjörn Vilmar Sigvaldason, f. 7. febrúar 1926, d. 9. mars 1956.

Foreldrar Ingunnar voru Sigurður Þorsteinsson, f. 18. nóvember 1885, d. 30. janúar 1974, og Guðríður Ólafsdóttir, f. 20. september 1896, d. 2. maí 1990. Systkini: Iðunn Ingibjörg, f. 17.9. 1921, d. 1.1. 1989, Þorsteinn, f. 7.6. 1923, d. 29.12. 2012, Ólafur, f. 17.1. 1926, d. 6.4. 2011, Bergþór, f. 24.4. 1928, d. 7.9. 2013, Soffía, f. 8.6. 1932, d. 15.11. 2010, Auður Kristín, f. 6.1. 1935, d. 20.11. 2003, Guðrún Lára, f. 13.6. 1937, og Hjördís, f. 18.11. 1938.

Útför Ingunnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 17. apríl 2023, klukkan 13.

Elsku mamma mín og kletturinn minn kvaddi að kvöldi 31. mars 2023 og lagði af stað í síðasta ferðalagið til sólskinslandsins í faðm foreldra og systkina. Ég er viss um viss um að henni var tekið opnum örmum og einn góðan veðurdag tekur hún á móti mér.

Mikið sakna ég þín elsku hjartað mitt en um leið hugga ég mig við að þér líður betur og þarft ekki að þjást meir og ert frjáls eins og fuglinn. Endalausa ást og virðingu ber ég í hjarta til þín og ylja mér við margar góðar minningar úr ferðalögum og daglega lífinu, þær fara aldrei frá mér og um leið þakklát fyrir hvað ég fékk að vera lengi með þér. Það var mikið oft gaman hjá okkur þegar við vorum að ferðast og prakkarast, þú naust þess að vera með góðu fólki og gleðjast og hafa gaman. Þakka þér fyrir allan stuðninginn, hjálpina og ástina í gegnum lífið, stuðninginn við börnin mín þegar þau voru að vaxa og stækka og vildu hafa ömmu hjá sér. Þú varst ekki eingöngu mamma og amma, þú varst líka okkar besti vinur, við gátum alltaf leitað til þín, þú varst alltaf til staðar fyrir fólkið þitt, tilbúin að hjálpa. Við vorum ekki alltaf sammála, báðar smá þrjóskar og þverar þegar þannig lá á okkur en um leið ævarandi tryggar hvor annarri og bestu vinkonur, ekki bara mæðgur. Með síðustu orðunum sem þú sagðir við mig var „líður þér illa, láttu mig vita ef ég get eitthvað gert fyrir þig“, sjálf varstu orðin mikið veik. Svona varst þú mamma mín, alltaf að hugsa um fólkið þitt.

Elsku mamma, í söknuðinum mun ég læra að njóta og lifa með minningunum þar til við hittumst á ný og sköpum fleiri góðar í sólskinslandinu.

Söknuður sár nú sækir að mér,

Ég sakna þín elsku mamma.

Það eina sem ég á eftir af þér,

Er falleg mynd í ramma.

Í mínum hug og hjarta, þú lifir enn

og hjá mér alltaf þú ert.

En af söknuði sárum, ég innan brenn

og sálartetrið er brotið og bert.

Á minningum mínum, ég lifi nú á

og mikið ég sakna að fá ei þitt hrós,

samt eins og ég skynji hrósið þér frá,

er tendra ég við mynd þína ljós.

Þitt heimili er nú himnum á,

þar himnafaðirinn um þig sér.

Þar mun ég mamma, búa ykkur hjá,

er minni jarðvist líkur hér.

(Heiða Jónsdóttir)

Hittumst síðar elsku mamma,

Guðríður (Gurrý).