Kosið verður um vígslubiskup í Skálholti nú í sumar, í fyrsta sinn síðan þjóðkirkjan var að öllu skilin frá ríkinu. Því fylgja breytingar á kjöri vígslubiskups og starfsumhverfi hans, það er að nú er sá eða sú sem embættinu gegnir kjörinn á sex ára…

Kosið verður um vígslubiskup í Skálholti nú í sumar, í fyrsta sinn síðan þjóðkirkjan var að öllu skilin frá ríkinu. Því fylgja breytingar á kjöri vígslubiskups og starfsumhverfi hans, það er að nú er sá eða sú sem embættinu gegnir kjörinn á sex ára fresti og settur í embættið samkvæmt kjörbréfi kirkjunnar. Áður var kosningin með svipuðu sniði, en forseti Íslands skipaði þá í embættið til fimm ára í senn.

„Þetta er í fyrsta sinn sem hér á Norðurlöndunum er efnt til biskupskjörs með þessu sniði. Í löndunum í kringum okkar þarf ekki kosningar ef sitjandi biskup heldur áfram,“ segir Kristján Björnsson vígslubiskup.

Kjörskrá vegna kosningar vígslubiskups í Skálholtsumdæmi liggur nú frammi. Tilnefningu í embættið lýkur 2. maí en rétt þar hafa þeir sem vígslu hafa hlotið og starfa á Skálholtssvæði þjóðkirkjunnar sem spannar frá Hornafirði og vestur á firði.

Kosning vígslubiskups í Skálholtsumdæmi hefst 7. júní og lýkur 12. dag sama mánaðar. Ef aðeins einn er í kjöri er sjálfkjörið. „Ég leita endurkjörs af heilum hug. Í starfi vígslubiskups hefur margt gerst á síðustu sex árum og margt spennandi er fram undan,“ segir sr. Kristján. Í því sambandi nefnir hann að nú sé endurbótum á Skálholtskirkju að ljúka og minnst verði 60 ára afmælis hennar í sumar. Verkefni á næstunni snúi fremur að innra starfi kirkjunnar svo sem fræðslu og endurmenntun. Þá komi umhverfismál æ sterkar inn í starf og boðskap kirkjunnar. sbs@mbl.is