Avdiivka Úkraínskur hermaður fær hér „sjálfu“ með sér og Selenskí Úkraínuforseta í Avdiivka í Donetsk-héraði.
Avdiivka Úkraínskur hermaður fær hér „sjálfu“ með sér og Selenskí Úkraínuforseta í Avdiivka í Donetsk-héraði. — AFP/Forsetaembætti Úkraínu
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti í gær bæinn Avdiivka, sem er í nágrenni Donetsk-borgar, og ræddi þar við þá hermenn sem hafa varið bæinn fyrir sóknum Rússa undanfarna mánuði. Þakkaði hann þeim fyrir þjónustu sínu í þágu Úkraínu, en Avdiivka hefur mátt þola mikla stórskotahríð á síðustu vikum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti í gær bæinn Avdiivka, sem er í nágrenni Donetsk-borgar, og ræddi þar við þá hermenn sem hafa varið bæinn fyrir sóknum Rússa undanfarna mánuði. Þakkaði hann þeim fyrir þjónustu sínu í þágu Úkraínu, en Avdiivka hefur mátt þola mikla stórskotahríð á síðustu vikum.

„Það er heiður minn að vera hér í dag, og þakka ykkur fyrir þjónustu ykkar, fyrir að verja land okkar, Úkraínu og fjölskyldur okkar,“ sagði Selenskí við varnarlið bæjarins.

Heimsókn Selenskís bar upp á sama dag og stjórnvöld í Kreml greindu frá því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði heimsótt hernumdu svæðin í Kerson- og Lúhansk-héruðunum. Pútín heimsótti meðal annars höfuðstöðvar Dnípró-hersafnaðarins, sem og höfuðstöðvar „þjóðvarðliðs“ Lúhansk-héraðs.

Hvorki Sergei Shoígú varnarmálaráðherra né Valerí Gerasímov, yfirmaður herráðsins og æðsti yfirmaður innrásarliðsins, fylgdu Pútín, en hann ræddi þar meðal annars við Mikhaíl Teplinskí, yfirmann fallhlífasveita Rússlands og Alexander Lapín undirhershöfðingja.

Úkraínumenn fordæmdu heimsókn Pútíns, og sagði Mikhaíló Podolíak, ráðgjafi Selenskís, að heimsóknin hefði verið „sérstök útsýnisferð höfundar fjöldamorðanna“ og að Pútín hefði farið þangað til þess að „njóta glæpa undirsáta sinna í síðasta sinn.“

Barist víða í Donbass

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í stöðumati sínu í gær að harðir bardagar ættu sér nú stað vítt og breitt um víglínuna í Donbass-héruðunum. Það væri hins vegar raunhæfur möguleiki að Rússar hefðu dregið úr herafla sínum í nágrenni við Donetsk-borg, og þá líklega til þess að beina meiri herstyrk að Bakhmút og nágrenni.

Sagði ráðuneytið að í Bakhmút væru rússneski herinn og málaliðasveitir Wagner-hópsins að sækja fram í smáum stíl. Helsta víglínan þar væri nú samsíða helstu lestarlínunni í Bakhmút. Þá hefðu Úkraínumenn staðið af sér tilraunir til þess að umkringja varnarlið borgarinnar í suðurátt.

Varnarmálaráðuneytið sagði enn fremur að meginspurningin nú fyrir bæði Rússa og Úkraínumenn væri hvernig þeir myndu standa að því að draga hersveitir sínar frá Bakhmút, þar sem Úkraínumenn vildu búa til herstyrk fyrir yfirvofandi gagnsókn sína, á sama tíma og Rússar vildu líklega reyna að búa til varalið sem gæti svarað slíkri sókn.

Oleksandr Sirskí, yfirmaður landhers Úkraínu, sagði í gær að Rússar hefðu ekki gefið upp á bátinn tilraunir sínar til þess að ná Bakhmút á sitt vald, sama hvað það kostaði, og að þeir hefðu bætt í stórskotahríð og loftárásir sínar á borgina. Kiríló Búdanov, yfirmaður leyniþjónustu Úkraínuhers, sagði hins vegar að Rússar hefðu engin færi á að hefja neinar stærri sóknir að svo stöddu.

Bandaríska varnarmálahugveitan Institute for the Study of War (ISW) sagði í mati sínu að svo virtist sem að Pútín hefði tekið Jevgení Prigósjín, stofnanda Wagner-hópsins, aftur í sátt, þar sem málaliðasveitirnar fengju nú aftur liðsauka og skotfæri frá Rússum. Hermdu heimildir ISW að Wagner-liðar væru nú að þjálfa upp þrjú stórfylki með herkvöddum mönnum til þess að styðja við sókn hópsins í Bakhmút.

Kölluðu sendiherra á teppið

Rússnesk stjórnvöld kölluðu í gær Lynne Tracy, sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi, á teppið til þess að vara hana við því að „valda misklíð“ í landinu. Sögðu Rússar hana hafa sent frá sér „ögrandi yfirlýsingar“ til stuðnings stjórnarandstæðingnum Vladimír Kara-Múrsa, sem var dæmdur á mánudaginn til 25 ára fangelsis fyrir að andmæla stjórnvöldum.

Sagði í tilkynningu rússneska utanríkisráðuneytisins að allar tilraunir Bandaríkjamanna til að „sá misklíð og fjandskap í rússnesku samfélagi, sem og að nýta sendiráðið til að fela undirróðursstarfsemi yrðu kveðnar niður af hörku.“

Ráðuneytið kallaði einnig Deborah Bronnert, sendiherra Bretlands, og Alison LeClaire, sendiherra Kanada, á teppið vegna yfirlýsinga þeirra um dóminn yfir Kara-Múrsa.

Tilkynning ráðuneytisins kom sama dag og rússneskur dómstóll úrskurðaði að bandaríski blaðamaðurinn Evan Gershkovich, sem sakaður hefur verið um njósnir, yrði ekki látinn laus úr haldi gegn tryggingu. Verður Gershkovich því áfram í varðhaldi, en ekki er vitað hvenær réttarhöldin hefjast í máli hans.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson