Kemst Samfylkingin raunverulega út úr eigin ógöngum?

Rithöfundurinn og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Guðmundur Andri Thorsson, var í skemmtilegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Þar var rætt um skáldskapinn og stjórnmálin sem Guðmundi Andra þótti sér ekki hafa gengið nógu vel að flétta saman þau ár sem hann sat á þingi. Skáldskapurinn gaf eftir fyrir argaþrasinu, sem lýsti sér meðal annars í því að þingmaðurinn fyrrverandi segist hafa staðið í ræðustóli Alþingis og spurt sjálfan sig að því, hvað hann hafi ætlað að segja næst, hver punkturinn hafi verið og um hvað hann væri að tala. Óskandi væri að einhverjir núverandi þingmanna spyrðu sig þessara spurninga af og til.

Þrátt fyrir þetta hefur rithöfundurinn ekki alveg misst áhugann á stjórnmálunum og gæti mögulega hugsað sér að snúa til baka á þann vettvang. Og hann er ánægður með núverandi formann Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur, og áherslur hennar, en sem kunnugt er, þó að hann nefni það ekki, þá stakk hún Evrópusambandsaðildinni ofan í skúffu ásamt þrasinu um „nýju stjórnarskrána“ og hefur flokkurinn notið þess í skoðanakönnunum.

Þingmaðurinn fyrrverandi nefnir sérstaklega þær áherslur sem formaðurinn nýi leggi á heilbrigðismálin og húsnæðismálin, sem hann segir vera stóru málin sem séu í miklum ólestri. Og óhætt er að taka undir að þar er víða pottur brotinn og ákveðnar áherslur hafa valdið mikilli sóun og dregið úr lífskjörum. Það á bæði við um efnahagsleg kjör og til að mynda þau gæði að fá að lifa laus við sársauka. Innan heilbrigðiskerfisins er víða vel unnið, en lengi vel hefur fjandskapur við að auka svigrúm einkaaðila á þeim vettvangi orðið til að dráttur á sjálfsögðum aðgerðum hefur orðið óheyrilegur. Nú hafa verið stigin skref í að leysa úr því og vonandi eru það aðeins fyrstu skrefin í að auka skilvirkni í heilbrigðiskerfinu með aðstoð einkageirans. Ekki væri verra ef það fengist stuðningur frá núverandi og fyrrverandi þingmönnum Samfylkingarinnar í þeim efnum.

Húsnæðismálin eru annað mál og þar þyrfti Samfylkingin að líta meira í eigin barm, ekki síst í Reykjavík. Áherslur flokksins, sem dregið hefur vinstri vagninn í borginni um árabil, og gerir enn þó að nýir meðreiðarsveinar hafi bæst í hópinn, hafa orðið til þess að keyra upp húsnæðisverð og gera fólki erfiðara fyrir um húsnæði. Stefna flokksins hefur verið með ólíkindum einstrengingsleg, þar sem öll áhersla á uppbyggingu er á blokkir á dýrustu „þéttingar“svæðunum næst miðborginni en engin áhersla á uppbyggingu þar sem ódýrast er, hvað þá á annað íbúðaform en fjölbýli.

En vonandi eru orð þingmannsins fyrrverandi til marks um að raunverulegur vilji sé innan Samfylkingarinnar til að breyta um kúrs í ýmsum málum þar sem flokkurinn hefur á liðnum árum farið langt út af sporinu og haldið sig þar af miklum þvergirðingshætti. Því miður eru vísbendingar þar um að vísu fáar og veikburða, enn sem komið er að minnsta kosti.