6 Guðmundur Bragi Ástþórsson var öflugur á Hlíðarenda í gær.
6 Guðmundur Bragi Ástþórsson var öflugur á Hlíðarenda í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur hjá Haukum þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann Íslandsmeistara Vals í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik á Hlíðarenda í gær

Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur hjá Haukum þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann Íslandsmeistara Vals í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik á Hlíðarenda í gær. Leiknum lauk með tveggja marka sigri Hauka, 24:22, en Guðmundur Bragi skoraði 6 mörk í leiknum. Andri Már Rúnarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Hauka en Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í marki Vals og varði 14 skot. Næsti leikur liðanna fer fram á Ásvöllum, miðvikudaginn 19. apríl, en vinna þarf tvo leiki í 8-liða úrslitunum til þess að tryggja sig áfram í undanúrslitin.

Þá fór Þorsteinn Leó Gunnarsson á kostum fyrir Aftureldingu þegar liðið vann nauman þriggja marka sigur gegn Fram, 33:30, eftir framlengdan leik í Úlfarsárdal. Þorsteinn Leó skoraði 9 mörk en Breki Hrafn Árnason átti stórleik í markinu og varði 18 skot, þar af tvö vítaskot. Annar leikur liðanna fer fram í Mosfellsbæ á miðvikudaginn.

Einar Bragi Aðalsteinsson var markahæstur hjá FH með 6 mörk þegar liðið vann eins marks sigur gegn Selfossi í Kaplakrika á laugardaginn, 30:29. Einar Sverrisson skoraði 8 mörk fyrir Selfoss en næsti leikur liðanna fer fram á Selfossi á morgun, þriðjudag.

Þá skoruðu þeir Kári Kristjánsson og Rúnar Kárason 8 mörk hvor fyrir ÍBV þegar liðið vann Stjörnuna í Vestmannaeyjum, 37:33. Starri Friðriksson skoraði 9 mörk fyrir Stjörnuna en annar leikur liðanna fer fram í Garðabænum á morgun.