Ólafur Stefán Sigurðsson fæddist 23. mars 1932. Hann lést 25. mars 2023.

Útför hans fór fram 14. apríl 2023.

Ég er næstelsta barnabarn ömmu minnar og afa og naut þeirra forréttinda að vera mikið hjá þeim á Hraunbrautinni sem stelpa, unglingur og fullorðin kona. Yngsta systir pabba, Bogga, er sex árum eldri en ég og vorum við frænkurnar oft eins og systur í uppvextinum.

Minningarnar eru svo góðar og söknuðurinn mikill. Það var alltaf svo gaman að koma til afa og ömmu. Sem barn gisti ég oft hjá þeim og oftar en ekki horfðum við á góðar bíómyndir og alltaf var boðið upp á svo góðan mat. Sláturveislurnar hennar ömmu á haustin voru alltaf í miklu uppáhaldi. Í sláturtíðinni fóru alltaf amma og mamma saman og keyptu allt í sláturgerðina og svo var allt eldhúsið hjá ömmu og afa undirlagt í bölum, vömbum og öllu því sem þurfti til að búa til slátur en lyktin var ekki góð, ó nei. Svo í lokin var heljarinnar veisla og margt fólk sem kom í veisluna, Þórður og Auður Eir, mamma og pabbi og við krakkarnir, Siggi og fjölskylda og Bogga og fjölskylda og margir aðrir góðir gestir í mörg, mörg ár og þetta var svo gaman. Auðvitað borðaði ég ekki allt en amma gerði líka besta grjónagraut og skúffuköku í heimi. En það allra besta við sláturveislurnar var að það voru sagðar sögur og hlegið alveg svakalega, það var svo gaman. Bestu jólaboðin voru líka hjá afa og ömmu annan í jólum. Þá hittumst við öll og borðuðum saman besta jólamat í heimi. Amma náði sjaldan að sitja til borðs með okkur því hún var alltaf önnum kafin að hugsa um okkur öll. Afi sagði sögur og fleiri og það sem var hlegið. Við líktum okkur oft við ítalskar fjölskyldur, það voru svo mikil læti og gaman hjá okkur alltaf.

Minningarnar eru svo góðar. Við hittumst svo oft og borðuðum saman hjá afa og ömmu og það voru sagðar svo margar sögur og svo mikið hlegið. Það er mín besta minning að vera uppi á Hraunbraut hjá afa og ömmu, stundum bara ég ein með þeim eða við öll í fjölskyldunni saman, hlátrasköllin og gleðin. Eins gat ég alltaf leitað til þeirra og fengið góð ráð hjá afa við ýmislegt. Afi vissi svo margt og kunni allt. Það var hægt að spyrja hann um allt. Svo elskaði ég að koma í hádegismat til þeirra. Hringdi alltaf á undan mér og það var alltaf sama svarið „komdu“. Oftast fengum við egg og beikon svo heyrðist í afa þar sem hann sat inni í stofu að lesa blöðin og
bækur: „Er þetta María Guðrún?“ svo kom hann og borðaði með okkur, það var yndislegt. Þau voru yndisleg afi Óli og amma Maja og Hraunbrautin þeirra, best í heimi.

Ykkar

María Guðrún Sveinsdóttir.

Það er svo erfitt að kveðja elsku besta afa minn, Ólaf Stefán Sigurðsson, minn besta vin og helstu fyrirmynd og loka þar með ákveðnum kafla í lífi mínu. Afi og amma hafa alla tíð verið stór hluti af lífi okkar systkinanna. Það var ómetanlegt að alast upp undir verndarvæng þeirra á Hraunbrautinni. Það var svo yndislegt að koma til þeirra, heimilið var alltaf hlýlegt, listrænt og fagurt. Að fylgjast með þeim í garðræktinni í garðinum á Hraunbrautinni og ævintýraheimurinn sem kirkjuholtið var fyrir okkur krakkana fyrir ofan húsið þeirra. Minningarnar eru svo margar, dýrmætar og fallegar.

