Árásir Mótor úr rússneskri eldflaug stendur hér upp úr akri í Míkólaív.
Árásir Mótor úr rússneskri eldflaug stendur hér upp úr akri í Míkólaív. — AFP/Sergei Supinsky
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja Úkraínu til 700 milljónir króna í gegnum sjóði Alþjóðabankans. Greint var frá ákvörðuninni á fundi um málefni Úkraínu sem haldinn var í tengslum við vorfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington D.C

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja Úkraínu til 700 milljónir króna í gegnum sjóði Alþjóðabankans. Greint var frá ákvörðuninni á fundi um málefni Úkraínu sem haldinn var í tengslum við vorfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington D.C. á miðvikudag.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að framlagið sé hluti af þeim 1,5 milljörðum króna sem gert sé ráð fyrir í mannúðar- og efnahagsaðstoð við Úkraínu á fjárlögum þessa árs. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir í tilkynningunni að Íslendingar leggi áherslu á að framlög þeirra fari þangað sem þörfin sé mest og á forsendum Úkraínumanna. „Sjóðir Alþjóðabankans munu meðal annars styðja við enduruppbyggingu samfélagslegra innviða í Úkraínu, þar á meðal innviði orkukerfis, samgöngukerfis og heilbrigðiskerfis,“ segir Þórdís Kolbrún í tilkynningunni.

Þá hefur utanríkisráðherra einnig ákveðið að veita 72 milljónum króna til verkefnis á vegum Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) í Úkraínu, sem á að styðja við vinnu stjórnvalda við endurbyggingu rafstöðva og dreifikerfa, svo tryggja megi áframhaldandi aðgang að lífsbjargandi grunnþjónustu á stríðshrjáðum svæðum, einkum í Karkív og nágrenni. Framlagið er hluti af mannúðar- og efnahagsaðstoð Íslands við Úkraínu.