32 Erling Haaland er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni.
32 Erling Haaland er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni. — AFP/Oli Scarff
Arsenal missteig sig á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar liðið heimsótti West Ham í Lundúnum í gær. Leiknum lauk með jafntefli, 2:2, en Gabriel Jesus kom Arsenal yfir strax á 7. mínútu áður en Martin Ödegaard bætti öðru marki við þremur mínútum síðar

Arsenal missteig sig á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar liðið heimsótti West Ham í Lundúnum í gær.

Leiknum lauk með jafntefli, 2:2, en Gabriel Jesus kom Arsenal yfir strax á 7. mínútu áður en Martin Ödegaard bætti öðru marki við þremur mínútum síðar.

Said Benrahama minnkaði muninn fyrir West Ham á 33. mínútu og Bukayo Saka fékk tækifæri til þess að koma Arsenal tveimur mörkum yfir á nýjan leik á 52. mínútu en skot hans úr vítaspyrnu fór fram hjá.

Tveimur mínútum síðar jafnaði Jarrod Bowen svo metin fyrir West Ham og þar við sat.

Arsenal, sem var um tíma með 7 stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar, er nú með fjögurra stiga forskot á City sem á leik til góða á Arsenal og þá eiga liðin eftir að mætast innbyrðis í Manchester hinn 26. apríl.

Manchester City er á miklu skriði en liðið vann öruggan sigur gegn Leicester, 3:1, í Manchester á laugardaginn þar sem Erling Haaland skoraði tvívegis fyrir City og John Stones var einnig á skotskónum fyrir Englandsmeistarana.

City hefur nú unnið sex leiki í röð í deildinni og þá hefur liðið fengið 25 stig af 27 stigum mögulegum frá 12. febrúar.

Það virðist heldur ekkert geta stöðvað framherjann Erling Haaland sem er langmarkahæstur í deildinni með 32 mörk í 28 leikjum en Norðmaðurinn hefur nú skorað 47 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni.