Skalli Víkingurinn og fyrirliðinn Nikolaj Hansen í baráttu við Fylkismanninn Emil Ásmundsson á Víkingsvellinum í Fossvogi í gærkvöldi.
Skalli Víkingurinn og fyrirliðinn Nikolaj Hansen í baráttu við Fylkismanninn Emil Ásmundsson á Víkingsvellinum í Fossvogi í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu sinn fyrsta leik í Bestu deild karla í knattspyrnu í gær þegar liðið heimsótti Val á Hlíðarenda í 2. umferð deildarinnar. Gísli Eyjólfsson kom Breiðabliki yfir strax á 7

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu sinn fyrsta leik í Bestu deild karla í knattspyrnu í gær þegar liðið heimsótti Val á Hlíðarenda í 2. umferð deildarinnar.

Gísli Eyjólfsson kom Breiðabliki yfir strax á 7. mínútu en hann fékk þá boltann við miðjubogann, keyrði í átt að marki og skoraði með hnitmiðuðu skoti við vítateigslínuna eftir að varnarmenn Vals höfðu bakkað allt of mikið frá honum.

Stefán Ingi Sigurðarson innsiglaði svo sigur Breiðabliks í uppbótartíma þegar hann skoraði af stuttu færi fram hjá Frederik Schram í marki Valsmanna eftir frábæra stungusendingu frá Ágústi Orra Þorsteinssyni og lokatölur 2:0 á Hlíðarenda.

Þeir Gísli og Stefán Ingi skoruðu báðir sitt annað mark í tveimur leikjum í deildinni í sumar en þeir voru einnig á skotskónum gegn HK í fyrstu umferðinni á Kópavogsvelli.

Víkingur úr Reykjavík er með fullt hús eftir fyrstu tvo leiki sína en liðið vann öruggan og sannfærandi sigur gegn nýliðum Fylkis á Víkingsvelli í Fossvoginum, 2:0.

Víkingar gerðu svo gott sem út um leikinn á fyrstu fimmtán mínútunum en Birnir Snær Ingason kom þeim yfir strax á 10. mínútu og sænski miðvörðurinn Oliver Ekroth tvöfaldaði forystu bikarmeistaranna með fallegu skallamarki fimm mínútum síðar.

Víkingar eru eina lið deildarinnar sem hefur unnið báða leikina til þessa en þeir lögðu Stjörnuna að velli í Garðabænum í 1. umferðinni.

Þeir Guðmundur Magnússon og Örvar Eggertsson skoruðu báðir sitt annað mark í sumar þegar HK tók á móti Fram í Kórnum í Kópavogi.

Guðmundur kom Frömurum yfir á 54. mínútu en Örvar jafnaði fyrir HK þremur mínútum síðar og 1:1-jafntefli niðurstaðan.

Guðmundur varð næstmarkahæstur í deildinni síðasta sumar með 17 mörk en Örvar hefur aldrei skorað fleiri en eitt mark í efstu deild á einu og sama tímabilinu. Tímabilið 2021 skoraði hann ekki í 20 leikjum með HK og tímabilið 2020 skoraði hann ekki heldur í 15 leikjum með Fjölni. Hann skoraði hins vegar eitt mark með uppeldisfélagi sínu Víkingum sumarið 2019 og sumarið 2018.

KA er ósigrað í öðru sætinu en liðið vann afar sannfærandi sigur gegn ÍBV á KA-vellinum á Akureyri, 3:0.

Ásgeir Sigurgeirsson, Bjarni Aðalsteinsson og Þorri Mar Þórisson skoruðu mörk Akureyringa. Þetta voru fyrstu mörk Ásgeirs og Bjarna í sumar en Þorri hefur skorað í fyrstu tveimur umferðunum, gegn ÍBV og KR.

KR-ingar unnu sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið heimsótti Keflavík á gervigrasvöllinn við Reykjaneshöllina í Keflavík, 2:0.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en Kristinn Jónsson kom KR yfir strax í upphafi síðari hálfleiks og Benoný Breki Andrésson innsiglaði sigur KR-inga með marki á 80. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Þetta var fyrsta mark Benonýs Breka í efstu deild en hann er einungis 17 ára gamall. Kristinn Jónsson hefur hins vegar skorað 16 mörk í 244 leikjum.

Vuk Oskar Dimitrijevic reyndist svo hetja FH þegar liðið tók á móti Stjörnunni á frjálsíþróttavellinum við Kaplakrika í Hafnarfirði.

Leiknum lauk með sigri FH, 1:0, en Vuk skoraði sigurmarkið á 63. mínútu. Þetta var fyrsti sigur Hafnfirðinga á tímabilinu en hann, líkt og margir aðrir markaskorarar í umferðinni, hefur skorað tvö mörk í fyrstu tveimur umferðunum.

Höf.: Bjarni Helgason