Fyrstu minningarnar mínar af afa og ömmu eru þær að þau voru dugleg að sækja mig í leikskólann og var oft endað í ísbúðinni á Hagamel með ís í brauðformi og gjarnan með tyggjókúlu í botninum. Allar sundferðirnar okkar og þá sérstaklega þegar við fórum í Kópavogslaugina og enduðum á Bettýs. Þar keyptum við tvo ísa, einn fyrir mig og annan fyrir ömmu og afa saman.

Afi var mikill áhugamaður um kvikmyndir og kenndi mér ungri að meta gullmola kvikmyndasögunnar eins og Heidi, Bud&Lou, Chaplin, Stan&Ollie en í mestu uppáhaldi hjá okkur var Mr. Bean. Ég var á þriðja ári þegar ég var farin að hlæja með afa að vitleysunni í Herra Baun, eins og afi vildi kalla hann en ég leiðrétti hann alltaf og sagði Mr. Bean. Enn í dag er Mr. Bean í uppáhaldi hjá mér og ég hugsa alltaf til afa þegar ég horfi á hann.

Ég var alltaf mikið hjá ömmu og afa á Hraunbrautinni og var það alltaf jafn gefandi og gaman. Varla hægt að hugsa sér betri félagsskap. Ég vona að ég geti tileinkað mér eitthvað af kostum ömmu og afa og ekki síst þann júridíska þankagang sem afi var svo góður í.

Það reyndist okkur öllum og sérstaklega afa mjög þungbært þegar amma veiktist og sorgin var mikil og djúp þegar amma dó í febrúar 2013. Hún var okkur mikill harmdauði og syrgði afi konu sína og lífsförunaut mikið en var alla tíð svo duglegur að halda minningu hennar á lofti. Nú er afi og amma sameinuð á ný ásamt syni sínum og móðurbróður mínum, Steina, sem ég fékk aldrei að kynnast, því hann dó svo ungur, eða sjö ára úr hvítblæði.

Ég bið algóðan guð að umvefja afa, ömmu og Steina með ást og kærleika. Takk fyrir allt, þið voruð einfaldlega best.

Ykkar, Júlla.

Anna Kristín Einarsdóttir.

Afi minn, Ólafur Stefán Sigurðsson, og amma mín, María Guðrún Steingrímsdóttir, voru í minningunni eitt þó ólík væru. Hann var reykvískur „götustrákur“ eins og hann kallaði sig stundum eða „101 boy“ og hún hæfileikaríka Dalamærin. Saman voru þau einstök blanda af dugnaði, þrautseigju, heiðarleika og glaðværð.

Heimilið þeirra, Hraunbrautin besta, stóð okkur öllum alltaf opið og var alltaf ólæst. Það var alltaf mikill gestagangur og fór ég þangað næstum alla daga eftir skóla því þar var best að vera. Þá hringdi ég í afa og bað hann um að ná í mig. Við stoppuðum oftar en ekki í bakaríi á leiðinni og keyptum marsípanstykki og drukkum öll kaffi saman áður en haldið var í sund.

Við afi vorum mjög náin enda mjög lík. Og það tók mig smá tíma að samþykkja sérvisku hans varðandi nafnagiftir, en hann bjó til nöfn á okkur barnabörnin sem aðeins hann og amma kölluðu okkur. Ég fékk nafnið Stína og Kristín Lafranz þegar ég var óþekk eða við hátíðartilefni.

Í minningunni koma fyrst upp í hugann öll fjölskyldumatarboðin. Þar var afi fremstur í flokki að segja sögur og deila ýmsum fróðleik og svo var hlegið út í eitt, það var alltaf svo gaman. Svo öll ferðalögin til ömmu og afa í Búðardal, á berjamó á haustin, París þar sem við afi stoppuðum í hverju bakaríi og keyptum okkur hindberjatart eða í Boston þar sem afi gaf mér galakjól fyrir fiðluballið sem hann sjálfur fór á sem ungur maður.

Sjálf er ég alin upp í Vesturbænum og er mikill KR-ingur. En ég áttaði mig fljótt á því að mitt stórveldi í lífinu voru afi minn og amma. Ég og við öll í fjölskyldunni erum ævarandi þakklát fyrir allt sem þau voru og eru í huga okkar. Þau elskuðu okkur öll börnin sín og niðja svo heitt að það brakaði í og sú ást var svo sannarlega endurgoldin. Það var svo ómetanlegt að maður gat alltaf leitað til afa með hvað sem var og hann gat alltaf hjálpað, leiðbeint og gefið góð ráð. Hann var alltaf sá fyrsti sem ég og við öll leituðum til en hann vissi allt og við grínuðumst oft með það að það væri bókstaflega ekkert sem afi vissi ekki. Ég vona að ég eigi eftir að tileinka mér eitthvað af þeim góðu mannkostum sem afi minn bjó yfir.

