Sigurhanna Erna Gísladóttir fæddist 18. mars 1941 á Fæðingarheimilinu við Rauðarárstíg. Hún lést á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni 2 3. apríl 2023.

Hún var dóttir hjónana Gísla Gunnars Björnssonar, vörubílstjóra, f. 26.12. 1917, d. 26.12. 2003, og Ólafíu Símoníu Sigrúnar, herrafataklæðskera, f. 16.7. 1917, d. 12.10. 2012. Sigurhanna var þriðja elst fimm systkina.

Sigurhanna giiftist Baldri H. Oddssyni, f. 10.7. 1936. Hann er sonur hjónanna Odds H. Björnssonar bifreiðastjóra, f. 9.12. 1908, d. 14.1. 2004, og Sigríðar Oddsdóttur, húsfreyju, f. 2.11. 1915, d. 8.10. 2013.

Sigurhanna átti fjóra bræður, þá Jóhann G. Jóhannson, f 17.6. 1937, d. 6.4. 2010, Björn H. Gíslason, f. 17.11. 1939, d. 24.3. 2004, Einar J. Gíslason, f. 24.12. 1945, og Halldór Gíslason, f. 26.7. 1951.

Sigurhönnu varð fjögurra barna auðið. Elstur var Gísli Gunnar Sveinbjörnsson, f. 26.8. 1958. Hann eignaðist þrjú börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Bergmann, f. 2.8. 1958. Elstur er Ingi Örn Gíslason, f. 16.11. 1979. Sambýlis­kona hans er Emelía Björg Óskarsdóttir. Næst er Berglind Gísladóttir, f. 11.1. 1985. Yngstur af börnum Gísla er Birgir Gíslason, f. 23.7. 1992. Sambýliskona Gísla í dag er Guðríður Guðmundsdóttir, f. 15.1. 1960. Næstur er Björn Þór Baldursson, f. 2.10. 1960, og einkadóttir Sigurhönnu er Berglind Baldursdóttir, f. 2.5. 1964. Yngstur er Baldur Oddur Baldursson, f. 11.6. 1967. Kona hans er Margrét Hilmisdóttir, f. 21.6. 1963. Saman eiga þau tvær dætur, Selmu Björk Baldursóttir, f. 8.8. 2000, og Snædísi Baldursdóttir, f. 8.12. 2004. Fyrir átti Baldur eina dóttur, Hönnu Rose Baldursdóttur, f. 3.2. 1993, móðir hennar var Karimah Sunkett.

Sigurhanna bjó fyrstu mánuði ævi sinnar á Bergþórugötu 14. Þaðan flutti hún á Rauðarárstíg 20 og bjó þar til sex ára aldurs. Sigurhanna flutti með foreldrum sínum á Laugaveg 57 og þar hóf hún skólagöngu sína í Austurbæjarskóla, sjö ára að aldri., þá orðin fluglæs eftir að hafa hlustað á mömmu sína reyna að kenna eldri bróðir sínum að lesa. Eftir að hafa flutt nokkrum sinnum, flutti hún á Barónsstíg 12 og hóf skólagöngu í Lindargötuskóla.

Sigurhanna hóf störf í matvöruverslun Jónasar Bergmann aðeins 11 ára og vann þar í tvö ár. Þaðan fór hún yfir til Silla og Valda en eftir stutta viðkomu þar hóf hún störf í Gardínuversluninni og vann þar lengi. Sigurhanna fór í Menntaskólann á Laugavatni 15 ára og undi sér vel þar. Hún varð barnshafandi 16 ára og eignaðist sitt fyrsta barn, Gísla, 17 ára. Hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum 17 ára en þau opinberuðu trúlofun sína 1959. Þau gengu síðan í hjónaband ári seinna og stuttu síðar eignaðist hún sitt annað barn. Þeirra fyrsta heimili var að Kjartansgötu 5. Hanna og Baldur skildu árið 2001 og þá flutti Sigurhanna á Háaleitisbraut 51 en þar bjó hún til dauðadags. Sigurhanna vann á seinni árum við ýmis verslunarstörf, meðal annars í Máli og menningu og Búsáhöldum og gjafavörum.

Jarðsungið verður frá Lindakirkju í dag, 17. apríl 2023, klukkan 13.

