Evrópuþingið Ursula von der Leyen fagnaði samþykkt laganna í gær.
Evrópuþingið Ursula von der Leyen fagnaði samþykkt laganna í gær. — AFP/Frederick Florin
Evrópuþingið samþykkti í gær löggjöf sem miðar að því að draga úr kolefnislosun sambandsins um 62% fyrir árið 2030 miðað við losun árins 2005 með því víkka út kerfið fyrir viðskipti með kolefnisheimildir, ETS

Evrópuþingið samþykkti í gær löggjöf sem miðar að því að draga úr kolefnislosun sambandsins um 62% fyrir árið 2030 miðað við losun árins 2005 með því víkka út kerfið fyrir viðskipti með kolefnisheimildir, ETS. Þá verða losunarheimildir minnkaðar mjög, fái löggjöfin samþykkt yfirstjórnar sambandsins og aðildarríkja þess.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði á Twitter eftir atkvæðagreiðsluna að merkum áfanga hefði verið náð og hvatti hún aðildarríkin 27 til þess að samþykkja hana sem fyrst, en stefnt er að því að löggjöfin verði staðfest á fundi leiðtogaráðs ESB í maí.

Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, sendu í gær frá sér gagnrýni á löggjöfina, þar sem gert er ráð fyrir því að hún muni hafa áhrif á flug til og frá ESB-ríkjunum frá og með árinu 2026, en íslensk stjórnvöld hafa einnig gagnrýnt þann þátt löggjafarinnar.

Sagði í tilkynningu IATA að samþykktin gæti grafið undan þeirri samstöðu sem hefði skapast um að draga úr kolefnislosun flugiðnaðarins á alþjóðavísu með svonefndu CORSIA-kerfi, auk þess sem sérstakar Evrópureglur myndu auka hættuna á að skekkja samkeppnisstöðu markaðarins.

Sagði IATA að ETS-kerfið fyrir viðskipti með losunarheimildir hefði verið þróað fyrir staðbundinn iðnað innan Evrópu, og að það hefði alltaf verið umdeilt hvort beita ætti því kerfi á hreyfanlegan og alþjóðlegan iðnað, líkt og flugiðnaðinn.