Varnir Katrín Jakobsdóttir fyrir svörum í Ráðherrabústaðnum í gær.
Varnir Katrín Jakobsdóttir fyrir svörum í Ráðherrabústaðnum í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Morgunblaðið ræddi við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær og spurði hvaða aðdraganda ákvörðun um þjónustu við kafbáta Bandaríkjaflota ætti. „Vegna aðstæðna í álfunni er aukin umferð ýmissa sjófara á hafsvæðinu í kringum landið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Morgunblaðið ræddi við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær og spurði hvaða aðdraganda ákvörðun um þjónustu við kafbáta Bandaríkjaflota ætti.

„Vegna aðstæðna í álfunni er aukin umferð ýmissa sjófara á hafsvæðinu í kringum landið. Þessi tilkynning [utanríkisráðherra] á sér þann aðdraganda og þess vegna barst þessi ósk. Það sparar mikinn siglingatíma að geta haft viðkomu hér.“

En hvað hefur breyst? Hafa herskip bandalagsríkja ekki alltaf getað komið?

„Í sjálfu sér eru þessi skip að sigla í efnahagslögsögunni án þess að við fylgjumst sérstaklega með því. Það er ekkert í landslögum sem bannar sjóför með tilteknum orkugjafa. En til þess að koma að landi þurfa þau sérstaka heimild utanríkisráðherra. Þau munu raunar ekki sigla til hafnar heldur fá þjónustu um 10 kílómetra út af Helguvík, taka vistir og hafa möguleika á skiptum í áhöfn.“

Nú segir utanríkisráðherra að skipin verði án kjarnorkuvopna. Bandaríkjafloti gefur aldrei neitt slíkt upp, svo hvað hafa menn fyrir sér um það?

„Við höfum haldið því til haga að íslenskt land og landhelgi séu friðlýst fyrir kjarnavopnum. Um það eru bæði Bandaríkin og aðrar bandalagsþjóðir okkar sér mjög vel meðvitaðar og þessir bátar bera að jafnaði ekki kjarnorkuvopn, þó þeir séu kjarnorkuknúnir. Við fáum þau skilaboð mjög skýr að stjórnvöld vestanhafs virði okkar afstöðu.“

Á von á umræðu um málið í Vg

Vinstri græn eru andvíg aðild að NATO og gegn hvers kyns hernaðarumsvifum. Varla hafið þið tekið þessari bón fagnandi?

„Málið er vel undirbúið af utanríkisráðherra og í miklu samráði við mig. Það rímar við það sem áður hefur verið sagt, að við stöndum við skuldbindingar þjóðaröryggisstefnunnar, þar sem kveðið er á um þetta varnarsamstarf.

En ég á að sjálfsögðu von á því að þetta verði rætt í hreyfingunni og við leggjum eftir sem áður áherslu á að Norðurslóðir verði lágspennusvæði og að allri vígvæðingu verði haldið í lágmarki. Sú afstaða hefur ekki breyst en við vitum það líka að þessir kafbátar eru á ferðinni hér í hafinu og með þeim þarf að hafa eftirlit.“

Bandaríkjamenn lýstu fyrir nokkrum misserum áhuga á frekari varnarviðbúnaði hér á landi, en þá tóku Vinstri græn því fremur þurrlega…

„Það hefur ekki breyst.“

Hefur Úkraínustríðið breytt einhverju um afstöðu ykkar?

„Ég tel það nú ekki vera. Þetta snýst um frekari varnarþátttöku í samræmi við okkar skuldbindingar og við stöndum við þær.“