Þegar við systur fregnuðum andlát Sigurhönnu tóku minningarnar að streyma til okkar. Minningar um konu sem var ein af bestu vinkonum móður okkar, Guðlaugar Ragnarsdóttur eða Lullu, eins og Sigurhanna kallaði hana alltaf. Vinátta þeirra var að okkar mati einstök. Við fundum vel hversu mikil væntumþykja var á milli þeirra og hversu stóran sess þær skipuðu í lífi hvor annarrar. Þær höfðu kynnst á sínum bernskuárum og smullu strax saman þrátt fyrir hversu ólíkir persónuleikar þær voru. Kannski má segja að það hafi verið það sem dró þær hvor að annarri. Þær bættu nefnilega svo vel hvor aðra upp. Þær gerðu allt saman. Sungu í barnakór Hallgrímskirkju, gengu í sunnudagaskóla hjá þeim Margréti og Maríu og sóttu fundi hjá KFUK. Síðar tóku þær einnig þátt í barnakór Sólskinsdeildarinnar.
Þessi einstaka og fallega bernskuvinátta hélst allar götur. Sambandið var mismikið eftir aðstæðum hverju sinni og á tímabili bjó mamma ásamt okkur fjölskyldunni erlendis. Þær fylgdust þó jafnan vel hvor með annarri og heyrðust reglulega. Eftir dvölina erlendis endurtók tími bernskuáranna sig þar sem þær fluttu í sama hverfi með fjölskyldur sínar. Þá endurnýjuðu þær vináttu sína sem aldrei fyrr.
Við systurnar minnumst tímanna í Brekkkugerði með Sigurhönnu, þar sem hún kom í heimsókn með sínum einstaka hressileika og krafti. Hlátursköstin sem þær gátu farið í voru þess eðlis að öll sem í kringum þær voru smituðust af gleðinni. Sigurhanna reyndist mömmu einstaklega vel á erfiðum tímum í lífi hennar og gat alltaf haft góð og uppbyggileg áhrif á vinkonu sína. Við vitum reyndar að það var gagnkvæmt. Þær stóðu saman í gegnum súrt og sætt.

Okkur fannst einnig dásamlegt að koma á heimili Sigurhönnu, allt svo smart, huggulegt og fínt og tekið var á móti okkur eins og við værum merkilegustu manneskjur í heimi. Þannig var Sigurhanna. Hlýja hennar, gleði, hlátur og bros gerði það að verkum að okkur leið svo vel í návist hennar.

Árið 1999, í aðdraganda andláts mömmu, var Sigurhanna ákveðinn klettur í lífi okkar. Á hverjum degi kom hún í heimsókn til vinkonu sinnar og hafði meðferðis lifandi blóm sem hún setti í vasa sem stóð á náttborðinu við rúm mömmu og faðmaði hana að sér. Sigurhanna mín sagði mamma á meðan hún gat en hún kallaði hana aldrei annað en þessu fallega nafni þó þau væru mörg sem notuðu einungis Hönnu-nafnið. Sigurhanna var síðan ein af þeim konum sem mamma valdi til að fara með sig síðasta spölinn eftir andlát sitt.

Eftir því sem við hugsum meira um liðna tíð sjáum við enn betur hversu falleg og sterk vinátta þeirra vinkvenna var. Þær voru ætíð til staðar hvor fyrir aðra, þekktu bæði veikleika og styrkleika sína og áttu svo auðvelt með að stappa stálinu hvor í aðra. Þær glöddust saman á góðu stundunum sem voru sem betur fer ótal margar en einnig kunnu þær að syrgja saman og bakka hvor aðra upp á tímum erfiðleika og áfalla.

Við erum óendanlega þakklátar fyrir vináttu mömmu og Sigurhönnu. Á þessari kveðjustundu viljum við í minningu mömmu þakka Sigurhönnu af hjarta fyrir allt það sem hún var henni og okkur. Það er ekki sjálfsagt að bernskuvinátta haldist ævina á enda en það gerði hún í tilfelli þeirra. Líf okkar og mömmu var ríkara og skemmtilegra með Sigurhönnu sem hluta af því.

Elsku Sigurhanna, takk fyrir að vera þú, alltaf sjálfri þér samkvæm, hreinskiptin, hlý, uppörvandi og einstakur gleðigjafi. Takk fyrir að vera vinkonu mömmu, fyrir að standa þétt við bakið á henni þegar á þurfti að halda en um leið allt glensið, gamanið og dillandi hlátur.

Kæru Gísli, Björn, Begga, Baldur og fjölskyldur. Við færum ykkur einlægar samúðarkveðjur við andlát yndislegrar móður, tengdamóður, ömmu og langömmu. Guð blessi minningu hennar. Vonandi eru þær vinkonur nú sameinaðar á ný þar sem þær njóta þess að hlæja saman.

Með innilegri kveðju,
ykkar


Guðlaug Helga, Steinunn, Ragnhildur og fjölskyldur.