Wilson Skipið varð fyrir skemmdum en olíuleki var ekki sýnilegur í gær.
Wilson Skipið varð fyrir skemmdum en olíuleki var ekki sýnilegur í gær. — Ljósmynd/Harpa Dögg Halldórsdóttir
Norska stórflutningaskipið, Wilson Skaw, strandaði við Ennishöfða á Húnaflóa á leið sinni frá Hvammstanga til Hólmavíkur um miðjan dag í gær. Tæp 200 tonn af gasolíu eru í tönkum skipsins. Garðar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Nesskipa, þjónustuaðila…

Norska stórflutningaskipið, Wilson Skaw, strandaði við Ennishöfða á Húnaflóa á leið sinni frá Hvammstanga til Hólmavíkur um miðjan dag í gær. Tæp 200 tonn af gasolíu eru í tönkum skipsins. Garðar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Nesskipa, þjónustuaðila skipsins hér á landi, sagði að skipið hefði orðið fyrir skemmdum og að sjór hefði flætt inn í jafnvægistanka þess.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang sem og varðskipið Freyja ásamt björgunarskipi frá Landsbjörgu. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði kafara hafa skoðað botn skipsins í gær og að til stæði að leggja mengunarvarnargirðingu umhverfis það í gærkvöld eða í nótt. Hann sagði að í fyrsta lagi yrði farið í beinar björgunaraðgerðir í dag enda væri veðurfar hagstætt. Skipverjar eru í góðu yfirlæti að sögn Ásgeirs en engin meiðsl urðu á fólki þegar skipið strandaði. Wilson Shipowning AS, skipafélagið í Bergen, stendur að hinu strandaða stórflutningaskipi en um er að ræða sama félag og stóð að skipinu Wilson Muga, sem strandaði úti fyrir Sandgerði árið 2006. oap@mbl.is