Það sem ég á eftir að sakna mest er að sitja inni í eldhúsinu á Hraunbrautinni, drekka afakaffi og borða góða matinn hennar ömmu, spila Marías og spjalla við þau um lífið og tilveruna. Þó að sorgin sé óbærileg er ákveðin huggun í því að vita að afi og amma séu sameinuð hjá Steina sínum.

Ykkar Stína.

Lilja María.

Óli frændi. Hann var bróðir hans pabba.

Þeir voru ekki líkir bræður en þó mjög samrýndir. Hér fyrir mörgum árum, þegar þeir voru ungir menn með lítil börn, fóru þeir saman í bíó á fimmtudögum, eða þannig er það í minni minningu. Annar keypti miðana, hinn poppið. Ég held að ómögulegt sé að úr mörgum myndum hafi verið að velja; þeir hefðu átt erfitt með að koma sér saman um hvaða mynd verðskuldaði tíma þeirra það kvöld. Þeir rökræddu og þráttuðu um frammistöðu leikaranna, hvort Newsweek eða Time væri betra tímarit, hvort stefnuræða forsætisráðherra hefði það árið verið ein sú besta eða til skammar. Í fjölskylduboðum var ævinlega talað um pólitík, og það var skemmtilegt og fræðandi fyrir unga stúlku að hlýða á þær samræður.

Þeir Óli og pabbi voru báðir góðir sjálfstæðismenn en þó iðulega á öndverðum meiði um hvort flokkurinn væri á réttri leið.

Um svipað leyti fluttu fjölskyldurnar báðar úr Reykjavík í Kópavog, sem þá var að breytast úr sveit í bæ. Óli og fjölskylda bjuggu á Hraunbrautinni í holtinu og aðeins fáein hús skildu heimilin að. Stutt var á milli til að skreppa í heimsókn til Óla og Maju, en síminn þó einnig nýttur til skoðanaskipta.

Óli frændi var í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sparisjóðsstjóri, sýslumaður og sjálfsagt margt fleira. Ekki kann ég skil á störfum hans þar.

Fyrir mér var hann mikið snyrtimenni og vandvirkur, fór í sund og hugsaði um heilsuna, ræktaði úti í garði í tómstundum og var stoltur af því að hafa komið brokkólí til. Græni liturinn fór vel við steinana í holtinu. „Þetta er víst meinhollt,“ sagði hann, „Bandaríkjaforseta ku þykja það afar gott.“

Litla herbergið inni á ganginum rúmaði okkur furðu mörg þegar horft var á sjaldséða þætti á Kananum - við höfðum ekki aðgang að honum heima - og í bónus fengum við skýringar Óla á leikurum, í hvaða myndum þeir hefðu leikið áður og hversu margar stjörnur þær hefðu fengið samkvæmt kvikmyndabókinni.

Síðustu árin var Óli þungur sjúklingur, eins og hann útskýrði sjálfur fyrir okkur; hann gat ekki lengur gengið og varð að flytja úr húsinu sínu með háu tröppunum.

Það var þjóðráð hjá nokkrum úr næstu kynslóð að skipuleggja samfundi afkomenda systkinanna þriggja, Óla, pabba og Bibbu. Síðast var hist á Sóltúni, þar sem Óli dvaldi undanfarin þrjú ár. Óli rifjaði upp minningar úr uppvextinum á Vitastígnum, sagði frá fólkinu þar, ömmu Gústömmu og fleirum.

Á fundinum þar áður, þar var ég ekki en hef heyrt sagt frá, sat hann á milli systkina sinna, tók hendur þeirra í sínar og sagði: „Ég þakka ykkur fyrir allt.“ Það finnst mér lýsa honum vel.

Blessuð sé minning hans.

Dalla Þórðardóttir.