Vestfirðir Íbúatalan í Bolungarvík er nú komin aftur í fjóra stafi.
Vestfirðir Íbúatalan í Bolungarvík er nú komin aftur í fjóra stafi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Bolvíkingar eru orðnir 1.000 talsins. Þetta gerðist síðastliðinn fimmtudag þegar þeim Gunnari Samúelssyni og Rúnu Kristinsdóttur, sem búa í Bolungarvík, fæddist dóttir. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hefur þess lengi verið beðið í bænum að íbúatalan nái fjögurra stafa tölu

Bolvíkingar eru orðnir 1.000 talsins. Þetta gerðist síðastliðinn fimmtudag þegar þeim Gunnari Samúelssyni og Rúnu Kristinsdóttur, sem búa í Bolungarvík, fæddist dóttir. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hefur þess lengi verið beðið í bænum að íbúatalan nái fjögurra stafa tölu. Þann 1. desember 2021 voru bæjarbúar 955 og í janúar síðastliðnum 997. Og nú er talan komin í 1.000 sem er 4,5% fjölgun íbúa á fimmtán mánuðum.

„Þessi viðburður markar tímamót fyrir sveitarfélagið,“ segir bæjarráð Bolungarvíkur sem bókaði sérstaklega um barnsfæðinguna á fundi sínum fyrir helgina. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri færði foreldrunum gjöf á laugardaginn og ætlar að heimsækja þau og barnið nú í vikunni.

„Hér eru allar forsendur fyrir frekari fjölgun íbúa,“ segir Jón Páll í samtali við Morgunblaðið. „Staðan í sjávarútvegi er góð og fiskeldið er orðin sterk stoð í atvinnulífi hér. Ýmsir innviðir í bæjarfélaginu hafa verið bættir og efldir á síðustu árum og nú þarf að gera betur í byggingu á nýju íbúðarhúsnæði. Núna erum við að ljúka við skipulag á Lundahverfi, þar sem verða íbúðarhús. Svona heldur þróunin áfram og núna er því tímabært að setja ný markmið um enn fleiri íbúa og enn sterkara samfélag. Við erum bjartsýn.“

Um 1990 voru íbúar í Bolungarvík um 1.200. Bakslag í atvinnulífi sem kom ekki löngu síðar leiddi af sér fólksfækkun. Árið 2008 voru bæjarbúar tæplega 900 en síðan hefur þróunin verið upp á við. sbs@mbl.is