Borgarbókavörður Látum ekki glepjast þegar kemur að beiðnum um ritskoðun, segir Pálína Magnúsdóttir.
Borgarbókavörður Látum ekki glepjast þegar kemur að beiðnum um ritskoðun, segir Pálína Magnúsdóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fyrir okkur sem störfum við menningu, bækur og upplýsingamiðlun er mikilvægt að standa vörð um lýðræðið og rétt til ótakmarkaðs aðgangs að þekkingu, skoðunum, menningu og upplýsingum. Fólk á jafnan að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir í krafti upplýsinga

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fyrir okkur sem störfum við menningu, bækur og upplýsingamiðlun er mikilvægt að standa vörð um lýðræðið og rétt til ótakmarkaðs aðgangs að þekkingu, skoðunum, menningu og upplýsingum. Fólk á jafnan að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir í krafti upplýsinga. Í því efni hafa bókasöfn mikilvægt hlutverk,“ segir Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður í Reykjavík.

„Nú, þegar manni finnst að popúlismi, fasismi og öfgaöfl vaði uppi er mikilvægt að vera á varðbergi. Láta ekki glepjast þegar kemur að beiðnum um ritskoðun. Stundum fyllist fólk vandlætingu vegna efnis á bókasöfnum. Þá er mikilvægt fyrir okkur sem störfum á söfnunum að láta ekki eigin skoðanir flækjast fyrir. Ég hef verið beðin um að fjarlægja efni úr hillum bókasafna frá þeim sem hugnast ekki skoðanir tiltekinna rithöfunda. Óskað hefur verið eftir því að barnasaga á vef Borgarbókasafnsins væri tekin út vegna skoðana fólks á sögunni. Ég hef líka fengið beiðni um að segja upp dagblaðaáskrift vegna þess að viðkomandi fjölmiðill var sagður stunda sorpblaðamennsku. Í sumum tilfella skildi ég beiðnina en hafnaði óskum um að fjarlægja efni eða segja upp áskrift, svo mikilvægan tel ég rétt fólks til upplýsinga.“

Læsi í víðustu mynd

Borgarbókasafnið Reykjavík verður 100 ára næstkomandi miðvikudag, 19. apríl. Þau tímamót voru haldin hátíðleg um helgina í menningarhúsum safnsins sem eru víða um borg. Ýmsir viðburðir aðrir tengdir afmælinu eru svo áformaðir á næstu mánuðum. Raunar stendur safnið á ári hverju fyrir hundruðum viðburða og fróðleiksstunda sem hafa samfélagslegan boðskap. Slíkt segir Pálína að sé í samræmi við ráðandi kenningar á vettvangi almenningsbókasafna. Stundum sé sagt að slæm söfn leggi áherslu á safnkostinn, góð bókasöfn byggi upp þjónustu en framúrskarandi bókasöfn byggi upp gott samfélag.

„Bókasafnið á að vera samfélagsrými þar sem við deilum sögum, menningu og upplifun,“ segir Pálína. „Gildi Borgarbókasafnsins eru, hvað snýr að notendum, nýsköpun, hlýja, fordómaleysi, jöfnuður. Meðal starfshóps eru gildin hlustun, fagmennska, virðing og jákvæðni. Hlutverk safnsins er svo að skapa tengsl, efla samtal, deila sögum, þekkingu og menningu. Einnig að jafna aðstöðu, aðgengi og tækifæri: efla læsi í sinni víðustu mynd,“ segir Pálína.

Sundlaugar og bækur helstu menningarmiðstöðvar

Hjá Borgarbókasafni gildir að menningarhús safnsins, sem eru sjö talsins, séu samfélagsmiðstöðvar. Fylgst er vel með því hvernig starf safna á Norðurlöndunum þróast, en þar eru lýðræði og nýsköpun lykilatriði.

„Nú er nýtt safn í miðbænum í undirbúningi með endurhönnun á Grófarhúsinu við Tryggavagötu. Í þeirri vinnu verður horft til þess að bókasöfn eru gjörbreytt frá því sem var,“ segir Pálína. Nefnir þar að starfsemi safnsins í Úlfarsárdal sem þar er í anddyri sundlaugar, virki vel. Safnið í Miðdal, eins og byggingin heitir, var opnað fyrir hálfu öðru ári og þar geta notendur afgreitt sig sjálfir um bækur frá því eldsnemma á morgnana og fram á kvöld. Safnfólk er á staðnum milli kl. 10-18.

„Þarna er mikil samvinna milli starfsfólks bókasafns, sundlaugar og Dalskóla. Okkur sýnist líka að íbúar í Úlfarsárdal og í Grafarholti taki safninu vel. Ég hef stundum sagt að tvær helstu menningarstofnanir landsins séu bókasöfn og sundlaugar og því er tilvalið að reka þær í návígi,“ segir Pálína sem á að baki um 40 ára starfsferil á bókasöfnum. Frá þeim langa tíma segist hún ekki minnast annars en þess að jafnan séu til staðar áhyggjur af því að ungt fólk sæki ekki í bækur sem vert sé og þurfi að lesa meira.

Læsi er mikilvægt

„Læsi skiptir öllu máli. Ekki bara læsi á texta, heldur líka á samfélag, tækni og menningu. Í því felst að fólk þarf hæfni til að vega og meta hluti. Einnig ótakmarkað aðgengi að lestrarefni og upplýsingum og tækifæri til að þróast sem manneskja. Bókasöfn eru hlutlaus staður og þröskuldurinn þangað inn er lágur. Hingað eru öll velkomin, alveg sama hvar fólk er statt.“

Á næstunni verður opnað lítið útibú frá Borgarbókasafni í Klébergsskóla á Kjalarnesi, þar sem komið verður fyrir gögnum úr Bókabílnum sem lagt var um síðastliðin áramót eftir langa þjónustu. Þá er horft til þess að í framtíðinni verði bókasafn í stúku Laugardalslaugar, en áformaðar eru miklar framkvæmdir og breytingar við laugina. Sund og safn á sama stað verður í forskrift hönnunarsamkeppni vegna þess verkefnis.

Opin bókasöfn að norrænni fyrirmynd opnuð senn

„Staðsetningin er mjög góð; Laugardalslaugin er miðpunktur í þeim borgarhluta. Þaðan er líka stutt í ýmsa skóla sem er líka mikill kostur. Verið er að reisa Vogabyggð og ég vonast til að á Krossmýrartorgi verði til dæmis bókasafn og samfélagshús. Bókasöfn eru lögbundnar stofnanir sem á að gera ráð fyrir við uppbyggingu nýrra hverfa,“ segir Pálína Magnúsdóttir og að síðustu:

„Nýjasta nýtt í framþróun þessara mála er svo það sem við köllum Opið bókasafn sem verður í Sólheimum og í Kringlunni. Þegar ég segi „opið bókasafn“ þýðir slíkt að hægt að komast utan hefðbundins afgreiðslutíma og án þess að starfsfólk sé í húsi. Notendur skrá sig inn með bókasafnsskírteini og rafrænum skilríkjum og er einfaldlega treyst til að ganga vel um. Geta þá til dæmis snemma morguns og fram á kvöld sótt safnaefni, skilað, lesið og notið. Í Danmörku eru nánast öll bókasöfn komin með slíka opnun og önnur Norðurlönd fylgja fast á eftir. Vonandi getum við tekið opnu söfnin í gagnið á næstu mánuðum. Fyrst í Sólheimum og Kringlu og á næstu misserum koma svo þar inn Grafarvogur og Árbæjarhverfi.“

Hver er hún?

Pálína Magnúsdóttir, fædd árið 1963. Hún er bókasafns- og upplýsingafræðingur að mennt og með meistaragráðu í menningarstjórnun.

Pálína hefur verið borgarbókavörður í Reykjavík frá árinu 2013 og var áður bæjarbókavörður á Seltjarnarnesi í 21 ár. Almenningsbókasöfn hafa átt hug hennar og hjarta frá því að hún kynntist fyrst bókasafni sjö ára gömul.