Hækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu gefur vísbendingu um líf á markaðinum.
Hækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu gefur vísbendingu um líf á markaðinum. — Morgunblaðið/ÞÖK
Mörgum hagfræðingnum brá í brún þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í gær, þriðjudag. Vísitalan tók stökk upp á við sem ekki hefur sést frá því að íbúðamarkaðurinn snöggkólnaði upp úr miðju síðasta ári

Mörgum hagfræðingnum brá í brún þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í gær, þriðjudag. Vísitalan tók stökk upp á við sem ekki hefur sést frá því að íbúðamarkaðurinn snöggkólnaði upp úr miðju síðasta ári. Þannig hækkaði vísitalan um 1,5% á milli mánaða í mars en þar af nam hækkun fjölbýla 1%. Vísitalan hækkaði um 0,3% í febrúar en fram til þess hafði hún farið lækkandi milli mánaða, þrjá mánuði í röð.

Enn eftirspurn á markaði

Þrátt fyrir að greining Íslandsbanka hafi reiknað með hækkun vísitölunnar, þá kom hin mikla sveifla þeim töluvert á óvart. „Við bjuggumst við því að hækkun í mars yrði svipuð og í febrúar, hún gæti jafnvel farið í 0,4-0,5% þar sem við reiknuðum með því að það væri einhver gangur á markaðinum, en þessi mikla sveifla kom okkur á óvart,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, en bendir um leið á að mikilvægt sé að fara varlega í að leggja mat á þróunina út frá sveiflu milli mánaða. „Svona hækkun gefur þó vissulega vísbendingu um að enn sé einhver gangur á fasteignamarkaði.“

Það sé í takt við þeirra sýn á markaðinn. „Við teljum að það sé enn eftirspurn á markaði og því ólíklegt að íbúðaverð sé að fara að hríðlækka eins og margir hafa spáð. Við höfum verið ósammála því og stöndum enn við það í dag.“ Þá segir Bergþóra blómlega ferðaþjónustu og erlent vinnuafl meðal þátta sem hafi jákvæð áhrif á eftirspurn á íbúðamarkaði sem kyndi undir íbúðaverð. Þá treysti verðtryggð lán eftirspurn á markaði þegar vextir óverðtryggðra lána eru jafn háir og raun ber vitni. Hún bendir aukinheldur á að framboð á íbúðamarkaði sé enn lítið, þrátt fyrir að það hafi aukist frá því að það náði sögulegri lægð fyrir um einu og hálfu ári síðan. „Það er enn lítið framboð af eignum til sölu miðað við eðlilegt árferði þó þeim hafi fjölgað gífurlega að undanförnu, en það hefur áhrif til hækkunar þegar eftirspurn er til staðar á markaðinum.“

Margt muni ýta undir verðið

Stefán Ágúst Magnússon, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins G1 ehf., segir margt halda uppi íbúðaverði í Reykjavík. Því muni fasteignafélög ekki lækka verð til að selja nokkrar íbúðir heldur taka þann tíma sem þarf til að selja. Því muni nafnverð íbúða ekki lækka.

Höf.: Baldur Arnarson