Hannesi reiknast til að frá árinu 2005 hafi mögru árin á íslenskum fasteignamarkaði verið fimm eða sex talsins, en gengið vel þess á milli.
Hannesi reiknast til að frá árinu 2005 hafi mögru árin á íslenskum fasteignamarkaði verið fimm eða sex talsins, en gengið vel þess á milli. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Rekstur fasteignasölunnar Lindar hefur dafnað vel og starfa þar í dag 40 manns. Hefur Hannes Steindórsson í nógu að snúast við að styðja við starfsfólk sitt en hann er einnig formaður Félags fasteignasala og tók að auki sæti í bæjarstjórn Kópavogs á síðasta ári

Rekstur fasteignasölunnar Lindar hefur dafnað vel og starfa þar í dag 40 manns. Hefur Hannes Steindórsson í nógu að snúast við að styðja við starfsfólk sitt en hann er einnig formaður Félags fasteignasala og tók að auki sæti í bæjarstjórn Kópavogs á síðasta ári.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Þær eru í raun bara hversu fáar eignir seljast á höfuðborgarsvæðinu. Sala fasteigna almennt hefur minnkað um tæp 40% en leiga, laun og rekstur haldist óbreytt. Það þarf að vanda til verka í svona árferði en ég get ekki kvartað og hef verið mjög lánsamur í starfi, með frábært starfsfólk sem skilar alltaf sínu.

Fasteignamarkaðurinn á Íslandi er mjög sveiflukenndur eins og allir vita, það koma alltaf svona tímabil inn á milli, en oftast er nóg að gera þannig að maður kvartar ekki. Síðan 2005 hafa komið kannski fimm eða sex mögur ár en hin árin verið mjög fín.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Það var fyrirlestur um stöðu og framtíð fasteignamarkaðarinns. Hann var mjög áhugaverður, sérstaklega þar sem fræðimenn eru alls ekki sammála um stöðu næstu ára á þessum markaði hér á landi. Við erum alltaf að glíma við sömu vandamálin á nokkurra ára fresti: allt of lítið framboð af lóðum, of lítið byggt af nýju húsnæði og misgott aðgengi að lánsfé, sem þýðir að verð hækkar of skarpt.

Svo þurfum við að stíga á bremsuna, hækka vexti, minnka aðgengi að lánsfé, setja alls konar reglur og ég tala nú ekki um verðbólguna. Þá hefur sennilega engin þjóð í heiminum eins mikinn áhuga á fasteignamarkaði og við Íslendingar.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég læri mest af þeim sem ég starfa með. Það kemur inn nýtt og ferkst fólk á hverju ári í fasteignageirann.

Ég les allar greinar um markaðinn, bæði á innlendum miðlum sem og erlendum, skoða allar tölur, meðaltöl, stærð, verð, gerð og fleira. HMS og bankarnir eru með mikið af góðu fólki sem gefur reglulega út greinar, yfirlit yfir tölulegar staðreyndir og fleira, þannig að aðgengi að góðum gögnum er gott.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já verður maður ekki að segja það? Ég hreyfi mig mikið og borða oftast hollan mat. Hjóla, skíða, hleyp og lyfti stundum, hins vegar er ég alger sælkeri og mætti alveg taka mig á þar.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Þetta er erfið spurning. Mig hefur oft langað til að vera kennari og finnst heillandi að fræða ungt fólk. Það væri annaðhvort að vera grunnskólakennari eða jafnvel jógakennari og skipta alveg um gír.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég minni mig á hvað ég er lánsamur maður. Ég á þrjú yndisleg börn, mikið af góðum vinum og góðu fólki í kringum mig, og sæki kraft til þeirra 40 einstaklinga sem ég starfa með og þá finn ég gríðarlega orku í þessari miklu samkeppni sem er á markaði, og er mikill keppnismaður þar. Svo er auðvitað hreyfingin og allt það fólk sem maður hittir og kynnist í starfinu.

Meðalfasteignasali hittir á einu ári um það bil 600-1.000 eistaklinga á öllum aldri. Það er sennilega það skemmtilegasta við starfið.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Sennilega sálfræði, finnst það áhugavert. Að vinna við að hjálpa fólki hlýtur að vera mjög gefandi en krefjandi einnig.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Gallarnir eru helst þessar sveiflur á markaði, sem eru alltaf áhyggjuefni. Það eru sennilega fáar ef nokkrar stéttir þar sem samkeppni er meiri og starfa um það bil 130 fasteignasölur á landinu. Þar af eru um 100 bara á höfuðborgarsvæðinu og um það bil 600 fasteignasalar.

Í venjulegu árferði seljast um 650-750 eignir í landinu í mánuði hverjum en dag í kringum 500. Sem er bæði kostur og galli. Kosturinn er að fasteignasalar eru á tánum og veita góða þjónustu og seljendur hafa úr mörgum að velja til að sjá um að selja fyrir sig.

Það er tiltöulega auðvelt að draga saman þegar lítið er að gera. Ef þú selur enga fasteign þá færðu engin laun, sem heldur manni á tánum en getur líka valdið óöryggi og stressi.

Ævi og störf

Nám: Stúdentsnám við Menntaskólann í Kópavogi og Fjölbrautaskólann í Garðabæ, útskrifast sem löggiltur fasteignasali frá Háskólanum í Reykjavík 2013.

Störf: Fyrsta alvöruvinnan var á Dominos, bakari og vaktstjóri frá 1993 til 1998, sölumaður hjá Útvarpi Matthildi 1999 og síðar sölumaður og sölu- og auglýsingastjóri hjá Skjá Einum 1999 til 2004; hjá Norðurljósum (nú Sýn) frá 2004, fyrst sem sölustjóri DV og síðar einnig sölustjóri FM 957, X-ins 977, Sirkuss TV, Sirkuss tímarits, PoppTíví o.fl. Hóf að selja fasteignir 2005, fyrst meðfram öðrum störfum. Kosinn í stjórn Félags fasteignasala 2016 og tók við formennsku 2021. Bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs frá 2022.

Áhugamál: Hef mikinn áhuga á fasteignamarkaði almennt, elska að ferðast, þá mest hreyfiferðir (hjólaferðir, skíðaferðir, gönguferðir). Er mikið á fjallahjóli og einnig „racer“-götuhjóli, finnst gaman að skíða bæði á hefðbundinn hátt en einnig á fjallaskíðum. Lyfti og hleyp og prófa reglulega eitthvað nýtt í þeim efnum.

Fjölskylduhagir: Er í sambandi og bý í Kópavogi með börnum mínum þremur, Söru Nadíu 17 ára, Steindóri Erni 15 ára og Evu Nadíu 8 ára.