Hanna Kristín Brynjólfsdóttir fæddist 21. júní 1929. Hún lést 17. mars 2023.

Útför Hönnu Kristínar fór fram í kyrrþey 28. mars 2023.

Elsku Hanna okkar er farin!

„Það er þá fámennt í Himnaríki, ef hún Hanna er ekki þar.“ Þetta varð bróður hennar að orði, þegar fréttin barst okkur!

Hún Hanna átti oft erfiða ævi, sjómannskona með stóran barnahóp. En alltaf var stutt í brosið og grínið.

Hún varð ekkja fyrir 20 árum og bjó eftir það ein í íbúðinni sinni. Það varð fastur liður að líta inn hjá henni þegar við komum í bæinn. Spjall yfir kaffibolla og veitingum, nýjustu lopapeysurnar skoðaðar, en hún var afkastamikill prjónari, hannaði, prjónaði og seldi lopapeysur í mörg ár. Allar svo fallegar og vel gerðar. Svo voru skemmtileg atvik úr ferðalögum rifjuð upp! Alltaf gaman!

En sambandið við Hönnu gaf okkur svo miklu meira. Hún átti lítinn bústað á æskustöðvum sínum í Stóru-Mörk, og þar var hún innan um stóru fjölskylduna sína, og undi sér vel.

Þangað var líka gott að koma, alltaf gos og kaffi og kökur með, spjallað á pallinum og heilsað upp á fólkið hennar!

Hún hafði yndi af ferðalögum, og ferðaðist um alla Evrópu, fyrst með Benna, manninum sínum, og svo með vinkonum. Mörg síðustu árin fóru þær til Benidorm á Spáni. Við hjónin fórum tvisvar með þeim, en síðasta skiptið fórum við mágkonurnar tvær einar saman! Í þeirri ferð gerðist ýmislegt, sem alltaf var hægt að rifja upp og hlæja að. En nú verða minningar okkar saman ekki fleiri, en ennþá verður endalaust hægt að ylja sér við þær, sem við eigum!

Við munum sakna elsku Hönnu okkar, en vitum að hún hefur nú hitt aftur ástvini sína, sem farnir voru á undan. Þökkum allt og sendum fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Úlfar og Rósa, Stóru-Mörk.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Elsku Hanna frænka er farin. Hjá henni áttum við systkinin í Stóru-Mörk alltaf athvarf ef með þurfti. Það gat verið gott fyrir menntskæling ofan af Laugarvatni að vita af skjóli á Selfossi ef svo illa vildi til að maður missti af rútu, það notfærði ég mér oft.

Með Hönnu frænku lærði ég að rata um fiskvinnslu, stelpukjáni ofan úr sveit sem varla þekkti sporð frá ugga, sumarið eftir 10. bekk.

Eftirminnilegastur er samt hláturinn hennar og brosið sem alltaf náði til augnanna.

Þær voru líkar hún og amma, sami húmor og sama gleði yfir öllu sem lífið hafði upp á að bjóða. Hanna sagði líka svo skemmtilega frá öllu og lék þá hvern karakter sem fyrir kom í frásögninni. Hún hafði komið á marga staði og séð margt, að minnsta kosti í augum sveitastelpunnar sem hlustaði andaktug á frásagnirnar. En elsku Hanna þurfti líka að reyna margt, það eru þung spor móður að jarða barnið sitt og seinna manninn sem hún valdi ung að ganga með um lífið.

Og nú er hún með þeim, ég efast ekki um að þeir hafa beðið hennar og að nú ferðast þau aftur saman Hanna og Benni um nýjan heim.

Farðu í friði, ég hlakka til að hitta þig aftur og fá að heyra frásagnirnar af öllu sem þú ert að bardúsa núna.

Ást og söknuður,

Guðlaug Úlfarsdóttir.