Ragnar Einarsson segir að markmið Landsbankans sé að breikka þjónustuframboð bankans og vera fær um að veita núverandi og nýjum viðskiptavinum heildarfjármálaþjónustu á einum stað.
Ragnar Einarsson segir að markmið Landsbankans sé að breikka þjónustuframboð bankans og vera fær um að veita núverandi og nýjum viðskiptavinum heildarfjármálaþjónustu á einum stað. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Landsbankinn tilkynnti nýlega um nýja færsluhirðingarþjónustu. Er bankinn því orðinn einn þriggja aðila sem veitir færsluhirðingu hér á landi ásamt Rapyd og Salt Pay sem áður hétu Valitor og Borgun og voru í eigu Arion banka og Íslandsbanka.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Landsbankinn tilkynnti nýlega um nýja færsluhirðingarþjónustu. Er bankinn því orðinn einn þriggja aðila sem veitir færsluhirðingu hér á landi ásamt Rapyd og Salt Pay sem áður hétu Valitor og Borgun og voru í eigu Arion banka og Íslandsbanka.

Arion seldi Valitor í heild sinni árið 2021 og Íslandsbanki seldi 63,5% hlut sinn í Borgun árið 2020.

Færsluhirðar miðla fjármunum frá korthöfum Visa og Mastercard til seljenda, ýmist í gegnum posa eða á netinu, eins og Ragnar Einarsson, forstöðumaður færsluhirðingar hjá Landsbankanum, útskýrir í samtali við ViðskiptaMoggann.

Í öfuga átt

Hann segir að á sama tíma og hinir stóru viðskiptabankarnir hafi selt frá sér þjónustuna fari Landsbankinn í öfuga átt. „Við höfum aflað okkur sérleyfis hjá VISA og Mastercard til að starfa sem færsluhirðir. Það er mikill kostur þar sem kerfið verður ekki háð öðrum fjármálastofnunum. Við leggjum áherslu á þá sérstöðu að vera íslenskt fyrirtæki að þjónusta þarfir íslenska markaðarins. Báðir hinir aðilarnir miða viðskipti sín við alþjóðamarkaði. Ísland er aðeins einn hluti þeirra starfsemi.“

Ragnar segir að markmið Landsbankans sé að breikka þjónustuframboð bankans og vera fær um að veita núverandi og nýjum viðskiptavinum heildarfjármálaþjónustu á einum stað.

Við uppbyggingu þjónustunnar er stuðst við innviði bankans og þá þekkingu sem býr innan hans að sögn Ragnars. Þar nefnir Ragnar þekkingu starfsmanna bankans á fjármálamarkaði almennt, greiðslumiðlun, regluvörslu og áhættustýringu m.a.

Hann segir að færsluhirðing Landsbankans geti þar af leiðandi haft hóflegan starfsmannafjölda og haldið kostnaði í lágmarki. „Með því að nýta innviði bankans erum við að gera þetta að hagkvæmum rekstri og fýsilegum kosti fyrir okkar viðskiptavini án þess að gefa neinn afslátt af gæðum.“

Góðar móttökur

Spurður um móttökur segir Ragnar þær góðar. „Að geta boðið upp á alla þjónustu á einum stað hefur vakið mikla lukku – yfirsýn yfir alla fjármálaþjónustu á einum stað skiptir sköpum. Þá erum við einnig að fá góð viðbrögð varðandi virkni frá þeim sem þegar hafa tekið upp lausnirnar okkar; þær eru einfaldar í rekstri og aukin sjálfvirkni einfaldar líf söluaðila. Lausnin er tæknilega aðgengileg með forsmíðuðum þróunarsettum sem gerir það að verkum að hægt er að tengjast greiðslulausnum bankans á einfaldan hátt.“

Ragnar segir Landsbankann hafa keypt sérhæfð tölvukerfi af nýjustu tegund til að geta veitt þjónustuna. „Það gefur okkur aukið hagræði.“

Samþættir net og posa

Spurður um nýjungar segir Ragnar að lausn Landsbankans samþætti til dæmis net- og posaviðskipti sem getur einfaldað greiðsluferli hjá seljendum, sama hvaðan greiðslan kemur. Það komi bæði seljendum og korthöfum til góða. „Allar sölurásir, hvort sem viðskiptin koma í gegnum posa, net eða símgreiðslur, eru nýttar með skemmtilegum hætti.“
Ragnar nefnir að korthafi geti til dæmis með þessari samþættingu skráð sig í áskrift fyrir þjónustu þegar hann notar kort í posa. „Við erum að brjóta múra á milli posa og netviðskipta. Kerfið styður við svokallaða eins smells afgreiðslu (e. One Click Checkout).“

Þessi samþætting bjóði svo upp á að hægt sé að byggja upp tryggðarkerfi með ýmsum útfærslum.

Að lokum segir Ragnar að verðlagning sé sanngjörn og þjónustan góð og traust.

„Við erum mætt til leiks og hlökkum til framhaldsins,“ segir Ragnar. „Það er mikill meðbyr.“